02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

61. mál, vörutollur

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Eins og sjá má af nál. fjhn. um þetta frv., þá hefi jeg sem skrifari nefndarinnar og frsm. í þessu máli skrifað undir nál. og brtt. fyrir hönd fjhn. Það þýðir það, að meðnefndarmenn mínir gátu ekki lesið yfir nál. — vegna þess, hvað tíminn var naumur — en fólu mjer að skrifa það. Vænti jeg þess, að þeir hafi ekki neitt sjerstakt út á orðalagið að setja. Hinsvegar voru þær breytingar, sem gerðar eru á þessu þskj., samþyktar í einu hljóði á nefndarfundi í gær. Sömuleiðis var það samþykt í nefndinni að leggja á móti brtt. á þskj, 239. Þarf jeg ekki mörgum orðum að bæta við það, sem tekið er fram í nál. Aðeins vil jeg geta þess, að síðan 2. umr. fór fram hefir nefndin fengið lista yfir þær vörur, sem fjármálaráðuneytið hefir samkv. heimild vörutollslaganna fært úr 7. lið og í 2. lið; og ennfremur, að nefndin hefir bætt við örfáum vörutegundum, sem henni þótti sjálfsagt, eftir núgildandi vörutollslögum, að setja undir 2. lið. Úr því netagarn er undir 2. lið, þá fanst nefndinni ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að garn til fiskiumbúða fjelli undir þann lið. Ennfremur hefir nefndin bætt við nokkrum vörutegundum, sem stjórnin hefir fært milli liða, botnvörpuhlerum, skipaskrúfum, bátsuglum, togspilum, veiðarfæralásum, botnrúllukeðjum og stýriskeðjum. Nefndinni þótti sjálfsagt, að þar sem akkerisfestar falla undir 2. lið, þá ættu líka stýriskeðjur og botnrúllukeðjur að falla undir sama lið. Um togspilin er það að segja, að það hvílir ákaflega þungur skattur á einu einasta stykki, ef þau eru í 7. lið. En hinsvegar er það nauðsynlegt fyrir útgerðina að hafa varaspil; því það getur komið fyrir hvenær sem er á vertíð, að spil eyðileggist. Samkv. 7. lið mun vörutollurinn á þessu eina áhaldi nema milli 600 og 700 kr. En áhald þetta er eins nauðsynlegt og lóðarspil í bátum.

Um brtt. nokkurra hv. þdm. á þskj. 239 var nefndin sammála að leggjast á móti henni, af þeim ástæðum, að af henni leiðir ca. 71/2 eyris toll á hvert kg. þessarar vöru, heyi. En slíkt álítur nefndin með öllu ófært, þar sem svo stendur á í mörgum kauptúnum og sjóþorpum, að það er alls ekki hægt að afla nægilegs heys í grendinni, og mjög erfitt að fá það keypt að, nema helst frá útlöndum. Það mun líka verða ærið vandasamt fyrir stjórnina, ef hún ætti að gefa undanþágur samkv. fyrirmælum till., því það hygg jeg henni erfitt að ákveða, hvenær er yfirvofandi fóðurskortur í þessu eða hinu hjeraðinu. Annars hjelt jeg, að það væri ekki svo ríflegur heyskapur á landi hjer, að hey megi telja verslunarvöru meðal landsmanna, nema kannske hjer í Reykjavík og lítið eitt á Akureyri.

Ekki fæ jeg skilið, að útlenda heyið útrými hinu innlenda, eða spilli sölu þess í venjulegum árum. Gæti það vitaskuld átt sjer stað að einhverju leyti, þegar mjög vel heyjaðist. En þegar lítið aflast af heyi, þá mun sveitunum síst veita af öllum heyskapnum handa sjer. Og þar sem nú svo stendur á, að á hverju ári er heyvöntun í einhverju bygðarlagi, þá finst mjer fyrir mitt leyti ekki ástæða til að tolla svona hátt þetta aðkeypta fóður.

Jeg býst við, að öllum komi saman um nauðsyn þess að flytja inn kraftfóður, enda er það flutt inn í langtum stærri stíl en hey. Og í tollaálagningu virðast svipaðar reglur eiga að gilda um hey og kraftfóður.