29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2628 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

118. mál, herpinótaveiði

Frsm. (Sigurjón Jónsson):

Jeg skal játa, að það hefði verið eðlilegast, eins og hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) hjelt fram, að taka mál þetta upp frá rótum og endurskoða alla þessa heimildarlöggjöf um fiskiveiðar, enda hefi jeg einmitt haldið því fram áður, En eins og málið horfði við, bjuggumst við flm. við, að á því yrði einhver dráttur, og þess vegna er frv. þetta fram komið.

Þegar kunnugt varð, að Skagfirðingar hefðu notfært sjer heimildarlögin frá í fyrra, fór jeg til hæstv. atvrh. (MG) og spurði hann um, hvort hann mundi treysta sjer til að staðfesta ekki samþyktina, og hann svaraði því svo, að hann teldi sjer skylt að staðfesta hana, svo fremi að engir formgallar væru á henni, er kæmu í bága við heimildarlögin. Því varð það, er jeg fjekk þetta svar, að jeg og fleiri bárum frv. þetta fram. Jeg tel óþarft að fara enn á ný út í ástæður þær, sem færðar hafa verið fram bæði af mjer og öðrum gegn því, að Skagfirðingum eigi að haldast uppi að gera samþykt um síldveiði, sem vitanlegt er um, að hlýtur að koma í bág við hagsmuni almennings.

En um leið og jeg leyfi mjer að æskja þess, að till. hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) um að vísa þessu máli til stjórnarinnar, verði feld, þá verð jeg að mótmæla því, að forseti Fiskifjelagsins hafi verið óeinlægur í þessu máli, eins og hv. þm. V.- Húnv. vildi gefa í skyn, og vitnaði í „Dagblaðið“ því til sönnunar. Átti þetta að skiljast sem svo, að forseti Fiskifjelagsins hefði skift um skoðun frá því að sjútvn. átti tal við hann. Nú skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa hjer upp hrafl úr brjefi, sem forseti Fiskifjelagsins ritaði atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu 17. þessa mánaðar, eða daginn eftir að ,,Morgunblaðið“ hafði skýrt frá því í frjettum frá Sauðárkróki, að sýslufundur Skagfirðinga hefði samþykt að banna síldveiði á Skagafirði innan við línu þvert yfir fjörðinn skamt norðan við Drangey.

Brjef þetta, sem jeg hefi hjer, er afrit af brjefinu til stjórnarinnar, og hefir forseti Fiskifjelagsins góðfúslega leyft mjer að lesa það.

„Með samþykt um síldveiði með herpinót á Skagafirði innanverðum, nr. 53, 2. júlí 1923, er mjög takmarkaður rjettur innlendra manna til að stunda síldveiðar á Skagafirði, og hefir sú takmörkun vakið mikla óánægju meðal íslenskra útgerðarmanna, enda mjög vafasamt, að sú samþykt komi hlutaðeigandi hjeraðsbúum að nokkrum notum; að minsta kosti þorum vjer að fullyrða, að takmarkanir þær, sem þar eru gerðar, koma ekki hjeraðsbúum að þeim notum, sem tjón það, er það bakar öðrum landsmönnum, hefir í för með sjer.“

Þetta ritar forseti Fiskifjelagsins stjórninni, og bætir svo við:

„Eftir því sem umrædd Morgunblaðsfrjett greinir frá, þá hefir ekki hjeraðsbúum í Skagafjarðarsýslu þótt þessar takmarkanir ganga nógu langt, og munu því ætla sjer að fá línuna færða út samkvæmt 1. gr. í lögum nr. 30, 20. júní 1923, en verði svo, er það óbætanlegt tjón fyrir alla síldarveiði landsmanna, sem þá útgerð stunda fyrir norðurlandi á sumrin, því að í sumum árum er mikill hluti síldarinnar einmitt veiddur á umgetnu svæði.

Þar sem um jafnþýðingarmikið atriði er að ræða eins og hjer er farið fram á, leyfir Fiskifjelagið sjer hjer með að fara þess á leit við háttv. stjórnarráð, að það veiti ekki leyfi til frekari takmarkana viðvíkjandi veiði landsmanna á þessu svæði en þær, sem þegar eru leyfðar með samþykt nr. 53, 2. júlí 1923.“

Þannig hljóðar þá brjef forseta Fiskifjelagsins til stjórnarráðsins. Fiskifjelagið leit nefnilega svo á, að stjórnin gæti neitað um staðfestingu á samþykt þeirri, er Skagfirðingar hafa gert um frekari takmarkanir á síldveiði. En nú hefir hæstv. atvrh. (MG) lýst því yfir, að hann mundi ekki geta það. Þess vegna eru mótmæli hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) ekki á neinum rökum bygð og þess vegna á að fella till. hans um að vísa málinu til stjórnarinnar.