02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

61. mál, vörutollur

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Mjer þykir undarlegt, að háttv. 1. þm. G.-K. (ÁF) skyldi finna svona mörg mállýti í þessum brtt. Jeg veit ekki betur en að nöfnin sjeu tekin eftir lista frá Fjelagi íslenskra botnvörpuskipaeigenda, en þar hefir hv. 1. þm. G.-K verið mikils ráðandi um margra ára skeið. Þar að auki hafa nöfnin verið notuð af stjórninni, þegar hún hefir gefið undanþágur, og birt í Stjórnartíðindum. Því þarf ekki að kenna fjhn. um þetta. Botnrúllurnar vill hv. þm. kalla valtara. Þær eru ekki ætlaðar til þess að sljetta botninn, á sama hátt og valtarar á landi eru hafðir til að sljetta jarðveginn, enda er orðið rúlla svo gamalt í málinu, að jeg skil ekki í, að það hneyksli marga. Jeg mótmæli því, að málið sje tekið út af dagskrá og sent nefndinni, því til þess eru engar skynsamlegar ástæður.