07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

1. mál, fjárlög 1926

Jakob Möller:

Það svarar nú ef til ekki kostnaði að tala hjer langt mál. Mun jeg þó víkja að ýmsu, er fram hefir komið á víð og dreif í umræðunum.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), sem því miður er nú ekki viðstaddur hjer, vjek að þeirri brtt. minni, er fór fram á að hækka tekju- og eignarskatt. Taldi hann slíka hækkun með öllu óverjandi, og taldi jafnvel, að fjvn. hefði sett markið þar of hátt. Þetta er þó næsta furðuleg staðhæfing, því að verstu árin hafa tekjurnar verið um 800 þús. kr. Háttv. þm. (JAJ) bygði þessar hrakspár sínar á því, að sá hái tekju- og eignarskattur, sem útgerðarfjelögin gyldu með þessum hætti, yrði dreginn frá næsta ár. Það er að vísu satt, að fjelög þessi greiða háan skatt, en það eru heldur engin smáræðisáhrif, sem honum er ætlað að hafa, þar sem hann á ekki aðeins að koma til frádráttar hjá útgerðarmönnum, heldur einnig að lækka skatt á öðrum. Það eru líka fleiri en útgerðarfjelögin, sem skatt greiða. Undanfarin ár hafa útgerðarfjelögin sama sem engan skatt greitt, og hefir tekjuskatturinn þó numið um 800 þús. kr., og það þrátt fyrir frádrátt tekjuskatts frá skattskyldum tekjum.

Hv. þm. sagði, að útgerðarmenn ættu að stríða við aukinn kostnað sökum hækkandi kaupgjalds. Ekki ætti það að koma eingöngu að sök, því að afleiðingin er þá sú, að verkamenn þeirra hafa á þann hátt hærri tekjur en áður, og greiða þeir þá nokkru hærri skatt.

Yfirleitt var speki þessa hv. þm. (JAJ) ærið torskilin. Því hefir ekki verið mótmælt enn, sem jeg sagði í gær, að sú myndi verða raunin á, að tekjurnar yrðu hærri en þetta, enda mun það sannast áður en lýkur.

Hæstv. fjrh. (JÞ) vjek líka að þessari till. minni og talaði eins og við 2. umr. um kreppu þá, er myndi koma yfir land og lýð árið 1926. Reyndar var hann ekki alveg jafnviss um það nú eins og áður, að þessi kreppa kæmi, en þó var hann við það heygarðshornið. En það var og næsta eftirtektarvert, að þótt hann talaði jafnan annað veifið um þessa óskaplegu kreppu, þá var altaf viðkvæðið, að tap væri að ráðast í nokkrar framkvæmdir nú sem stæði, vegna þess, að gengið myndi hækka á næstu árum. En þessar röksemdir stangast, og það er sannarlega ekki gott að fást við slíka rökfærslu. Ef gengi hækkar, hlýtur það að stafa af góðæri, en ekki af kreppu. Jeg veit ekki, hvoru hæstv. fjrh. trúir. En það voru helstu mótbárur hans gegn fjárveitingunni til landsspítalans, að ráðlegra væri að bíða eftir verðfalli heldur en að ráðast þegar í framkvæmdir. En skyldi kreppan ekki geta dunið yfir, ef það verður dregið lengur. Ef ekki má ráðast í slíkt, þegar vel gengur, verður það aldrei hægt. En ef kreppan er hinsvegar á næstu grösum, þá ætti einmitt nú að ráðast í spítalabygginguna, samkv. orðum hæstv. ráðherra sjálfs um það, að í slíkar framkvæmdir eigi að ráðast á „mögru“ árunum.

Háttv. frsm. fyrri kafla fjárlagafrv. (ÞórJ) taldi rjett að bíða í 1–2 ár ennþá með byggingu landsspítalans. Eins og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði, er búið að segja þetta svo oft áður, að hægt er að segja það í 10–20 ár enn.

Jeg hefi ekki fleira að segja um þessar brtt. mínar, brtt. um að hækka tekju- og eignarskatt og um fjárframlag til landsspítala, því að jeg hefi svarað þeim helstu mótbárum, sem fram hafa komið gegn þeim. Hvað hækkunartill. mínar við tekjuhliðina snertir yfirleitt, læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja, hvort samþyktar verða. En hitt veit jeg, að þær ganga síst of langt.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hafði að athuga við till. mína um að hækka aukatekjurnar um 25 þús. kr., upp í 325 þús. kr., er það að segja, að tekjur þessar hafa tvö undanfarin ár numið 330 þús. kr. og 400 þús. kr. Hjer er því varlega farið í sakirnar, enda eru aukatekjurnar samkv. till. minni ofan við meðaltal, enda þótt gengislækkunin sje ekki öll lögð við.

Um aðrar brtt. mínar var lítið annað sagt en það, að fjvn. treysti sjer ekki til að mæla með þeim. Það spáir að vísu ekki góðu um afdrif þeirra, en jeg vænti þess, að hv. deild athugi, hvað á bak við liggur. Jeg vildi hjer sjerstaklega minnast á eina brtt. mína, um styrk til iðnskólans. Jeg býst við, að hv. þm. hafi sjeð af skýrslu þeirri, er hjer hefir verið útbýtt, að tekjuhalli hefir orðið á rekstri skólans undanfarið ár, sem svarar þeirri upphæð, sem fram á er farið í till. minni. Fræðsla sú, sem þessi skóli veitir, er lögskipuð, og má því ekki niður falla. En hinsvegar er auðsætt, að skólinn getur ekki haldið áfram að starfa með tekjuhalla ár eftir ár, og skólagjöld eru það há, að ekki er á bætandi.

Þá vildi jeg víkja nokkuð að brtt. hv. fjhn. viðvíkjandi mjólkurverksmiðjunni Mjöll í Borgarfirði. Ágreiningur er um það í nefndinni, hvort verksmiðjan skuli njóta tollverndar eða styrks. Munurinn er sá, að með verndartolli eru þeir menn skattlagðir, sem síst mega við því, og er það hart aðgöngu, þegar er um að ræða iðnfyrirtæki í landinu sjálfu, í stað þess að láta kostnaðinn af slíkum styrk koma eftir efnum og ástæðum á bak allra landsmanna. Slíkir verndartollar eru ekki vel sjeðir við sjávarsíðuna, og það er mjög vafasamt, hvort verksmiðjan græddi nokkuð á þeirri tollvernd. Vitanlega skiftir það ekki miklu máli í sjálfu sjer, hvort fjárveitingartill. meiri eða minni hl. fjhn. verður samþykt. Það er till. minni hl. í sambandi við verðtollsfrv., sem hjer er inn deilt. En rjett er að vekja athygli hv. þdm. á því, að máli þessu er stofnað í hættu með þessum reipdrætti.