20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2605 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

118. mál, herpinótaveiði

Ágúst Flygenring:

Mjer er það gersamlega óskiljanlegt, að þessi lög frá 1923, sem hjer er farið fram á, að numin sjeu úr gildi, skyldu nokkurn tíma hafa komið fram. Jeg hygg, ef þeir menn hefðu athugað þá reynslu, sem við höfum vitnað til um fiskiveiðar, og þekt nokkuð af þeim dæmum, sem við þekkjum, þá hefðu þeir ekki hikað við að fella frv. strax.

Það eru til svo átakanlegar fiskiveiðasamþyktir við Faxaflóa, sem gengu svo langt að banna mönnum fiskinn, að fólkið var að deyja úr hungri um leið og fiskurinn sást uppi við klettana; en fólkinu var ekki leyft að taka hann. Þeir, sem áttu landið að sjónum, en höfðu ekki ráð á að fiska með þessum og þessum veiðarfærum, þeir vildu gera aðra sjer jafna, að ekki mætti veiða fyr en þá og þá eða með tilteknum veiðarfærum, beitu o. s. frv., t. d. var það slagorð, að síldin væri eitur fyrir sjóinn, þ. e. a. s., ef þorskurinn kæmist á síldina, þá vildi hann ekki annað. Það yrði að kenna honum að jeta vissa fæðu eða taka rjetta beitu, með því að allir stæðu ekki jafnt að vígi með að afla sjer síldbeitu. Með öðrum orðum: Þetta var alt sprottið af öfundsýki manna, sem gátu ekki unt öðrum að veiða þorskinn, þegar þeir sjálfir höfðu ekki tök á því. Þeir, sem muna 30—40 ár aftur í tímann, þeir vita, að þetta er rjett. Þessu var líkt farið fyrir norðan jökulinn og víða á Vesturlandi; jeg hefi reynt þetta sjálfur og þekki það.

Jeg hugsaði, að öllum mönnum ætti að vera það ljóst, að samþyktir í þessa átt eru hreinasta hindurvitni, sem er bygt á öfund og meinsemi. Við þekkjum ekki nóg göngu fiskjarins, líf hans og eðli, til þess, að við getum sagt með nokkru rjettlæti, að ekki megi fiska á þessum eða hinum staðnum. Stundum koma göngur inn á Skagafjörð, eins og hv. 2. þm. Skagf. (JS) benti á, en stundum engar. En það er aldrei hægt að segja, að síldin fari inn í fjarðarbotn, ef enginn veiddi utar. Við þekkjum alls ekki eðli síldarinnar að þessu leyti; við vitum ekki, hvað það er, sem lokkar hana upp að landsteinum eða veldur því, hve innarlega hún gengur í firðina.

En jafnvel þótt svo væri ástatt, eins og ýmsir ímynda sjer, að einhver óhöpp stöfuðu af veiðinni utar í firðinum, þá er málið álitamál fyrir því, þar sem síldveiði með nótum frá landi getur aldrei orðið eins örugg og sú veiði, sem nú er stunduð yfirleitt. Því það geta altaf komið fyrir ár, og það mörg ár, sem síldin gengur ekki að landi. Á því urðu Norðmenn að kenna, bæði á Austfjörðum og við Ísafjarðardjúp, fyrir 40 árum, og urðu þeir að hverfa þaðan. Síldin hætti að ganga inn í firðina, en enginn veit hvers vegna. Það var jafnmikið af henni fyrir því. En enginn getur borið neitt um það, hvað það var, sem olli þessari breytingu.

En hvað sem öllu því líður, þá álít jeg, að landhelgin ætti að vera öllum íslenskum ríkisborgurum jafnfrjáls. Dragi maður þá ályktun, að það sje rjett að heimila Skagfirðingum að friða Skagafjörð fyrir síldveiðum, þá mætti eftir sömu reglu og með sama rjetti heimila t. d. Skaftfellingum eða öðrum, sem land eiga að sjó, að hanna veiðar í sinni landhelgi. Vitaskuld býst jeg ekki við, að menn hugsi til þess nú, en þeir eiga alveg sama rjett og Skagfirðingar til þessa.

Að þetta spilli þorskveiðinni, er ekki rjett, af þeirri einföldu ástæðu, að þótt þorskurinn gangi með síldinni oft og tíðum, þá getum við ekki náð síldinni í snurpinót nema uppi undir yfirborðinu, því hún getur ekki gengið með botninum; en ganga þorsksins er aðallega með botninum. Þess vegna eru þorskveiðar altaf óhindraðar af síldveiðum með hringnót, sem er flotnet.

Það er auðvitað ekkert á móti því, að menn hugsi sig vel um að gera þessa breytingu; en jeg mun ekki hika við, eftir þeirri reynslu, sem jeg hefi, að gefa mitt atkvæði með því að nema úr lögum alt, sem snertir þetta atriði, bæði frá 1913 og 1923, af því að það eru þær mestu kreddur, sem nokkurntíma hafa komist inn í löggjöfina, og eru bara til tjóns.

Skemdir á veiðarfærum held jeg að geti varla átt sjer stað, eins og hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) líka benti á. Jeg hefi spurt formenn, sem fiska síld á Skagafirði, og þeir segja, að það komi ekki fyrir. En kæmi það nú fyrir, að spilt væri veiðarfærum manna, þá er að kvarta undan því; þeir þekkja skipin, sem þarna veiða; þau eru innlend og því hægt að koma lögum yfir þau.

Jeg get alls ekki sjeð, að þótt menn veiði síld á Skagafirði, sje verið að ræna Skagfirðinga eða ganga á þeirra rjett, því þeir byggja ekki sína atvinnu á síldveiðum. Þeir stunda alls ekki neina síldveiði. Síldin er því ekki tekin frá þeim. Yfirgang í nokkrum skilningi get jeg því alls ekki kannast við. Það er sannarlega ekkert gönuhlaup, þótt þingið nemi þessar röngu lagasetningar úr gildi aftur; þær eru virkilegur yfirgangur við þá, sem byggja atvinnu sína á síldveiðum. Það verður áreiðanlega gert með tímanum, hvort sem það verður á þessu þingi eða ekki. Það er smátt, og smátt að færast ljós yfir, í staðinn fyrir það mikla myrkur, sem var áður, hvað þekkingu snertir, er menn höfðu enga þekkingu á því, sem þeir voru að gera samþyktir um. Menn eru nú loksins komnir til skilnings á því, að ýmsar gamlar skoðanir í þessum efnum eru bygðar á hindurvitnum.

Jeg get tekið undir með háttv. 2. þm. Skagf. (JS), að mjer er forvitni að sjá, hvernig menn greiða hjer atkvæði, því jeg álít það gersamlega óforsvaranlegt að halda í þau lög, sem sýnilega hafa verið sett í ógáti, hvaða lög sem það eru og hvenær sem þau voru sett. En það á sjer stað um þessi lög; þau voru sett af vangá og skilningsleysi.