07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2070 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

8. mál, verslunaratvinna

Frsm. minni hl. (Jón Kjartansson):

Áður en jeg kem inn á brtt. hv. meiri hl. og annara við þetta frv., ætla jeg með fáeinum orðum að lýsa brtt. minni hl. allshn. á þskj. 419, sem eru aðeins 3, og 1 á þskj. 479, sem af vangá var ekki tekin með, en hún leiðir af 3. brtt. á þskj. 419. 1. brtt. er við 5. gr. og er að mjer skilst leiðrjetting á prentvillu í frv., enda veit jeg til, að frsm. málsins í hv. Ed. benti á þetta.

Þá er önnur brtt. okkar, við 7. gr., sem einnig er leiðrjetting. Það er röng tilvitnun í 6. gr. Það er auðsjeð, þegar maður les þessa grein, að það getur ekki staðist eins og er, en nægilegt að vísa aðeins í 6. gr. um undanþágu.

Þá er 3. brtt., við 13. gr., að verslunarárgjaldið bæði fyrir stórsölu og smásölu, sem var sett í frv. í Ed., verði felt niður. Í þessu atriði er allshn., að undanteknum hv. 2. þm. Eyf. (BSt), alveg sammála. Okkur finst það ekki sanngjarnt að leggja þetta aukagjald sjerstaklega á þessa atvinnugrein í landinu. Þeir, sem þessa atvinnu stunda, þurfa að kaupa þau rjettindi áður en þeir byrja, svo að þessu leyti eru þar sett strangari skilyrði heldur en alment gerist með atvinnuvegi hjer á landi. Þess vegna þykir okkur það ekki sanngjarnt að leggja á atvinnu þessa sjerstakt aukagjald. Nú er það svo, að þetta er fram komið samkv. uppástungu frá Verslunarráði Íslands, sem ætlaðist til, að gjaldið rynni til þess að menta stjettina, og var það þá vel afsakanlegt. En hv. Ed. breytti þessu og samþykti, að árgjaldið rynni til ríkissjóðs, svo með því verður það aukaskattur á þessa atvinnugrein, og það verðum við að telja miður sanngjarnt. Vera má, að þetta kynni að verða lítilsháttar hemill á menn, sem stunda þessa atvinnu; en jeg hygg, að það mundi ekki verka neitt heppilega, eða að minsta kosti ekki í samræmi við tilætlun hv. meiri hl., sem vill reyna að sporna við því, að stærri verslanir geti náð útbreiðslu og bolað hinum minni á bug. Yrði þetta einhver hemill á verslun, þá myndu smærri verslanir hætta, en þær stærri gætu engu að síður haldið áfram og verið reknar á fleiri útsölustöðum í sama kaupstað. Svo er á það að líta, að árgjald þetta myndi aðeins leggjast á vörurnar, og þar með kaupendur þeirra, og kæmi þess vegna ekki rjettlátlega niður.

Þetta eru nú brtt. okkar í minni hl., og jeg býst við, að hv. meiri hl. sje yfirleitt með þeim, að minsta kosti aðalbrtt. við 13. gr., því þar gengur hann nokkru lengra. Hv. meiri hl. hefir einnig gert margar brtt. við frv., sem flestar eru orðabreytingar, sumar máske til bóta, aðrar vafasamar í því tilliti, og aftur aðrar, sem vafalaust eru heldur til skaða. Fyrsta brtt. er við 1. gr., að í stað „tilboðasöfnunar um vörusölu og vörukaup“ fer hv. meiri hl. fram á að setja inn orðið „farsölu“. Jeg hefi ekki heyrt það orð fyr; veit ekki, hvort hv. meiri hl. á við farandsölu, sem til eru lög um frá 1907, en mjer skildist þó á hv. frsm. meiri hl., að „farsala“ væri sama og „agentur“. Jeg kann ekki við þetta orö, en vil þó hinsvegar tæpast gera það að ágreiningsatriði. Tilboðasöfnun um vörukaup er orð, sem mjer finst best ná meiningunni, en farsala getur ef til vill blandast saman við farandsölu, sem er alls ekki sagt, að fylgist að, þótt svo geti átt sjer stað í vissum tilfellum.

