06.05.1925
Neðri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2741 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Magnús Jónsson:

Það hefir nú eyðst að nokkru leyti sú ófriðarblika, sem mjer og sumum fleiri háttv. þm. þótti draga upp við ræðu háttv. þm. Str. (TrÞ). Eins og brtt. sú, sem hann er flm. að, ber með sjer, þá er það 1. brtt., sem snertir mest grundvallaratriði málsins; hún er svo lítið róttæk, að maður getur sagt, að í henni sje ekkert annað sagt en það, sem gengisnefndin hefir látið koma fram í sínum gerðum hingað til, að stuðla að varlegri hækkun krónunnar. Að hún vilji gera það, sýnir hún t. d. með því, að hún skráir á síðasta hluta ársins með tilliti til þess, að krónan geti haldið því verði, sem hún þá var í, og annað skil jeg ekki að hægt sje að leggja í þetta „varlega“ en að krónan taki ekki snöggar sveiflur, heldur haldi sem jafnastri rás. En hv. þm. Str. (TrÞ) talaði svo með þessari till., að engu var líkara en að nú ætti að taka það alvarlega til athugunar, hvort i ekki væri rjett að stýfa krónuna, sem kallað er, velta af sjer þeim byrðum, sem því eru samfara að koma gjaldeyrinum aftur upp í gullverð. Það er að minsta kosti einn af flm., hv. þm. Borgf. (PO), sem telur að þetta hafi alls ekki vakað fyrir þeim, svo að óveðrið ætlar kannske að ganga hjá. Það er náttúrlega svo hjer hjá okkur, að viðskiftalíf alt er svo lítið þroskað, að svona tal hefir miklu minni áhrif hjer en annarsstaðar, þar sem viðskiftalífið er meira þroskað. En í sumum öðrum löndum, eins og t. d. í Englandi, gæti slíkt tal sem þetta á sjálfu þingi þjóðarinnar, og eins hitt, ef bætt væri í gengisnefnd fulltrúa útflytjenda, sem ætti að hafa áhrif á skráningu, það eitt út af fyrir sig mundi þegar orsaka geysilegan fjárflótta úr landinu. En þessi vjel okkar er svo stirð, að alt þesskonar gerir minni skaða en þar, sem þetta er orðið liðugra, enda er það oft heppilegra. Þetta, hvort eigi að stýfa krónuna, beinlínis fella það úr gildi, að úr einu kg. af skíru gulli skuli vera mótaðar 2480 kr., finst mjer í rauninni stappa nærri því að vera ósæmilegt tal. Það er ekki nema eðlilegt, þegar gjaldeyrir einhvers lands er fallinn svo, að hann er kominn niður úr 1/10 úr gullgengi, að þá sje farið að tala um þetta, en sem betur fer er okkar gjaldeyrir ekki neitt í þá áttina kominn, og það er mjög óviðkunnanlegt og óheppilegt að vera að skeggræða þessi mál svona út í bláinn. Ef nokkuð ætti að gera í þessa átt, yrði það að vera bygt á mjög samviskusömum rannsóknum og umfram alt á samkomulagi milli þeirra þjóða, sem líkt er á komið fyrir. Það er alveg satt hjá fræðimönnunum, þeim kemur sjálfsagt saman um það, að best sje að vera ekki að þessu stríði að hefja gjaldeyrinn, og það er svo, að það er fjárhagslega gott að geta velt af sjer slíkri skyldu; en það hvíla bæði á einstaklingum og ríkjum vissar skyldur, sem ekki er hægt að ganga fram hjá án þess að gefa þeim gaum, og þar á meðal yrði sjálfsagt í þessu sambandi að líta á skyldu ríkisins gagnvart þeim, sem hafa átt gullgilda peninga. En móti þessu getur svo ýmislegt annað komið, og skal jeg ekki fara út í það hjer. Það verður vissulega erfið gangan fyrir okkur, ef við ætlum að ná upp í gullverð með krónuna, en það er nú svona oft, og endinn skyldi í upphafi skoða.

