02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2380 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

61. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þar sem framhaldsnál. hv. fjhu. var ekki útbýtt fyr en uú á fundinum, hefi jeg ekki haft nægilegan tíma til þess að bera þær brtt., sem þar er stungið upp á, saman við núgildandi lög um vörutoll frá 1921. Þó get jeg sagt svo mikið, að ýmislegt er í þessum brtt., sem leiðinlegt er að fá inn í lögin. Má þar til nefna hrein útlend vöruheiti, eins og t. d. í síðustu brtt. hv. nefndar. Mjer sýnist allsendis óþarft að hafa vöruheiti þetta á öðru máli en okkar eigin. Sama er um flest þau orð að segja, sem eru höfð í svigum í brtt. Þau mættu gjarnan missa sig, enda alveg óþarft að festa þau heiti í íslenskum lögum.

Sumstaðar mætti fara betur með efnið, ef gera á svo víðtæka endurskoðun á 2. flokki vörutollslaganna, sem bæði þær breytingar, sem þegar er búið að samþykkja, og svo þessar, sem hv. nefnd leggur nú til, hafa í för með sjer.

Sem dæmi skal jeg nefna, að nú eru í 2. flokki akkeriskeðjur, en samkv. brtt. hv. nefndar eiga botnrúllukeðjur og stýriskeðjur einnig að tollast í þessum flokki. Þegar svo langt er komið, er eðlilegast að tolla allar keðjur úr járni í 2. fl. í 7. fl. verða aðallega eftir kýrbönd og þessháttar keðjur, og er mjög erfitt fyrir tollheimtumenn að aðgreina sömu vörutegundina í mismunandi tollflokka eftir því, til livers á að nota það, sem inn er flutt í hvert skifti.

Annað dæmi, sem jeg get tekið í fljótu bragði, er um togspil, sem út af fyrir sig er ljótt orð, sem er alveg óþarfi að lögfesta. Nú eru tollaðar samkv. 2. flokki lóða- og akkerisvindur, og ef menn vilja bæta þessum vindum við 2. flokk, þá fer að láta nærri, að hreinlegra sje að tolla allar vindur samkv. 2. flokki, til hvers sem þær kunna að vera notaðar.

Mjer finst sem sagt, að ef menn annars vilja breyta vörutollslögunum svo mjög, þá sje rjettara að yfirvega málið dálítið betur og fá til þess aðstoð þeirra manna, sem hafa sjerþekkingu í þessum efnum, manna, sem eru vanir að framkvæma slíka aðgreiningu ýmsra vörutegunda.

Ef tími hefði til unnist, þá veit jeg ekki nema jeg hefði reynt að koma með nokkrar brtt., en úr því sem komið er, ræður hv. deild, hvað hún gerir. Frv. fer að öllum líkindum aftur til Ed., og þá gefst enn möguleiki til þess að gera á því nauðsynlegar breytingar.

Annars verð jeg að segja, að jeg álít enga nauðsyn bera til að breyta vörutollslögunum eins og nú standa sakir.

í 3. gr. þeirra laga er stjórninni heimilað að lækka toll á ýmsum vörutegundum, ef hann verður annars að telja svo háan eftir lögunum, að ekki sje sanngjarnt hlutfall milli hans og útsöluverðs vörunnar. Þessi heimild hefir verið talsvert notuð á þann hátt að flytja vörur úr 7. fl. niður í 2. fl. laganna, en lengra verður ekki komist niður á við, samkv. takmörkunum í 3. gr.

í rauninni mætti nota heimild þessa meira en gert hefir verið, samkv. bendingu frá Alþingi og einstökum nefndum, og hygg jeg, að best væri að láta það nægja að þessu sinni, úr því sem komið er. Þó skal jeg geta sjerstaklega um eina vörutegund, sem í frv. þessu á að flytja í 2. flokk, sem sje net, einkum þorskanet. Stjórninni hefir ekki þótt næg ástæða til að flytja þessa vörutegund úr 7. fl. í 2. flokk. Henni hefir ekki þótt hlutfallið milli tollsins samkv. 7. fl. og verðs vörunnar rjettlæta það sanikv. 3. gr. laganna. Nú mun þetta frv. aðallega til þess fram borið að fá net tolluð samkv. 2. fl., og get jeg þá lýst yfir því, að stjórnin mun sjá sjer fært að færa toll af netum niður í 2. fl. samkvæmt heimild 3. gr., eftir að hafa heyrt samróma álit hv. fjhn. beggja deilda um, að svo beri að gera.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 239, um að tolla hey, sem nú er tollfrjálst, samkv. 7. fl. vörutollslaganna, verð jeg að segja það, að þessi brtt. er ekki í hinu minsta samræmi við lögin að öðru leyti og ekki heldur við tilgang laganna.