Stærsta breyting hv. meiri hl. er við 1. gr., að undanskilja þá alla, sem reka verslun með innlenda framleiðslu frá að heyra undir þessi lög um verslunaratvinnu. Þetta er allstórvægileg breyting, sem virðist ganga alllangt út fyrir það, sem eiginlega er hægt að fara. Skilst mjer það erfiðleikum bundið að setja slík takmörk, og gæti haft ranglæti í för með sjer. Við skyldum segja, að það kæmist á stóriðnaður í húsgagnasmíði. Sá, sem hefði atvinnu af að versla með þá muni, þyrfti ekki verslunarleyfi, en annar kaupmaður, sem verslar með sömu vöru útlenda, þyrfti verslunarleyfi. Jeg álít óheppilegt að hafa takmörkin þarna. Þó það hafi verið gömul venja að binda þetta við borgarabrjef, þá eru menn fyrir löngu horfnir frá þeirri hugmynd. Má sjá í lögum um þessi efni frá 1911 (almenn viðskiftalög), að þar er hugtakið miklu þrengra en hjer er farið fram á. Þar er tvímælalaust sá talinn. kaupmaður, sem rekur verslun með innlendar afurðir eða innlendar vörur.

Við 3. lið 1. gr. hefir meiri hl. gert lítilsháttar orðabreytingu, að í stað „til þarfa sinna“ komi: (pöntunarfjelag). Jeg er ekki alveg viss um, að þetta sje til bóta; en þó býst jeg varla við, að breytingin geti valdið misskilningi.

Þá er ofurlítil breyting við 3. gr., þar sem hv. meiri hl. vill setja strangari skilyrði um heimilisfestu, þannig, að þeir, sem verslunarleyfi geti fengið, hafi verið búsettir hjer á landi 3 síðustu árin, eða til vara 2 síðustu árin; en frv. setur búsetu hjer síðasta árið sem skilyrði. í stjfrv. er, minnir mig, ekki talið neitt nema heimilisfesta. Mjer virðist þessi breyting hv. meiri hl. vera óþörf. Yfirleitt þar sem er sett heimilisfesta í lög, þá virðist mjer nægja, að hún ein sje tiltekin, án þess að farið sje neitt aftur í tímann. Ef nokkur meining er að fara aftur í tímann, þá finst mjer, að miða beri við rjettindi, t. d. kosningarrjettinn, dýrmætasta rjettinn, sem hægt er að fá. En að krefjast 2–3 ára búsetu álít jeg meiningarleysu. Það er alveg rjett, sem hv. 2. þm. Eyf. (BSt) tók fram, að þetta getur verið ranglátt gagnvart íslenskum ríkisborgurum, sem hafa verið heimilisfastir erlendis, en flytja hingað; þeir eru útilokaðir frá þessari atvinnu þangað til þeir hafa dvalið hjer 2–3 ár. Heimilisfestan hlýtur að vera aðalatriðið, því með henni er. fengin trygging fyrir því, að maðurinn sje hjer starfandi. Jeg tel því þessa till. heldur til hins lakara, og tel jafnvel, að þessi heimilisfesta síðasta árið, sem háttv. Ed. setti í frv., hafi verið óþörf. Jeg býst við, að ef þetta verður samþykt, geti það haft það í för með sjer, að kaupmenn fái sjer leppa til þess að stunda fyrir sig þessa atvinnu. Og það er ekki heppilegt að vera að setja svo ströng skilyrði í atvinnulöggjöfina, að menn þurfi að fara að nota leppa.

Brtt. hv. meiri hl. við 3. gr. 5. lið er ekkert annað en afleiðing af því, sem fyr er búið að gera.

Þá eru við 4. gr. brtt. frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Fer jeg ekki langt út í þær. Hina fyrstu brtt. get jeg ekki felt mig við, því mjer virðist það ekki geta komið til mála að leggja það undir bæjar- og sveitarstjórnir, hvort emibættismenn og sýslunarmenn megi reka þessa atvinnu eða ekki. Því það er yfirleitt ætlast til með lögunum, að þessir menn eigi ekki að geta rekið verslun, og þar getur hlutdrægni ráðið um, ef bæjarstjórnum og sveitarstjórnum er lagt í vald, hvort leyfi skuli veita. Það yrði meira samræmi í undanþágunum, ef ráðherra veitir þær, Ein bæjarstjórn kynni að veita leyfið, þar sem önnur bæjarstjórn myndi synja.

Við 6. gr. hefir hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) lagt til, að orðin „nema sveitaverslun sje“ falli niður. Jeg held, að þetta sje ekki rjett hjá hv. þm.; þetta verður að standa þarna, til þess að samræmi sje milli þessarar gr. og 11. gr. frv., og samræmi við þau gildandi lög um þetta efni, að ekkja geti ekki haft sveitaverslunarleyfi manns síns.

