15.04.1925
Efri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

1. mál, fjárlög 1926

Forsætisráðherra (JM):

Jeg vil minnast á eina brtt. við fjárlagafrv. úr háttv. Nd., um viðbótarnámsstyrk fyrir árið 1925 til stúdenta, sem nema við erlenda háskóla. Jeg vil aðeins taka það fram, að það var meining hv. fjvn. Nd., að líkt yrði farið með háskólastúdenta hjer, þó ekki kæmi það fram, og þeim því veittar 9000 kr. í húsaleigustyrk, og er ætlast til, að greidd verði sama upphæð í þessu skyni árið 1925.

Hjer í hv. deild stóðu í gær deilur um það, hvort styrkur til stúdenta erlendis, sem staðið hefir í fjárlögum undanfarin ár, væri áætlunarupphæð eða ekki. Um þetta er það að segja, að frá 1922 var þessi styrkur af Alþingi skoðaður áætlaður í fjárlögunum. Árin 1920–21 var nákvæmlega farið eftir fjárlögunum, og ekki greitt meira stúdentum en fjárveitingin náði til. En síðar komu fram aðfinslur um það frá fjvn. beggja deilda, að fjárlögum væri beint fylgt í þessu efni. Segist hún alls ekki vilja hafa af stúdentum styrkinn. Því var árið 1922 byrjað að skoða upphæðina í fjárlögunum sem áætlunarupphæð. Voru það ár greiddar 23 þús. kr. til stúdentanna og 1923 30 þús. kr., en altaf stóðu 8 þús. kr. í fjárlögunum. Svo á þinginu í fyrra skeður það, að alveg er tekið fyrir, að þetta sje framvegis skoðað sem áætlunarupphæð, og samkvæmt því varð stjórnin að haga sjer. Jeg þykist því ekki eiga neitt ámæli skilið fyrir afskifti mín af þessu máli. Og mjer er það síst á móti skapi, að hv. Nd. skuli nú leiðrjetta þetta og færa það í sama horf og áður var?