17.03.1925
Neðri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2407 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Pjetur Ottesen:

Eins og háttv. þdm. muna, stóð þannig á, þegar frv. þetta kom til 1. umr. hjer í deildinni, að komið var fram undir lok fundartíma og ekki tækifæri til þess að tala alment um það. Vænti jeg nú, að hæstv. forseti verði umlíðunarsamur við mig, þó jeg segi hjer fáein orð alment um málið.

Eins og menn vita, hefir mikið verið rætt um það á undanförnum þingum að gera breytingar á embættaskipun landsins, einkum með það fyrir augum að draga úr hinum gífurlega kostnaði, er þar af leiðir og segja má, að sje vaxinn þjóðinni langt yfir höfuð, eins og best sjest á því, að þótt nálega hafi verið stöðvaðar allar verklegar framkvæmdir í landinu, þær, sem stuðst hafa við fjárframlög úr ríkissjóði, hefir samt orðið að ganga mjög nærri gjaldþoli þjóðarinnar til þess að fá nógar tekjur til þess að standast lögboðin útgjöld og vexti og afborganir af skuldum ríkisins.

Það má segja, að tiltölulega lítið hafi áunnist á undanförnum þingum í því efni að draga úr útgjöldum ríkissjóðs með því að fækka og færa saman embætti og sýslanir, og hefir þó ögn orðið ágengt í þá átt. Aftur á móti hefir mikið unnist á í því að standa á móti þeim stríða straum af stofnun nýrra embætta, sem áður kvað svo mikið að, svo næstum hefir tekið alveg fyrir hann.

Eins og kunnugt er, var á síðasta þingi skorað á stjórnina að skipa nefnd til þess að gera till. um breytingar á embættaskipuninni, þannig að færa hana í það horf, að henni fylgdi minni kostnaður fyrir ríkið.

Nefnd þessi var skipuð og hefir hún nú starfað um hríð, og jeg geng út frá því sem sjálfsögðum hlut, að hún haldi áfram að gera till. um þessi efni, og það alveg eins fyrir því, þó þeim till. verði ekki lokið svo snemma, að þær geti komið fyrir þetta þing. Og einmitt með þetta fyrir augum hefi jeg og fleiri háttv. þm. ekki komið fram með till. í þessum efnum, sem við mundum annars hafa gert.

Þær till, sem frá þessari hv. nefndhafa komið og bornar hafa verið fram hjer í þinginu, tel jeg að liggi utan við hið eiginlega verkefni nefndarinnar. Það er vitanlegt, að svo víðtækar breytingar, sem gera þarf á embættaskipuninni, svo verulegur sparnaður yrði að fyrir ríkissjóðinn, krefjast mikils undirbúnings og umhugsunar, og er engin furða, þótt nefndinni hafi ekki enn unnist tími til slíks. En þegar rætt verður um breyting á embættaskipuninni, þá er þess að vænta, að ekki verði alveg gengið framhjá kirkjumálum landsins. Eins og kunnugt er, var á þinginu 1904 kosin milliþinganefnd til að athuga skilnað ríkis og kirkju, sem ýmsir hjeldu þá fram, að væri æskilegur. Nefndin klofnaði, og hjelt minni hluti hennar, núv. hæstarjettardómari Lárus H. Bjarnason, fram skilnaði, en hinir nefndarmenn lögðust á móti honum. Aðalniðurstaðan var þá sú, að steypa saman brauðum, þar sem því yrði helst við komið, enda fækkaði prestum nokkuð við það. Það væri nú ekki ástæðulaust að ætla, að nefnd þessi, er nú situr á rökstólum um þessi mál, athugaði það, hvort ekki væri tiltækilegt að skilja ríki og kirkju, og því fremur er ástæða til að ætla þetta, þar sem Lárus H. Bjarnason, er leit svona á málið þá, er formaður nefndarinnar. Auðvitað er ekki hægt að segja um það, hver, niðurstaða nefndarinnar myndi verða, hvort það yrði skilnaður ríkis og kirkju eða frekari brauðasamsteypa, sem sumstaðar virðist geta átt sjer stað. En að þessu athuguðu þykir mjer harla kynlegt að fara að bera þetta frv. fram nú. áður en sjeð verður, hverjar till. nefndarinnar kunna að verða, og meðan ekki hefir ræst betur úr fjárhagsástandi ríkissjóðs en ennþá er orðið. Því þó afkoma síðasta árs megi teljast góð, þá eru margar óbættar syndir að baki. — Er auk þess lítill vafi á því, að af samþykt þessa frv. mundi leiða, að það kæmi fleira á eftir. Man jeg það, að á þinginu 1921. er þetta sama frv. lá hjer fyrir, sigldi undireins kjölfarið annað frv., um stofnun prestsembættis í Skaftafellssýslu og fleira. Mjer þykir ekki ólíklegt, að krafan um það yrði vakin upp aftur, ef þetta frv. yrði samþykt. Jeg verð því að telja mjög varhugavert að ganga inn á þessa braut, því þó ekki vinnist mikið á í því efni að draga úr útgjöldum ríkisins í þessa átt, þá er að minsta kosti sjálfsagt að standa á móti straumnum og sporna við stofnun nýrra embætta.

Í nál. hv. allshn. er vitnað í umræðurnar, sem urðu um þetta mál 1921, og get jeg vel fylgt því dæmi. Þar mun flest hafa verið tínt til með og móti, og hefir víst lítið breyst síðan í þessu efni, nema helst það eitt, að nú sje ennþá minni ástæða til að stofna þetta nýja embætti en áður var. Má þar á meðal nefna það. að fólki mun frekar hafa fækkað þarna en fjölgað á síðari árum, af breyttum atvinnuháttum. Erfiðleikar eru miklir á um útræði í Bolungarvík, og því hafa veiðar á stórum bátum (mótorbátum) aukist mjög í seinni tíð, en þeim verður ekki haldið úti frá Bolungarvík sökum hafnleysis. Jeg vil enn taka það fram, að þó erfiðleikar sjeu auðvitað nokkrir á því fyrir prestinn að koma á annexíuna, þá voru þær frásagnir um þessa erfiðleika. sem færðar voru hjer fram er mál þetta lá fyrir þinginu 1921, mjög orðum auknar, og þá ekki síður gert mikið úr kostnaðinum við að komast á annexíuna; í hvorutveggja tilfellinu var gerður úlfaldi úr mýflugunni, eins og jeg sýndi fram á eftir upplýsingum, sem ekki var hægt að hrekja.

Að erfiðara sje að fara sjóveg á þessa annexíu heldur en áður, vegna þess hve Bolvíkingar sjeu orðnir sjálfum sjer nógir um alla verslun og því um líkt, þá er mjer sagt, að úr þessu sje meira gert en rjett er og að ferðir sjeu einmitt mjög tíðar milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Og ekki get jeg tekið undir það, að þetta hafi breyst til hins verra við það, að mótorbátar komu í stað árabáta. Skil jeg ekki, að þeir, sem hlut eiga að máli, setji presti sínum svo þrönga kosti um flutning, að ekki megi við una, þegar um ferð er að ræða hvort sem er.