18.03.1925
Neðri deild: 36. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2515 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

74. mál, slysatryggingar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg hefi ekki haft nægan tíma til þess að athuga frv., en jeg trúi því, að nefndin hafi athugað það vel. Veit jeg, að þetta er nauðsynjamál og framtíðarmál.

Jeg er samþykkur hv. frsm. um það, að við verðum að læra mikið af reynslunni í þessu máli. En eins og jeg sagði áðan, þá efast jeg ekki um, að nefndin hafi athugað málið vel. Þó er þar ýmislegt, er mjer finst vafi geta á leikið. Eftir frv. skilst mjer, að þeir, sem vinna að húsbyggingum í sveitum, skuli trygðir. Er það ekki rjett? (JBald: Jú, það er rjett). Þá skilst mjer, að það muni verða erfitt fyrir bændur að koma við slíkri tryggingu. Eins er um þá menn, er vinna að hreppavegum. Þar yrðu allir menn að vera trygðir, þótt þeir ynnu ekki nema aðeins eitt dagsverk. Og fleira mætti telja. En jeg býst við því, að nefndin hafi athugað þetta og hugsað sjer útvegi þar um.

Að öðru leyti skal jeg ekki ræða mál þetta frekar að sinni, en geta vil jeg þó þess, að mjer finst, að með jafnmiklum rjetti mætti taka fleiri menn í áhættuflokkana heldur en frv. gerir ráð fyrir, og að sumir sjeu teknir þar, er síður ættu að vera þar en aðrir. Þó getur þetta auðvitað verið álitamál, og verður hyggilegast, eins og jeg sagði áðan, að láta reynsluna skera úr og þreifa sig áfram í þessu efni. Og að síðustu vil jeg enn taka það fram, að jeg vænti, að jeg megi reiða mig á athuganir og rannsókn hv. allshn. í málinu.