29.03.1924
Neðri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

100. mál, verðtollur

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer skildist á háttv. 2. þm. Rang. (KlJ), að hann vildi bera mjer á brýn, að jeg hefði breytt skoðun minni á þessu máli frá í gær. Jeg kannast alls ekki við það. Jeg hefi ekkert sagt um, hvort jeg ætli að nota ný lög eða gömul. En jeg hefi sagt, að jeg vilji ekki binda mig. Jeg á það heldur alls ekki víst, að hægt yrði að koma nýjum lögum gegnum þingið. Aftur á móti hefi jeg sagt, að jeg ætli að beita höftum. Ef Framsóknarflokkurinn vill ekki láta sjer nægja það, þá verður að fara sem fara vill.