27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2610 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

118. mál, herpinótaveiði

Frsm. (Sigurjón Jónsson):

Sjútvn. stendur ekki einhuga að málinu. Tveir nefndarmanna hafa óbundin atkv. sín. En nefndin hefir annars öll í sameiningu athugað málið.

Álits var leitað hjá fiskifræðing Bjarna Sæmundssyni. Hann var frv. meðmæltur. Forseti Fiskifjelagsins kom eftir beiðni okkar á fund nefndarinnar. Hann hefir sjálfur stundað síldveiðar, og er því máli þessu af eigin reynd mjög kunnur. Staðfesti hann það, er segir í greinargerð frv., að sú friðun á Skagafirði fyrir herpinótaveiði, sem heimilt er að gera samkv. lögunum frá 1923, og sem Skagfirðingar hafa nú gert samþykt um, að slík friðun færi svo mjög í bág við almenna hagsmuni, að nauðsyn bæri til þess að afnema heimildarlögin. Ennfremur staðfesti hann það, að oft veiðist mikið af síld innan þessarar línu — syðri enda Þórðarhöfða og norðurenda Drangeyjar og sömu stefnu á Skaga. Eru áraskifti að því og fer allmjög eftir veðráttufari. En sje norðlæg átt tíð, berst átan, sem síldin eltir, inn á firðina, og getur síldin þá dögum og jafnvel vikum saman veiðst inni á fjörðunum, þótt ómögulegt sje að veiða yst á fjörðunum eða úti fyrir nesjum. Geta bæði tálmað því stormar og eins hitt, að síldin komi ekki upp á yfirborð sjávarins úti fyrir eða yst á fjörðum, þótt hún vaði sem kallað er innar á fjörðunum.

Veiði þessi stendur að öllum jafnaði mjög takmarkaðan tíma, stundum ekki nema 2—4 vikur, en þann tíma ríður á að nota þau tækifæri, sem gefast til veiðinnar. En nú getur hagað svo til, að einmitt innan þessarar ráðgerðu línu sje tækifæri til þess að veiða, og hvergi annarsstaðar, og sýnist mjer það svo óviðeigandi, sem frekast getur verið, að meina mönnum að notfæra sjer þetta tækifæri, og sjerstaklega má hv. Alþingi ekki leggja eða líða að lagður sje slíkur steinn í götu atvinnufyrirtækja vorra. Við skulum ráðgera, að á þessu ráðgerða nýfriðaða svæði veiddust 10 þús. tunnur af síld, sem annars veiddust alls ekki, ef svæðið næði að verða friðað, og get jeg fullvissað hv. þm., að þessi tala, 10 þús. tn., er alt of lág, eftir því, sem til hefir hagað tvö síðastl. sumur. Vel getur skeð, að næsta ár veiðist ekkert á þessu svæði, en það getur eins vel skeð, að þarna veiddust 20 eða 30 þús. tn., sem annars veiddust alls ekki. En ef við tökum þetta dæmi, að 10 þús. tn. veiddust þarna, sem annars ekki veiddust, þá er þar um að ræða verðmæti fyrir 80—100 þús. kr., eftir meðalgangverði undanfarinna ára, miðað við sölu síldarinnar nýrrar. Utan um þetta kemur svo margt annað. Aðeins útflutningsgjald af þessari síld til ríkissjóðs væri 15 þús. kr.; annað eins færi í verkalaun til verkafólks, ef síldin væri söltuð, svo koma innflutningsgjöld til ríkissjóðs af salti og tunnum o. fl. Þótt jeg hjer taki þessar tölur, þá er það ekki af því, að hjer geti ekki verið um meira að ræða. Eftir sögn þeirra manna, er veiðarnar hafa stundað og eru þeim best kunnir, getur þetta orðið miklum mun meira en jeg hjer hefi tilgreint.

Þá eru það mótbárurnar, sem færðar hafa verið fram gegn þessu, að það sje leiðinlegt að afnema tveggja ára gömul lög. En ef hægt er að sýna fram á og sannfæra hv. þm. um, að lögin sjeu ekki sanngjörn, ekki rjett, þá er ekki eingöngu rjett, heldur skylda að afnema þau. Heimildarlög fyrir fiskiveiðasamþyktum hafa yfirleitt ekki orðið langlíf, og reynslan bendir á það, að því skammlífari sem þau eru, því betra. Um skemdir á veiðarfærum, þá staðhæfir Fiskifjelagsforsetinn það sama, sem jeg tók hjer fram við 1. umr., að þær ættu sjer ekki stað.

Um rýrnun á veiði innar í firðinum vil jeg ekkert staðhæfa, þótt litlar líkur sjeu fyrir því, en þótt einhver lítil rýrnun ætti sjer stað, þá þykist jeg ekki gera lítið úr því, þótt jeg staðhæfi, að þar sje svo hverfandi lítilla hagsmuna að gæta, að þeir megi ekki og eigi ekki að sitja í fyrirrúmi fyrir margfalt meiri og almennari hagsmunum landsmanna.

Þá kem jeg síðast að því, að landhelgin verður að skoðast almenningseign landsmanna allra, og verður naumast um það deilt, að hv. Alþingi beri að stuðla að því, að hún verði landsmönnum að sem almennustum og bestum notum og ekki fremur einum en öðrum til gagns.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um málið, en mjer er óhætt að segja, að það er ekki lítill hópur sjómanna, sem fylgir því með athygli.