17.03.1925
Neðri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla ekki að lengja mikið þessar umr., sem þegar eru orðnar alllangar, en það eru þó nokkur atriði í þessu máli, sem jeg vildi víkja að með nokkrum orðum. Menn hafa fært þrjár ástæður með þessu frv. Fyrsta ástæðan er fólksfjöldinn, sem geri þessa tvískiftingu nauðsynlega, önnur erfiðleikar, sem stafa af staðháttum, og þriðja, að það sje nauðsyn þjóðinni að fjölga prestsembættum. Viðvíkjandi fólksfjöldanum er það að segja, að hann einn er ekki næg ástæða til að rjettlæta frv., þar sem mestur hluti fólksins var á einum stað — Ísafirði. Þetta er því ekki berandi saman við víðlend og strjálbygð prestaköll í sveit. Staðlegir erfiðleikar geta að vísu verið miklir á þessum slóðum, en það hefir þó ekki verið bent á, að nokkur bylting af náttúrunnar völdum hafi orðið þarna nýlega, sem hafi orsakað aukna erfiðleika. Þessir erfiðleikar eru ekki annað en það, sem þarna hefir átt sjer stað alla tíð frá upphafi. (MT: Reiðvegurinn hefir þó eyðilagst). En enda þótt ástæðurnar fyrir þessu frv. væru að sumu leyti viðurkendar rjettar, þá er þó ekki þar með sagt, að þetta sje eina rjetta úrlausnin á málinu. Það hefir áður verið bent á það, að komið gæti til mála að sameina Hólssókn við annað prestakall (í Súgandafirði). En þó er þar sá hængur á, að það verður ekki hægt fvr en það brauð losnar. En þá finst mjer, að bæta mætti úr þessu með því að veita prestinum á Ísafirði erfiðleikauppbót til þess að halda aðstoðarprest, og með því mætti komast hjá að stofna nýtt prestsembætti. Ef menn eru þeirrar skoðunar, að prestarnir sjeu of fáir hjá okkur, þá er eðlilegt, að frv. eins og þetta komi fram. En þeir eru líka til, sem álíta prestana óþarflega marga. Jeg viðurkenni fúslega þá þýðingu, sem prestarnir hafa haft og hafa fyrir þjóðlíf okkar, en prestafjöldi sá, sem við nú höfum, er að nokkru leyti arfur frá liðnum öldum, frá miðöldunum, þegar prestar voru nær einu lærðu mennirnir í þjóðfjelaginu og urðu því að vera svo að segja alt í öllu. Nú er þetta breytt. Það er búið að ljetta af prestunum miklu af þeim störfum, sem þeir höfðu áður. en við sitjum eftir með allan þennan fjölda af prestum. Þeim hefir ekki fækkað að sama skapi og störf þeirra hafa minkað. Jeg fæ nú ekki sjeð, eftir því sem ástæður eru til, að þörf sje á að hafa fleiri presta en lækna. Við höfum nú um 40–50 læknishjeruð, og litlu fleiri lækna, en prestarnir eru yfir 100. Af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú tilfært, vona jeg, að mönnum skiljist, að jeg muni ekki greiða þessu frv. atkv. mitt.