02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2658 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Þórarinn Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð, er jeg vildi segja í sambandi við brtt. á þskj. 218, frá meiri hl. fjvn.

Á öndverðu þingi, þegar nefndin var að athuga fjárlagafrv., sá hún, að skrifstofukostnaður lögreglustjóra hafði verið hækkaður um helming frá því, sem hann hafði áður verið, eða úr 42 þús. kr. upp í 84 þús. kr. Jafnhliða því, að lagt var til að hækka skrifstofukostnaðinn, var bent á, að skipagjöldin ættu þá að renna í ríkissjóð, en þó mundi verða að breyta til þess lögunum um gjald af erlendum fiskiskipum. Um leið og nefndinni var skýrt frá þessu, var einnig bent á, að komið gæti til mála, að greiða þyrfti í sumum tilfellum eitthvert lítilsháttar gjald fyrir innheimtu þessara skipagjalda.

Nú hefir hæstv. fjrh. (JÞ) bent á, að úrskurður, sem feldur hefir verið um innheimtu þessara gjalda fyrir skömmu, væri athugaverður og ekki á nægum rökum bygður, og hefir hann með því fallist á þá skoðun meiri hl. nefndarinnar, að störf þessi bæri að skoða sem embættisskyldu sýslumanna og lögreglustjóra, enda er svo ákveðið í launalögunum frá 1919, að allar aukatekjur, svo og innheimtulaun, skuli falla til ríkissjóðs.

Þó að meiri hl. fjvn. hafi með brtt. sinni lagt til að greiða fyrir þessa innheimtu 10%, þá gerir hann það ekki af því, að hann telji ekki innheimtuna fulla embættisskyldu, heldur af því, að hann viðurkennir, að á einstöku stað geti þessu fylgt nokkur kostnaður, og eigi þetta hundraðsgjald aðeins að eiga þar við, en alls ekki að greiða neitt, þegar vitanlegt er, að ekkert er haft fyrir innheimtunni.

Af greinargerð hv. fjhn. fyrir frv. þessu sjest ekki, að gefa eigi neina undanþágu í þessu efni. Samkvæmt 1. gr. frv. á gjaldið jafnt að renna til þeirra, sem ekkert hafa fyrir innheimtunni, eins og hinna, sem eitthvað þurfa að leggja í kostnað, t. d. að manna bát. En þó að þeir þurfi að leggja þetta á sig, þá tel jeg það, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) hefir viðurkent, embættisverk þeirra, sem ríkissjóði beri ekki skylda að greiða neitt fyrir. Þess vegna hefir meiri hl. fjvn. talið sig fara svo langt sem hægt sje með brtt.

Háttv. frsm. (BL) sagði, að stjórnin mundi fara skynsamlega í þessu efni og ekki greiða þeim neitt, sem gjaldið innheimta án fyrirhafnar. En hefði þetta verið meining hv. fjhn., þá mundi hún hafa sett þetta í greinargerð fyrir frv., þar sem það átti heima. Þó tel jeg þessa yfirlýsingu góðra gjalda verða. Ágreiningurinn verður þá aðeins um það, hve mikið eigi að greiða, þegar einhver aukakostnaður er við innheimtuna. En af því nefndin telur innheimtuna embættisverk, vill hún alls ekki ganga lengra en þetta til samkomulags.

Hæstv. fjrh. (JÞ) talaði um þessa ólaunuðu umboðsmenn, sem heimta inn gjaldið á stundum. Það er rjett, að þeir munu finnast úti um land, sem lítið er borgað fyrir, þó að þeir hafi alla fyrirhöfnina á innheimtu gjaldanna, og sannar það fyllilega, að lögreglustjórar komast ljett út af þessu víða.

Hæstv. fjrh. hjelt, að innheimtan yrði fremur vanrækt, ef ekkert yrði goldið fyrir hana. Jeg hygg, að hún muni ekki meira vanrækt með þessum breytingum, sem við viljum láta gera, en tíðkast hefir áður. Jeg hefi fengið skýrslu um þessi skipagjöld fyrir árið 1922, og nemur það 17 þús. króna, sem ríkissjóður hefir fengið, en þó vantar bæði frá Reykjavík og Vestmannaeyjum, svo að óhætt mun að áætla, að þetta skipagjald sje um 40 þús. króna. Mjer er kunnugt um, að frá Vestmannaeyjum nam gjaldið 6 þús. króna yfir 3 mánaða tíma síðastliðið sumar, á meðan hinn setti lögreglustjóri var þar. Hjer í Reykjavík er þetta ekki gefið upp og hefir þaðan aldrei verið greitt í ríkissjóð, en annarsstaðar af landinu hefir sumt af þessu gjaldi verið greitt í ríkissjóð, en sumt ekki. Og úr ríkissjóði hefir verið úrskurðað að greiða gjaldið aftur til innheimtumanna, eins og hæstv. fjrh. skýrði frá.

Annars ætla jeg ekki að orðlengja frekar um þetta, en tel sjálfsagt, að sett verði lög um þetta efni, svo ekki orki lengur tvímælis um það, hvert gjald þetta eigi að renna. Og meiri hl. fjvn. álítur, að innheimtugjaldið megi alls ekki vera hærra en 10%, og ætti helst ekkert að vera.