20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2604 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

118. mál, herpinótaveiði

1676Flm. (Sigurjón Jónsson):

Jeg hefi ekki farið fram á það. að málið næði fram að ganga án þess að hv. þdm. gæfist kostur á að athuga það vel; jeg hefi lagt til að málinu sje vísað til nefndar.

Það er rjett hjá hv. 2. þm. Skagf. (JS), að árið 1923 var þingið óskift um mál þetta. Þótt undarlegt sje, fer það svo að segja umræðulaust í gegnum þingið. Þetta er þeim mun meira undrunarefni, þegar þess er gætt, að mjög skiftar voru skoðanir um það 1913. En ef satt skal segja, þá hafa nú einmitt þessi heimildarlög sýnt sig, og sýnt það, að öll slík heimildarlög hafa reynst illa, orðið óvinsæl, og samþyktirnar verið margbrotnar. Gildir þetta ekki aðeins um samþyktir á Skagafirði, heldur er líka allur almenningur við Faxaflóa og Ísafjarðardjúp fráhverfur þeim reglum, er settar hafa verið með fiskiveiðasamþyktum, er gerðar hafa verið eftir lögum frá þinginu.

Vona jeg, að hv. þdm. geti fallist á skoðun okkar í þessu máli. Hjer er ekki farið fram á það að svifta Skagafjörð hinni innri línu, sem ákveðin var samkv. lögunum 1913.

Um veiðarfæraskemdirnar og það, sem um þær er sagt, þá get jeg ekki sjeð, að neinu sje hnekt af því, sem jeg sagði áður, en verð þó að geta þess, að það er hæpið, sem hv. 2. þm. Skagf. hefir um það sagt. Og eins og jeg hjelt fram áður, þá er það meira í þágu síldveiðamanna sjálfra að koma ekki nærri lóðunum, því að þeim er það stórtjón, ef saman lendir. (JS: Þeir gera það samt!). Jeg skal ekki fullyrða neitt, eins og jeg sagði áður, um síðari ástæðuna, en hitt er þó víst, að Skagfirðingar hafa mikið gagn af síldveiðum þarna seinni hluta sumars, því að þá fá þeir oft beitu hjá síldveiðabátunum, og sjer enginn eftir því að láta þá fá nokkrar skeppur af síld. Verið getur að síldveiðar verði ekki eins að ári og verið hefir, en þá sjá allir, að það gerir ekkert til þótt ytri línan sje ekki til. Það er aðeins í norðanátt, að það er stórskaði fyrir síldveiðarnar, að þetta svæði skuli friðað.

Jeg skal endurtaka það, sem jeg mintist á áðan, að tjónið, sem af þessu leiðir fyrir Skagfirðinga, er hverfandi lítið móts við það tjón, sem aðrir bíða af samþyktinni. Við skulum segja, að 200 tunnur af síld fengjust í lagnet, en á sama tíma gætu aðrir fengið tugi þúsunda tunna í herpinætur, og þolir það engan samanburð.