15.04.1925
Efri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg mun gera fátt eitt af því, sem hv. 5. landsk. (JJ) sagði, að umtalsefni, nema það, er hann talaði um eðlismun á lausum og föstum skuldum, sem hann kvað engan vera, og yfirleitt taldi hann skilgreining mína milli þeirra hafa verið mjög lausa. En hvorugt þetta er rjett. Lausar skuldir — og má vel vera að þetta sje of hæverskt heiti á þeim — eru þær skuldir kallaðar, sem eru í vanskilum og eru fallnar í gjalddaga hvern dag, sem drottinn gefur okkur. Má í landsreikningunum 1923, bls. XVI sjá. hverjar þær eru. Um eina þeirra má kannske segja sem svo, að henni sje öðruvísi varið, þar sem ríkið sjálft er skuldareigandinn. Á jeg þar við skuld ríkissjóðs við landhelgissjóðinn. Um hinar allar aftur á móti er það að segja, að gjalddagi þeirra er hvenær sem er, og sumar þeirra eru þannig vaxnar, að við getum ekki með óskertum heiðri dregið að greiða þær. Svo er t. d. með skuldina við ríkissjóð Dana, sem ríkt hefir verið gengið eftir, og nú er enda byrjað að borga, sem betur fer. — Fastar skuldir eru þar á móti samningsbundin lán, sem ríkissjóður borgar vexti og afborganir af á ákveðnum tímum, og lánardrottinn getur einskis krafist þar fram yfir. Jeg vona nú, að hv. þm. skilji, að það er ekki svo lítill eðlismunur á milli þessa.