Hv. þm. Borgf. (PO) leggur enn sem fyr mikið upp úr því, að þessir tveir menn sjeu skipaðir i nefndina, telur það mikils virði, ef þeir stæðu þar með vilja þings og stjórnar að baki sjer. Við getum nú hugsað okkur, hverjir það eru í þessari nefnd, sem hafa valdið, ef það er fimm manna nefnd. Það yrðu algerlega fulltrúar bankanna, ef þeir eru í samræmi við bankastjórnirnar og ef bankarnir hafa svo sterka aðstöðu út á við, að þeir geti boðið erlendan gjaldeyri til kaups, þó að hinn hluti nefndarinnar sameinaðist á móti þeim um að skrá annað gengi. Tökum t. d., að meiri hl. nefndarinnar vildi skrá £ á 27 kr., en bankarnir teldu, að það ætti að vera 26 kr., þá yrði skráða gengið 27 kr., en raunverulega gengið ekki nema 26 kr., því ef bankarnir ættu innieignir erlendis og byðu innflytjendum £ á 26 kr., þá kaupir enginn £ af útflytjendum fyrir hærra verð en sem því svarar, og 27 kr. gengið verður þá markleysa. Ef bankarnir svo eiga innieignir ytra, svo miklar, að þeir geti haldið þessari verslun áfram nokkra mánuði, þá eru engir útflytjendur hjer, sem standast annað en að bjóða bönkunum gjaldeyri sinn við því verði, sem þeir vilja kaupa hann. Þingviljinn dugir hjer ekkert. Ef því nefndin er þannig úr garði gerð, getur starf hennar orðið gagnslaust, og er þá að engu gert það gagn, sem hún getur unnið, ef hún er eins samsett og hún er nú. Það væri þá til þess eins að eyðileggja alt gagn af gjaldeyrisnefndinni, ef fara skal út í slíkar öfgar. Jeg vil leiðrjetta sjálfan mig í einu atriði, þ. e. ef jeg hefi sagt, að gengisbreytingarnar hafi engri atvinnugrein orðið til ógagns. Hafi jeg sagt þetta, er það rangt, en hitt er, að gengisbreytingarnar hafa enn engum orðið hjer að falli, þó að skatturinn sje stórkostlegur, sem útflytjendur verða að taka á sig vegna hækkunar á ísl. krónunni. Háttv. þm. Borgf. sagði, að ef hækkun ísl. krónunnar hjeldi eins áfram framvegis og til þessa, þá mundi það verða atvinnuvegunum til falls, en þetta er rangt. Það er rangt að hugsa sjer, að skráningin fari fram áður en tekið hefir verið tillit til atvinnuveganna. Það eru atvinnuvegirnir, sem ákveða gengið. Það voru eitthvað um 10 mánuðir, sem ört vaxandi hækkun átti sjer stað (mars— jan.), en síðan hefir hækkunin verið lítil og hægfara.

Háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði, að bankarnir hefðu sömu tilhneigingu og kaupendur gjaldeyrisins, þ. e. að taka hækkun ísl. krónunnar fljótt. Jeg hefi ekki athugað þetta, hvort er fjárhagslega betra fyrir bankana, en hitt er jeg ekki viss um, að bankarnir sjeu svo sterkir, að þeir verði ekki að taka hækkunina hægt og smám saman. Það liggur í augum uppi, að ef bankarnir liggja með 10—20 milj. kr. erlendis, sem keypt hefir verið fyrir t. d. 28 kr. pr. pund, að það er hvöt fyrir þá til að láta ísl. krónuna hækka hægt, og er það sama að segja um seljendurna, eða með öðrum orðum, að bankarnir eru hlutlausir um þetta.

Hv. þm. Str. (TrÞ) talaði um hættu þá, sem stafaði af fjárflótta út úr landinu, ef krónan væri nú stöðvuð, og spurði, hvort ekki væri sama hættan, þótt staðnæmst væri nú eða krónan stöðvuð í gullgengi. Þetta er auðvitað rjett í vissu tilliti. Reynsla Svía hefir orðið sú, að meðan gengi krónu þeirra var hækkandi, leitaði fjeð til þeirra, en eftir að gengið var stöðvað, hefir fjárstraumurinn meir leitað aftur út úr landinu. En hinsvegar eru engar líkur til, að við verðum á undan Dönum eða Norðmönnum með okkar krónu upp í gullgildi, og þá veit jeg ekki, hvert okkar fje á að flýja. Fjárflóttahættan kemur þá aðeins, að okkar króna sje vitanlega stöðvuð, en t. d. dönsk og norsk króna haldi áfram að hækka. Um fjárflótta hjeðan til annara landa er varla að ræða, þegar England, Þýskaland og Svíþjóð eru líka í gullgildi með sinn gjaldeyri. Það, að bankarnir haldi genginu óeðlilegu, hefir verið hrakið af hæstv. fjrh. (JÞ), en jeg hefi sýnt fram á, að á meðan bankarnir á annað borð eru svo stæðir, að þeir geti boðið erlendan gjaldeyri til kaups, er ómögulegt að ganga á snið við þá. 1. brtt. á þskj. 393, a.-liður, er svo lítilvægt að minst gerir til, hvort hún verður samþykt eða ekki, en hitt, að skipa tvo menn úr hópi atvinnurekenda, tel jeg hættulegt og legg á móti því, að það verði samþykt. Eins það, að þeir eigi að vera áhrifalausir, tel jeg þýðingarlaust að þeir sjeu þar, og vil því ekki heldur samþykkja það, enda munu t. d. útgerðarmenn vissulega hafa fulla einurð til að leggja sín plögg fram fyrir nefndina. þó að þeir eigi ekki fulltrúa þar, og þess vegna er ekki ástæða til að þetta verði samþykt.