25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2552 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

74. mál, slysatryggingar

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Allshn. hefir nú haft þessar till. til athugunar á fundi sínum síðan málið var til 2. umr. Athugaði hún þá bendingar þær, er fram hafa komið, sjerstaklega frá hæstv. atvrh. (MG), og eins bendingar einstakra hv. þm. Tók nefndin til yfirvegunar, hve langt hún gæti gengið í því að fallast á brtt. við frv., og brtt. þær, sem nefndin sá sjer fært að samþykkja, eru að finna á þskj. 214, og þær brtt. eru allar miðaðar við þær aths., sem fram komu við 2. umr. málsins. Fyrsta brtt. nefndarinnar er sú, að bæta inn í 1. gr. 2. b. vinnu í sláturhúsum, eins og óskað hafði verið eftir í þessari hv. deild. Nefndin viðurkendi, að rjett væri að tryggja menn fyrir slysum, sem vinna í sláturhúsum. Stendur sláturtíðin hjer í Reykjavík yfir 3–4 mánuði og einnig alllangan tíma í fleiri hjeruðum. En í sláturhúsunum eru notuð bæði eggvopn og skotvopn, og hafa oft slys orðið þar, og kunnugt er, að slík meiðsli hafast oft illa við. Ennfremur hefir nefndin lagt til að taka póstana undir 1. gr. 2. d.

Brtt. við 8. gr. frv. hefir nefndin tekið upp eftir bending frá hv. 3. þm. Reykv. Hefir hann bent nefndinni á, að menn, sem láta róa hjeðan frá Reykjavík, hafa oft sinn manninn hvern daginn, og einhver tregða á því verið að fá þessa menn trygða. En nefndin telur það brýna nauðsyn, að allir sjómenn sjeu trygðir. Nefndin hefir því tekið upp, að hægt sje að tryggja ákveðna tölu skipverja í róðri. Út frá þessari brtt. vil jeg taka það fram, að það er álit nefndarinnar, að ef frv. verður afgreitt í þeirri mynd, sem það nú er í, þá sje rjett, ef skift er um menn á lögskráðu skipi, að ef ekki er útrunninn tryggingartími þess, sem fer, þá geti hinn notið góðs af því tryggingargjaldi, sem fyrirfram var greitt. Mun þetta ekki geta skert tekjur sjóðsins að nokkrum mun, þó að sú tvígreiðsla iðgjalds falli niður, sem stundum á sjer stað nú.

Höfuðbreyting nefndarinnar er sú brtt., sem hún ber fram við 21. gr. frv. Höfðu menn einkum mikið að athuga við þessa gr. við 2. umr., og þá sjerstaklega hæstv. atvrh. (MG), þótti hún ekki nógu rúm að því er snertir framkvæmd laganna. Má jeg segja, að nú hafi þessi brtt. verið borin undir hann og hann tjáð sig geta fallist á hana. Mönnum þótti sem tafsamt væri og erfitt að þurfa að tryggja menn við smástörf í sveit, og því. er nú farið fram á, að smáfelda starfsemi megi undanþiggja tryggingarskyldu fyrst í stað. Í öðru lagi hafa menn haft það við frv. að athuga, að það færi ekki nógu langt, en það var þegar bent á það við 2. umr., að það, að allir flokkar væru ekki teknir upp, kæmi af því, að frv. væri í rauninni aðeins rammi eða grundvöllur, sem altaf mætti bæta ofan á með því að bæta við nýjum flokkum. Jeg býst heldur ekki við, að mönnum geti dottið annað í hug en að í fyrsta sinn, sem tryggingarlög eru sett, hljóti að falla burtu ýmsir flokkar, sem áhættusamir eru, eða að strax verði fundin heppilegasta leiðin til að heimta inn gjöld o. s. frv. Enda er frv., eins og bent hefir verið á, atvinnutrygging, en ekki almenn slysatrygging. Nei, hjer verður auðvitað að bíða að sumu leyti eftir reynslunni og byggja síðan á henni. Einnig er nú svo frá gengið, eftir brtt. nefndarinnar við 21. gr., að stjórnin getur altaf tekið upp nýja flokka, er henni þykir það fært, og auk þess getur Alþingi altaf gripið inn í og hert á, því að ekki þarf annað en með einfaldri þál. að skora á stjórnina að taka nýja flokka upp til tryggingar. Jeg efast ekki um, að stjórnin muni altaf verða við þeirri ósk, og þetta er því fyrirhafnarminna, sem ekki þarf lagabreytingar við.

Jeg geri því ráð fyrir, að brtt. mæti ekki mótspyrnu, en geri frv. aðgengilegra í augum þeirra, sem helst hafa eitthvað haft að athuga við það. Jeg vil taka það fram fyrir hönd allsherjarnefndar, að hún vill benda á, að þótt stjórnin fái heimild til að undanþiggja smáfelda starfsemi, þá megi hún ekki undanþiggja tryggingarskyldu uppskipunarvinnu, tölul. 2. a., því næst sjómensku telur nefndin þessa vinnu síst mega falla undan tryggingarskyldunni.

