20.04.1925
Neðri deild: 60. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2932 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

50. mál, tollalög

Atvinnumálaráðherra (MG):

Þegar jeg á þinginu 1921 bar fram frv. til laga þeirra, sem nú er tilætlunin að afnema hjer, var tilgangur minn aðeins sá, að afla ríkissjóði tekna, og enginn annar, og kom það greinilega fram í öllum umr. á þinginu. í frv. mínu þá var einnig farið fram á einkasölu á spíritus, en með því að ekki þótti fært að koma slíku á þá, náði það ekki fram að ganga, heldur var einkasalan hafin á tóbakinu einu.

Ástæðan til þess, að jeg hneigðist að þessu fyrirkomulagi á teknaöflun, var sú, að jeg áleit, að ríkissjóður þyrfti meiri tekjur af tóbaki en hann hafði haft. Hinsvegar fanst mjer áhætta að hækka tóbakstollinn, vegna smyglunarhættu. Jeg hefi jafnan litið svo á, að í tóbakseinkasölu fælist ekkert brot á reglunni um frjálsa verslun. Það er kunnugt, að ríkið verslar hjer með vín, og enginn talar um það sem brot á reglunni um frjálsa verslun. Ekki er heldur hægt að segja, að ríkissjóður bindi mikið fje í verslun þessari, nje heldur að verslunin sje áhættusöm. Og fyrir mitt leyti verð jeg að segja það, að verslunarhagnaðurinn hefir alls ekki brugðist vonum mínum. Aðstaða mín gagnvart þessari einkasölu er því hin sama og 1921.

En aðstaða mín er breytt að öðru leyti. Jeg er ekki fjrh., eins og jeg var 1921, og því er það ekki mitt hlutverk sjerstaklega að sjá ríkissjóði fyrir tekjum. Og þar sem hæstv. fjrh. (JÞ) telur sig geta unnið upp gróða af einkasölunni á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, mun jeg gera það til samkomulags við hann sem samverkamann minn að greiða ekki atkv. um málið.