07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. síðari kafla (Tryggvi Þórhallsson):

Það eru aðeins fáar athugasemdir, sem jeg þarf að gera.

Það fór sannarlega að losna um tunguhaftið á a. m. k. 4 hv. þm. út af því, sem jeg sagði hjer áðan um styrkinn til búnaðarfjelaganna. Þeir hv. þm. Ak. (BL), hv. þm. Borgf. (PO), hv. þm. Dala. (BJ) og hv. 1. þm. N.-M. (HStef) hafa allir veitt mjer föðurðegar áminningar, auk hæstv. fjrh. (JÞ), sem jeg kem brátt að. Jeg þarf síst að svara hv. þm. Borgf. (PO), enda áttum við tal um málið í nefndinni og komumst báðir að sömu niðurstöðu út frá sömu forsendum. Jeg talaði ekki um fortíðina í minni ræðu, og þegar hæstv. fjrh. vjek að starfsemi fjelaganna fram að 1914, þá mintist hann rjettilega á þær framkvæmdir, sem þau hefðu hrundið af stað. En ef hann hefir með því ætlað að ósanna mitt mál, þá veður hann reyk, því að jeg er honum alveg sammála um það, að búnaðarfjelögin hafi á þessum tíma gert mikið gagn. En nú er aðstaðan breytt. Það getur verið, að það hafi ekki komið nógu skýrt fram í orðum mínum, sem jeg vildi sagt hafa. En það var þetta, og það mæli jeg fyrir hönd allrar fjvn. nema hv. þm. Dala., að þegar við töldum upp alt, sem þingið hefir nú á prjónunum til styrktar landbúnaðinum, ræktunarsjóðinn, kæliskip, styrk til Búnaðarfjelags Íslands og fjárveiting vegna jarðræktarlaganna, þá var það álit okkar, að hjer væri styrkurinn til búnaðarfjelaganna veigaminsti liðurinn. Þetta var samhuga álit í nefndinni, að þetta, sem jeg nú taldi, bæri okkur að leggja alla áherslu á, án þess þó að við vildum neitt rýra álit búnaðarfjelaganna. Við viljum því síður leggja áherslu á það að hœkka styrkinn til búnaðarfjelaganna að svo komnu. En jeg skal játa það, að jeg mun eiga erfitt með að greiða atkv. á móti till.

Loks vil jeg beina nokkrum orðum til hv. þm. Dala. (BJ) út af þessari till. Jeg efa fullkomlega, að hann þekki til fullnustu, hvernig hjer er varið málum. Áður var þessi liður í fjárlögunum verðlaun fyrir unnar jarðabætur. Er því svo varið nú? Nei. Aðstaðan er breytt. Nú stendur nýr liður í fjárlögunum til verðlauna nýjum jarðabótum, 50 þús. kr. Þessi liður er 21/2 sinnum stærri en sá, sem hv. þm. Dala. vill setja inn, og 5 sinnum hærri en hinn, sem hv. þm. vill breyta.

Þá kem jeg að seinni liðnum, sem jeg vildi einkum tala um. Það er Skeiðaáveitan. Um hana hafa talað þeir hæstv. fjrh. (JÞ), hæstv. atvrh. (MG) og hv. 2. þm. Árn. (JörB). Jeg fullyrði, að meiri hluti fjvn. stendur fast við það að gera þá kröfu að ófrávíkjanlegu skilyrði fyrir till. sinni, að skipulagi verði komið á fjárreiður áveitufjeðagsins áður en byrjað verði að greiða í peningum sjerstakan styrk til þess. Jeg efa það ekki, sem hv. 2. þm. Árn. (JörB) tók fram, að bændurnir á Skeiðunum vilji standa við skuldbindingar sínar. Og ef svo er, þá á þeim að vera ljúft að sýna það í verki. Þá á þeim að vera metnaðarmál að láta það koma fram, áður en byrjað er á því seinasta, sem á að gera fyrir þá í þessu máli.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði rjettilega, að það væri ekki það sama að gefa eftir vextina af áveituláninu fyrir árin 1924 og 1925 og að koma skipulagi á fjárreiður fjelagsins. En í beinu samræmi við það vill fjvn., að ekki sje byrjað á greiðslu til þeirra fyr en 1926, einmitt af því að þetta umrædda skipulag er enn ekki komið á.

Jeg vil þá víkja fáeinum orðum að ræðu hæstv. fjrh. (JÞ). Hann leitaðist við að svara fyrirspurn minni viðvíkjandi landsspítala, en svar hans var næsta óljóst, og varð ekki á því sjeð, að hann hefði neina ákvörðun tekið í þessu stórmáli. Hann talaði um, að mjer væri tamt að vísa til fornsagnanna í ræðum mínum, og er það satt. En þá dettur mjer í hug í þessu sambandi, það sem Þórður Andrjesson sagði um Gissur jarl, að menn mættu hafa það til marks um, að hann væri feigur, ef hann treysti Gissuri. Jeg get sagt það sama, að þá væri jeg feigur, ef jeg tryði hæstv. fjrh. (JÞ) fyrir landsspítalanum.

Þá skoraði hæstv. fjrh. (JÞ) á hæstv. forseta að skera úr því, hvort tillaga mín væri lögleg. Jeg býð rólegur þessa úrskurðar, en minna mætti á það, að hæstv. ráðherra (JÞ) hefir einusinni áður mátt hlíta úrskurði hæstv. forseta (BSv). Það var í fyrra, og þá var það ekki hæstv. fjrh. (JÞ), sem brosti. Má vera, að á líka lund fari enn!

Að lokum vil jeg víkja fám orðum að ræðu háttv. þm. Dala. (BJ). Hann ljet sjer þau orð um munn fara, að meira fje gengi til yfirstjórnar sandgræðslunnar en hennar sjálfrar. En jeg vil aðeins geta þess, að sú upphæð, sem veitt er til sandgræðslunnar, stendur jafnan í fjárlögunum, og fer ekkert af því til atvrh., sem hefir á hendi yfirstjórn sandgræðslunnar.

Þá sagði hann ennfremur setningu, sem mig furðaði á. Hann kvaðst síst vera viss um, að því fje væri vel varið, sem færi til Búnaðarfjelags Íslands, en vill þó hækka styrkinn til þess um 50 þús. kr. Mjer finst dálítil mótsögn í þessu tvennu. En um gagnsemi Búnaðarfjelagsins vil jeg auðvitað ekki rökræða við hann. — Annars skemti jeg mjer mætavel undir ræðu háttv. þm. (BJ), og sjerstaklega var gaman að heyra það, sem hann sagði í garð hæstv. stjórnar út af sakamálsrannsókninni. Hjó þar sá, sem hlífa skyldi, en honum hefir farið þar líkt og Þorgeiri Hávarðssyni, sem hjó mann vegna þess, hve vel hann stóð við högginu.