Þegar jeg kem að brtt. hv. þm. á þskj. 226, mun jeg víkja að greinargerð hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) fyrir þeim, og eins athugasemdum hans við brtt. nefndarinnar. En fyrst ætla jeg að víkja að hv. þm. Mýra. (PÞ). Hann hefir komið fram með brtt. við brtt. sína á þskj. 161, þar sem bætt er úr því, sem nefndin fann að tillögunni við 2. umr. Jeg get sagt það fyrir hönd nefndarinnar, að hún er tillögunni hlynt, ef brtt. verður samþykt.

Þá kem jeg að brtt. á þskj. 226; þar eru þær brtt., sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir mælt fyrir hjer í hv. deild. Þær eru flestar þess eðlis, að þær sumpart draga úr tryggingarskyldu í frv., eins og það er, og taka auk þess út meginið af hættulegri vinnu, eins og t. d. uppskipun. Jeg skal, áður en jeg fer lengra út í þessar brtt., lýsa því yfir, að nefndin felst á 1. og 4. till., og er viðbótin raunar í samræmi við það, sem nefndin hefir hugsað sjer, að fælist í brtt. við 21. gr. frv. Þá er 7. brtt. Um hana mun jeg ekki tala sjerstaklega. Jeg held nefndarmenn muni eftir atvikum sætta sig við, að stjórn sjóðsins sje heimilt að víkja frá settum reglum, ef sjerstaklega stendur á. Háttv. 1. þm. S.-M. taldi brtt. háttv. þm. Mýra. óþarfa, ef þessi yrði samþykt. Svo er ekki, því að jeg álít rjett að taka fram sem flest atriði í frv. sjálfu og setja sem nánastar reglur um, hvernig úthlutun fari fram. Í skiftingunni verður að vera sem minst handahóf, og þó að þetta sje ákveðið, er það aðeins til bráðabirgða, af því að menn hafa ekki fundið nógu skýrt orðalag á 5. gr. Þá er ekki meira í brtt. þessara hv. þm., sem nefndin mælir með. Þá eru þær brtt., sem nefndin leggur á móti. Jeg skal ekki fara út í iðgjaldagreiðslu, því að hv. 1. þm. Árn. (MT) hefir rætt það atriði sjerstaklega. 2. brtt. fer fram á það, að ferming og afferming skipa og báta, sem nota vjelavinnu við þessa vinnu, falli undir tryggingarskylduna því aðeins, að vinnan standi yfir meira en 1/2 dægur. Ef þessi brtt. verður samþykt, fellur burt mikill hluti allrar uppskipunarvinnu hjer í Reykjavík. Hv. tillögumenn hafa borið þeim mönnum á brýn, sem sömdu frv., að þeir hafi ekki þekt til nema í Reykjavík. Má með sama rjetti segja um þá, sem samið hafa þessar brtt., að þeir viti ekki, hvernig uppskipun fer fram hjer, og furðar mig á því, þar sem einn þeirra er framkvæmdarstjóri togarafjelags. Við uppskipun úr togurum eru jafnaðarlega ekki notaðar vjelavindur, og verði því þessi brtt. samþykt, fellur langstærsti hlutinn af uppskipunarvinnunni undan tryggingarskyldunni. Jeg veit ekki, hvort það hefir vakað fyrir þeim. Hv. 1. þm. S.-M. hefir ekki lýst því svo nákvæmlega. En togaraafgreiðslan stendur heldur ekki yfir nema 5–6 tíma, svo að frá því sjónarmiði falla þeir heldur ekki undir tryggingarskyldu. Einnig fellur undan tryggingarskyldunni mestöll uppskipunarvinna við strandferða- skipin úti um land, sem venjulega stendur ekki lengur en 5–6 tíma. Á síðastl. sumri kom jeg með „Goðafossi“ norðan um land, og jeg man það, að uppskipunin stóð ekki lengur en 4–5 tíma, nema aðeins á stærstu höfnunum. Menn, sem vinna að uppskipun á meira eða minna hættulegum stöðum og þar, sem hafnleysur eru, falla þannig undan tryggingarskyldu. Sje það meiningin hjá hv. þm., eru þeir stefnu nefndarinnar andvígir, og vilja þá raunar fella niður einn nauðsynlegasta liðinn í tryggingunum.

Þá vjek háttv. 1. þm. S.-M. að því, að hann vildi ekki láta tryggja menn, þó að þeir hlypu í að ferma og afferma skip. En það vakir fyrir nefndinni og er almenn ósk manna, að menn sjeu trygðir við þessa vinnu.

