12.05.1925
Efri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Það má segja, að það þýðir ekki að halda hjer uppi alt of löngum umr. um þetta, þar sem jeg hefi skilið hæstv. fjrh. (JÞ) svo, að hann hafi fallist á álit nefndarinnar og ætli ekki að gera þetta að neinu kappsmáli. Að því er snertir bresku löggjöfina. þá veit jeg ekki annað um hana en það, sem jeg sagði í framsöguræðu minni. Jeg hefi spurt breska ræðismanninn hjer um þetta, en hann fann ekkert hjá sjer í lögum um þetta. Þá var staddur hjá honum Englendingur einn. greindur maður og merkur, sem sagði, að þetta mundi vera numið úr lögum þar fyrir nokkru. Jeg vil taka undir það, sem hv. 5. landsk. (JJ) sagði; jeg vildi gjarnan að nefndinni gæfist kostur á að sjá þessa bresku löggjöf um þetta, því að við leituðum einmitt að þessu, en gátum hvergi fundið. Jeg verð að halda því fram um sjálfa regluna, — jeg játa það að vísu, að reglan er að því leyti útgerðarfjelögunum í hag, — að hún myndi minka tekjuskattinn á þann veg, að það kæmu færri upphæðir undir hærri skattstigin, en aðalatriðið er það, og jeg sný ekki frá því „principi“ í reglunni, er sje einniitt það, að í staðinn fyrir það, að varasjóður leggur fje til hliðar til að tryggja fjelagið, sem verður að skoða sem mjög holla reglu, þá er það svo í þessu tilfelli, að þar er verið að leggja skuld til hliðar, það er að segja, að maður, sem á að greiða skuld, honum er gefinn frestur á töluverðri greiðslu. og hún færð yfir á næstu ár. Þetta sjest greinilega, ef menn hafa fyrir sjer skýrslu skattstofunnar og kasta svo árunum 1922 og 1923 fram fyrir góðárið 1924, svo að það kæmu tvö vond ár yfir á eftir; þá losna fjelögin við að greiða töluverðan skatt nú, en þnrfa svo að endnrgreiða mikið af honum á vondu ámnum. Þetta er mjög óheppilegt og óholt, því að það er hart að fá tekjuskattinn yfir sig, þegar ástæðurnar eru orðnar erfiðar. Mjer er ennfremur ómögulegt að sjá annað en að fjelag, sem byrjað hefði á góða árinu 1924 og borgað fullau skatt af því, af því það hafði enga fortíð, mundi verða hart úti, ef 1925 og 1926 yrðu vond ár, því þá þyrfti það að borga auk fulla skattsins eftir árið 1924 einnig skatthækkun fyrir það ár á 1925 og 1926. Þannig hefi jeg skilið þetta, — eða er það ekki rjett? (Fjrh. JÞ: Jú). Með þessu er í skattalöggjöfinni skapað svo mikið ranglæti, að jeg minnist ekki að hafa sjeð annað meira.

Jeg skal nú, meðan jeg man, leyfa mjer að leiðrjetta villur í nál. Þar stendur 628428 kr., en á að vera 613640 kr. Ennfremur stendur á öðrum stað „hækkun“ fyrir „lækkun“.

Eftir útreikningi skattstofunnar tapar ríkissjóður þetta ár fullum 613 þús. kr. við meðaltalsregluna. Það er auðvitað, að mikið af þessu fje kemur inn aftur á næstu árum. En hve mikið það verður, er ekki hægt að segja um nú.

Hæstv. fjrh. talaði um álit bankanna. Það er satt, að bankastjórar beggja bankanna, að mjer undanteknum, hafa látið uppi álit sitt um þetta mál. Er ekkert um það að segja. Það er auðsjeð, að banka stjórarnir hafa ekki getað litið öðruvísi en vingjarnlega á þá hlið málsins, að fjelögin þyrftu ekki að greiða allan þennan háa skatt á þessu ári.

Þá sagði hæstv. fjrh., að afstaða sín til málsins nú miðaðist við afstöðu mína til málsins sem bankastjóra íslandsbanka.

Út af þessum ummælum hæstv. ráðherra vil jeg taka það fram, að bankarnir eru þegar búnir að taka sína afstöðu með áliti meiri hluta bankastjórnanna. En jeg hefi tekið mína afstöðu sem fulltrúi þjóðarinnar, en ekki sem bankastjóri. Þetta bið jeg hæstv. ráðherra að athuga.

Þá vil jeg þakka hæstv. ráðherra (JÞ) fyrir, hversu vel hann tók í að taka tekjuskattslögin til endurskoðunar. Það er rjett, að fjhn. þessarar hv. deildar kom því ákvæði inn í þau á þinginu 1921, að þau giltu aðeins um ákveðinn tíma. Var þetla gert til þess að tryggja, að lögin yrðu endurskoðuð mjög bráðlega.

Það er satt, að endurskoðun þessa lagabálks er mikið verk, svo mikið, að telja má víst, að stjórnin þurfi aðstoð til þess. Jeg skal að sjálfsögðu bera þetta atriði undir meðnefndarmenn mína, en jeg tel sjálfsagt, að stjórnin fái þá hjálp, sem hún þarf.

Það er þá ekki fleira, er jeg þarf að taka fram. Jeg þykist hafa gért fulla grein fyrir afstöðu minni til þriggja ára meðaltalsreglunnar. Jeg tel regluna sem slíka mjög óheppilega, jafnvel þó að maður hugsaði sjer þann möguleika, að tekjuskatturinn yrði hvorki meiri eða minni fyrir ríkissjóð, því að hún kemur altaf ranglátlega niður á sumum fjelögum. Í öðru lagi dregur hún fjelögin til þess að geyma skuldir til framtíðarinnar, sem þau myndu annars borga, og hvetur því fremur fjelögin til óvarfærni. Og í þriðja lagi er hún óheppileg fyrir þá sök, að ríkissjóður getur átt á hættu að tapa við hana fje.