23.02.1925
Efri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2371 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

61. mál, vörutollur

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Þó að flokkunin í vörutollslögunum sje orðin talsvert greinileg, þá er samt ekki nema eðlilegt, að árlega komi ef til vill ýmislegt það í ljós, er sýni, að hún gæti verið betri og komið sanngjarnara niður, og er þá nauðsynlegt að breyta því til hins rjettara undir eins og þörfin krefur. Það er af þessum ástæðum, að jeg ber fram frv. þetta, sem er á þskj. 69.

Þær vörur, sem jeg legg til, að færðar verði til í flokkuninni, hafa hingað til fallið undir 7. fl. og tollurinn því verið 6 kr., að viðbættum 25% gengismismun, miðað við 100 kg. Allar þessar vörur eru ýmiskonar veiðarfæri og útgerðinni jafnnauðsynlegar eins og þau önnur veiðarfæri, sem talin eru upp í 2. lið 1. gr. laganna. Virðist því ekki nema sanngjarnt að láta þessar vörur eftirleiðis falla undir 2. lið.

Það má að vísu segja, að hjer sje um smámál að ræða, en það er líka rjettlætiskrafa að lagfæra lögin, svo að þau komi ekki misjafnlega niður að óþörfu. Þess vegna vona jeg, að háttv. deild geti fallist á þessar breytingar, og legg til, að málinu verði vísað til fjárhagsnefndar.