Tilætlun vörutollslaganna var upphaflega eingöngu sú, að afla ríkissjóði tekna. Þau voru upphaflega sett til þess að bæta ríkissjóði upp tekjumissi, sem hann varð fyrir vegna annara breytinga á löggjöf landsins, nefnilega þegar bannlögin voru sett, enda bera lögin sjálf þess ljósust merki, að sá er tilgangur þeirra. En þessi brtt. fer beinlínis fram á, að tollákvæði vörutollslaganna verði notuð sem verndartollur, enda mælti hv. aðalflm, (JS) fyrir till. á þeim grundvelli. Þessi breyting mun heldur aldrei gefa ríkissjóði tekjur svo nokkru nemi, og það því síður, sem óhjákvæmilegt verður að beita heimild 3. gr. gagnvart heyi, ef til kemur, og færa það niður í 2. flokk. Útsöluverð á heyi mun nú vera 20–25 au. kg., og eru fáar vörutegundir svo ódýrar. Að minsta kosti er óhætt að fullyrða, að engar vörutegundir, sem tollaðar eru í 7. fl., eru nándar nærri eins ódýrar. Þar af leiðandi verður ekki hjá því komist að beita heimild 3. gr. um hey, ef það verður tollað á annað borð og heimildin látin standa.

Annars álít jeg ekki viðeigandi að ræða mikið um verndartolla í sambandi við vörutollslögin. Verndartollar verða ekki settir á í þeim tilgangi að afla ríkissjóði tekna, heldur af alt öðrum ástæðum. Og jeg held, að það sje rangt á þessu sviði, eins og öðrum, að leggja svo gífurlegan verndartoll á aðfluttar vörur sem brtt. segir. Afleiðingin yrði sú, að innflutningur á útlendu heyi hyrfi úr sögunni, nema í neyð, og jafnframt mundi verð á innlendu heyi hækka að mun hjá þeim, sem stunda heyskap í þeim tilgangi að selja heyið til kaupstaðanna. Að vísu eru það einkum kaupstaðabúar sjálfir, sem þessa atvinnu stunda; en útkoman verður sú sama, eins og yfirleitt með alla verndartolla. Þeir taka fje úr vasa eins borgara þjóðfjelagsins og láta í vasa annars, en ríkið sjálft græðir lítið sem ekkert.

Innflutningur á heyi hingað til lands er svo lítilfjörlegur, að ómögulegt er, að hann geti haft nokkur áhrif til eða frá á afkomu annars aðalatvinnuvegar landsmanna, landbúnaðarins. Árið 1922, síðasta árið, sem verslunarskýrslur eru fullgerðar fyrir, nam innflutningur á heyi 173 tonnum, og sem betur fer er sveitabúskapurinn ekki enn orðinn svo vesall, að hann skifti nokkru, hvort þetta er flutt inn eða ekki. Ennfremur er þess að gæta, að þetta hey er nær eingöngu flutt til þeirra staða á landinu, sem innlendur heyafli nær ekki til, og ef tekið verður fyrir þennan innflutning, verður afleiðingin sú, að til þessara staða verður meira flutt inn af útlendum búsafurðum. Heyið er aðallega flutt inn til mjólkurframleiðslu þar, sem erfitt er að ná til innlendra heyja, og hverfi innflutningurinn, verður að flytja þess meira inn af útlendri dósamjólk í stað mjólkurinnar, sem þá verður ekki hægt að framleiða á þennan hátt.

Annars er þetta mál í sjálfu sjer of smávaxið til þess að ræða út frá því verndartollastefnuna í heild. En ef tolla á hey eftir núgildandi vörutollslögum, þá nær ekki nokkurri átt, að það sje tollað annarsstaðar en í 1. flokki laganna. Það er engin skynsamleg ástæða, sem mælir nieð því að borga hærri toll af 1 kg. af heyi en 1 kg. af kartöflum, sem tollaðar eru samkv. 1. flokki.