Um brtt. við 10. gr. er lítið að segja, nema helst að því er snertir 3. málsgr., þar sem hv. meiri hl. hefir gert efnisbreytingu. Mjer virðist hann hafa misskilið það, sem stendur í greininni, og þar af leiðandi byggi hann brtt. sína á röngum forsendum. Hann skilur 3. málsgr. 10. gr. þannig, að verslunarleyfi heimili mönnum útsölu á fleirum en einum stað í sama kaupstað eða kauptúni. En það er misskilningur. Aftur á móti hefir maðurinn leyfi til að versla á fleirum en einum stað, t. d. í Reykjavík og Hafnarfirði. En í brtt. er ekkert um það sagt, hvort maður megi hafa fleiri útsölustaði en einn á hverjum stað. Annars er brtt. þessi ekki heppileg. Fyrst og fremst segir hv. meiri hl., að verslunarleyfi skuli ekki veita rjett til verslunar á nema einum stað í sama „verslunarumdæmi“. Nú vantar algerlega alla skilgreiningu á því, hvað verslunarumdæmi sje, því það er ekkert því til fyrirstöðu, eins og jeg hefi sagt, að einn maður getur fengið verslunarleyfi til að versla í öllum kaupstöðum landsins, svo verslunarumdæmið gæti þá verið alt landið. En jeg þykist vita, að hv. meiri hl. eigi við einn kaupstað eða verslunarstað, sem hann fær leyfi til að versla í; þá þarf að útskýra þetta betur. Og þar sem hv. meiri hl. fer ekki fram á að fella burt þessi ákvæði 16. gr., að opna brjefið frá 7. apr. 1841 skuli numið úr gildi, þá sýnist mjer hann ekki ná því, sem hann ætlar sjer að ná með þessari breytingu. Annars held jeg, að það sje ekki rjett að halda þessari gömlu reglu áfram, að banna mönnum að hafa nema einn útsölustað í sama kaupstað, því jeg held, satt að segja, að það sje nokkuð úrelt ákvæði og hafi ekki nokkra þýðingu. Hjer í Reykjavík t. d. er það talsvert farið að tíðkast, að menn, sem hafa stóra verslun, hafi útsölustaði víðar um bæinn. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að menn fari þannig í kringum þetta gamla ákvæði; bara að fá einhvern mann til að veita útsölunni forstöðu, og þannig getur sama verslunin haft fleiri útsölur. Vitanlega verða þeir að kaupa verslunarleyfi handa forstöðumanni útibús síns.

Með samvinnulögunum frá 1921 er líka kaupfjelögum veitt leyfi til að hafa útsölu á fleirum en einum stað. Að því leyti sje jeg enga ástæðu til að láta aðra reglu gilda fyrir kaupmenn en kaupfjelög, þar sem er nákvæmlega sama aðferð hjá báðum.

Orðabreytinguna við síðustu málsgrein 10. gr. læt jeg afskiftalausa. Þá hafa bæði hv. meiri hl. og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) komið með brtt. við 11. gr. Hv. meiri hl. fer fram á heimilisfestu í sveitinni, en hv. 1. þm. S.-M. gengur nokkru lengra, að hlutaðeigandi hafi jörð eða jarðarhluta til ábúðar. Það er að vísu svo, að hv. þm. er þarna í samræmi við núgildandi lög; en mjer virðist þetta gamla ákvæði vera úrelt og er ákveðinn fyrir mitt leyti að greiða atkvæði á móti þessum brtt. Jeg álít það nægilegan hemil, þar sem valdið er hjá sýslunefndunum, og tel því óþarfa að krefjast heimilisfestu eða að maðurinn sje búandi á jörð eða jarðarparti. Það getur jafnvel orðið til tjóns fyrir hjeraðsbúa í sumum tilfellum.

Brtt. hv. meiri hl. við 13. gr. er aðeins orðabreyting, og sje jeg því ekki ástæðu til að vera á móti henni. Sömuleiðis býst jeg ekki við að hafa á móti hinni brtt., að fella niður 3. lið síðari málsgreinar.

Brtt. hv. meiri hl. við 14. gr. er orðabreyting, og sömuleiðis brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Tel jeg þær fremur til bóta.

Þá leggur hv. meiri hl. til, að 15. gr. sje feld niður. Jeg sje ekkert á móti því, því að jeg býst við, að óþarfi sje að taka það ákvæði fram í lögum.

Þá hefi jeg farið í gegnum allar brtt. þær, sem hjer liggja fyrir. Eru aðallega þrjár efnisbreytingar, sem sje við 1., 3. og 10. gr., sem jeg vil vara háttv. deildarmenn við að samþykkja.