25.04.1925
Neðri deild: 64. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg þarf að fylgja úr hlaði þeim brtt., sem jeg á á þskj. 338. Jeg þarf ekki að tala nema fátt, þar sem þær eru afturgöngur frá 2. umr., en eru nú bornar fram í annari mynd.

Fyrstu brtt. ber jeg enn fram í samráði við nefnd Búnaðarfjelags Íslands. Var það fyrsta uppástunga nefndarinnar, sem jeg bar fram við 2. umr., að öll vaxtabrjefin skyldu vera skattfrjáls; en hún var feld. Er nú farið skemmra, sem sje að einungis vaxtabrjef fyrsta flokks skuli vera skattfrjáls. Jeg býst við, að það sæti andmælum líka. Við því er ekkert að segja, en jeg hefi talið skyldu mína að bera það fram. Hv. frsm. (ÁJ) sagði, að jeg væri með þessu að vinna fyrir fjepúka íhaldsins. Hann má taka það eins og hann vill, og getur úr flokki talað, en mjer gengur það eitt til að koma vaxtabrjefunum í hærra verð, og gera þannig það sem hægt er til að tryggja bændum betri og hagkvæmari lán. Afleiðingin af því, að vaxtabrjefin seljast með afföllum, eru dýrari lán. Annars þarf jeg ekki að fjölyrða um þetta, en vona, að menn vilji fallast á það.

Síðari 2 brtt. heyra saman og eru um skipun gæslustjóranna. Hæstv. fjrh. (JÞ) er því miður ekki viðstaddur, en hann sagði við 2. umr. þessa máls; að heita mætti, að samkomulag hefði náðst milli sín og búnaðarþingsins um þetta. Mjer skildist á honum, að það væri fremur af formlegum ástæðum, að hann legði á móti þeirri tillögu, sem jeg þá bar fram. Nú er ekki því til að dreifa, svo að jeg vil ekki þurfa að trúa, að hann leggi á móti þessu lengur.

Fleiri orð ætla jeg ekki að segja um mínar tillögur, en víkja að nokkrum tillögum öðrum. Jeg get verið fáorður um tillögur hæstv. fjrh. (JÞ), þar sem hann er ekki við. Jeg get lálið hjá líða að víkja að nema tveim, og hefi um þær sömu aðstöðu og nefndin. Brtt. eru flestar til bóta, en þessar tvær miða að því að skemma frv., sem sje 1. og 6. c–d. Hv. frsm. nefndarinnar (AJ) mælti gegn þeim, og verð jeg að laka undir það, sem hann sagði. Jeg get ekki komist hjá að víkja að því, sem hæstv. fjrh. sagði um andvirði þjóðjarða. Hann áminti deildina um að draga ekki of mikið fje til sjóðsins, því að ekki væri hægt að ná því aftur. Jeg lít öðruvísi á þetta og álít, að draga eigi sem mest fje til sjóðsins, til þess að hann sje sem öflugastur í byrjun. Nú álít jeg að aðstaðan sje hentug um að láta sjóðinn fara myndarlega af stað. Jeg vil því beina til hv. þm. að draga sem mest fje að sjóðnum. Þess meira, sem er af reiðufje í byrjun, þess meiri líkur eru til, að sjóðurinn geti veitt bændum viðunanleg lánskjör. Jeg vil því mótmæla 1. tillögunni, og eins tillögunni viðvíkjandi afborgunum af láni til húsagerðar í sveit. Hæstv. ráðh. (JÞ) leggur á móti því, að lánin sjeu afborgunarlaus í 4 ár. Það er að vísu rjett, að húsin koma að fullum notum strax og búið er að ganga frá þeim, en þegar efnalitlir bændur byggja, fá þeir aðeins part af fjenu, sem þeir þurfa til þess, og verða því að fá lán annarsstaðar, en þá er hagkvæmt fyrir þá að geta fengið að vera í friði með afborganir í ræktunarsjóðinn, meðan þeir eru að grynna á öðrum skuldum, sem þeir hafa hleypt sjer í.

Þá ætla jeg að víkja að brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald), á þskj. 336. Mjer hefði þótt betra, ef hv. þm. hefði talað fyrir henni áður, en það hefir ekki orðið. Hæstv. fjrh.,benti á formlega galla, en jeg vil benda á, að betur hefði átt við, að hv. 2. þm. Reykv., sem ætlar að fela Búnaðarfjelagi Íslands að fara með þetta, hefði átt tal við stjórn Búnaðarfjelagsins áður um þetta. En það hefir hann ekki gert. Að vísu er hjer aðeins um heimild að ræða, en óviðkunnanlegt er að ætla að veita þannig fje út í bláinn. Mjer finst þetta vera alt of mikið gert út í bláinn, til þess að hægt sje að ætlast til, að það nái samþykki. Jeg álít, að eins og sakir standa sje alls ekki tímabært að fara að koma upp 4 tilraunabúum úti um land. Það hefir komið til tals og verið hafið máls á því frá hálfu Landsbankans, að koma upp tilraunabúi á einum stað, en ef á að stofna svona mörg bú, ætti að koma sjerstakt samþykki frá Alþingi í hvert sinn. Jeg get því ekki mælt með þessu, þótt jeg viti, að hv. 2. þm. Reykv. hafi aðeins gengið gott til.

Það hefir orðið samkomulag milli landbn. og Landsbankans um kaup á vaxtabrjefum, eins og tillagan á þskj. 383 ber með sjer. Jeg get fallist á það, þó að jeg hefði talið hitt betra, að kaupunum væri lokið á tveim árum. Hinsvegar veit jeg, að þessi tillaga hefir mikið fylgi hjer, og verð að leggja mikið upp úr góðu samkomulagi milli ræktunarsjóðsins og Landsbankans.

Sömuleiðis vil jeg mæla með till. hv. 3. þm. Reykv. (JakM), á þskj. 326, þar sem hann vill ná því marki, að fje úr ræktunarsjóðnum verði líka lánað til jarðræktar í kaupstöðum. Það er sjálfsagt, hvar sem unnið er að því að rækta landið, að veita til þess hentug lán. Jeg kom fram með svipaða tillögu við 2. umr. sem fór dálítið lengra, en náði ekki samþykki.

Tillaga hæstv. atvrh. (MG) á þskj. 367 er sjálfsögð. Um tillögur hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) ætla jeg ekki að tala, fyr en hann hefir sjálfur talað fyrir þeim.

Hvað viðvíkur tillögum háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) verð jeg að segja, að skoðanir hans og vantraust á framtíð íslensks landbúnaðar gæti sannarlega gefið tilefni til umr., þó að jeg segi ekki margt um það nú. Jeg er þeim anda öllum móthverfur.

Þá ætla jeg ekki að segja meira um brtt., en vil koma að því, að því aðeins er vit að hvetja bændur til verklegra framkvæmda, og því aðeins er vit að stofna slíkan sjóð, að ekki sje stefnt að hækkuðu gengi íslensku krónunnar. Ef ræktunarsjóðurinn lánar bónda 10 þús. krónur afborgunarlaust í 5 ár, og krónan er þá í „pari“, á hann raunverulega að borga 15 þús. kr. Hann er gintur til þess að byggja, og síðan er honum refsað fyrir að hafa unnið þarft verk fyrir sitt föðurland.