Þá er 3. brtt. Þar er talað um að fella fiskverkun og ísvinnu undan. Hv. 1. þm. Árn. (MT) hefir vikið að þessu. Þessi vinna, þ. e. a. s. fiskverkun, er að því leyti hættuleg fyrir fólk, að það getur fengið og fær oft meiðsli í hendur, og jeg hefi hugsað mjer, að þeir, sem vinna við síldarvinnu á sumrin, falli undir tryggingarskyldu, því að við þá vinnu fá þeir oft ilt í hendur. Það liggur máske í orðunum, en mjer þótti rjett að taka það fram. (SigurjJ: Það liggur ekki í orðunum). Jeg álít, að það eigi að falla undir fiskverkun. En að fella þetta fólk burt er sama og að svifta sjóðinn tekjum. Ef á að hugsa sjer slysatryggingu, er ekki nóg að tryggja fólk aðeins við allra hættulegustu vinnuna, og kannske ekki nema á fáum stöðum á landinu, því þá yrðu iðgjöldin alt of há, þegar aðeins fáir menn ættu að bera uppi tryggingargjöldin. Annars er meiningin, þó hver atvinnu- eða áhættuflokkur út af fyrir sig eigi að bera sig, að upp komist fjársafn. Annars er ómögulegt að halda uppi tryggingum. Og sje fiskverkun slept, leiðir af því skerðing á tekjum sjóðsins. Jeg held yfirleitt, að hv. flm. tillögunnar hafi ekki athugað, hversu mikinn skaða þeir gerðu með þessu tryggingarmálinu í heild sinni; þeir verða að athuga það, að ef áhættan er lítil. er gjaldið lágt, en þó ávalt dálítið hærra í hverjum flokki en út þarf að borga, svo að hinn sameiginlegi tryggingarsjóður eflist ár frá ári. Að því er snertir framkvæmd laganna um tryggingar á fólki, sem vinnur slíka ígripavinnu eins og fiskverkun o. fl., þá er það ekki ætlun nefndarinnar, að iðgjöldin þar sjeu greidd fyrirfram, heldur t. d. eftir hverja viku, og sjeu iðgjöldin þá greidd eftir vinnuskrám þeim, sem haldnar verða, og nú munu þegar haldnar af flestum þeim, er þessa atvinnu reka í stærri stíl.

Hvað 5. brtt. viðvíkur, sjer nefndin ekki ástæðu til að mæla með henni. Það yrði kannske sparnaður fyrir hið opinbera, sem mest lætur vinna af því, sem talið er upp í 2. tölul. d.; en það er vitanlegt, að ekki verða ósjaldan slys við þessa vinnu, og þá munu yfirmenn fylgja þeirri reglu að greiða einhverjar bætur þeim, sem fyrir slysinu verður. Það sparar þá lítið fyrir ríkissjóð, en mennirnir væru vissari um að fá bætur. Skyldudagsverk við vegavinnu í sveitum mætti undanskilja í reglugerðinni. En að fella alveg burt vegavinnu, sem er í nokkuð stórum stíl, finst mjer ástæðulaust. Jeg skil ekki, hvers vegna á að undanskilja lögregluþjóna, tollþjóna, svo og vitaverði og starfsmenn við vita. Hv. 1. þm. S.-M. gerði enga grein fyrir því. Jeg hefi heldur enga ástæðu heyrt fyrir því og álít það misráðið. Með því að gera þessar takmarkanir, held jeg, að þeir hv. þm., sem að brtt. standa, geri erfiðar framkvæmdir, af því að orðalagið er svo teygjanlegt, þar sem talað er um „meiriháttar“ brúargerðir o. s. frv. Jeg veit raunar ekki, hvort það á við annað en brúargerð, en svo kemur alt hitt á eftir í upptalningunni. Og þar sem hv. 1. þm. S.-M. hefir helst fundið frv. það til foráttu, að það væri ekki nógu alment, ætti hann síst að gera þessar takmarkanir, sem eru mjög ósanngjarnar og til erfiðleika í framkvæmd laganna.

Þá ætla jeg ekki að minnast frekar á brtt. Hv. 1. þm. Árn. mintist á „princip“- atriði, hverjir eiga að greiða tryggingargjald, en jeg er algerlega andvígur þeirri brtt., sem fer fram á, að iðgjöldin sjeu færð yfir á verkamenn. Það var fundið að því um daginn, að þetta væri of mikið bákn og hvorki fugl nje fiskur, heldur tóm skriffinska. En jeg held, að brtt. þessarar hv. þm. auki skriffinskuna. Og þær takmarkanir, sem þeir vilja gera, svo sem um uppskipun o. fl., kemur mjög í bága við það, sem þeir halda fram um, að tryggingarnar eigi að vera almennar.

Hjer mun jeg láta staðar numið að sinni. Jeg þykist hafa sýnt fram á, að þær tillögur á þskj. 226, sem nefndin getur ekki fallist á, eru óhæfar til að komast í lögin, og bent á, að ekki má fella uppskipun undan tryggingarskyldu, enda mundi það skaða sjóðinn með iðgjaldamissi og hækka iðgjöldin að miklum mun, vegna þess, hve fáir menn við þessa atvinnu fjellu undir tryggingarnar. Undir fiskverkun heyrir líka vinna í þurkhúsum, en þar eru notaðar vjelar. Fyrir skömmu lá við miklu slysi í einu þurkhúsi hjer í bæ, og sýnir það þörfina á að tryggja fólk við þá vinnu.

Jeg býst nú við, að þeir hv. þm., sem að till. standa, taki til máls aftur og gefi mjer þá frekara tækifæri til svara.