22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2972 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

50. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg þarf litlu að svara fyrir mitt leyti því, sem komið hefir fram í ræðum hv. þm., því það hefir sannarlega ekki verið neitt nýtt í þeim, sem ekki er heldur von, þar sem búið er að ræða þetta mál 5 daga samtals við 1. og 2. umr.

Það er þó ein hlið málsins, sem mjer finst ekki hafa verið nægilega athuguð, og þykir mjer rjett að gefa ofurlitla skýringu þar um. Það er nú viðurkent af öllum, að hjer er um það að velja, hvort eigi að taka tekjur handa ríkissjóði af tóbakinu með tolli eingöngu eða með tolli að nokkru og verslunargróða að nokkru. Það er vitanlegt, að verslunarágóðinn verður ekki fenginn öðruvísi en með vissri álagningu á tóbakið. Það var upplýst við 1. umr., að 1924 muni álagningin á tóbak upp og ofan, þ. e. a. s. munntóbak og neftóbak, hafa verið 4 kr. á hvert kg. Af álagningunni hefir farið sem næst 1 kr. í kostnað og 3 kr. til ríkissjóðs. Nú er ekki farið fram á að hækka tollinn á þessum tóbakstegundum nema um 1 kr. á hvert kg., í staðinn fyrir að verslunin leggur nú á 4 kr.; og það er vitanlegt, að þetta er gert af

þeirri ástæðu, að þótt þetta sje munaðarvara, þá telja menn hana þess virði fyrir landsmenn. að það er óskað eftir því, að breytingin leiði til verðlækkunar á vörunni. Um það verður ekki deilt, að eins og stendur er langstærsti skiftavinur landsverslunar S. Í. S., sem kaupir inn handa kaupfjelögunum, og verður auðvitað að greiða þessa álagningu, 4 kr., auk núgildandi tolls. Þessi skiftavinur og aðrir, sem eru þess umkomnir að reka skynsamlega verslun, þeir geta, ef breytingin gengur fram, gert sín innkaup öldungis á sama grundvelli og landsverslunin nú; en þar sem tollurinn á einungis að hækka um 1 kr. á kg., þá hljóta innkaup þessara skiftavina að verða 3 kr. ódýrari á kg. heldur en nú. Verðið hlýtur að lækka í smásölu. Og það er alkunnugt, að kaupfjelögin eru sá þáttur í verslunarlífi landsins að þau eru fullkomlega fær um að halda uppi samkeppni um vöruverð. Þegar er að ræða um vörur, sem allur almenningur notar. Með þessu vildi jeg sýna fram á, að það er svo fjarri lagi sem verða má, þegar haldið er fram, að tóbaksverð muni hækka við breytinguna.

Því hefir verið haldið fram, að horfur fyrir afkomu tóbakseinkasölunnar sjeu jafnvel betri nú, eftir fyrsta ársfjórðung þessa árs að dæma, heldur en verið hefir fyrirfarandi ár. Jeg hefi ekki fengið neinar skýrslur um þetta, en ef svo er, getur það ekki stafað nema af tvennu: annaðhvort af því, að innflutningur hefir aukist, og kemur það líka ríkissjóði til góða, ef tekjurnar verða teknar með tolli eingöngu; eða hitt er, að lagt hafi verið meira á tóbakið nú en 1924. Jeg skal ekki segja um það, hvort framhaldandi gengishækkun hefir þrátt fyrir verðlækkun á tóbaki um síðustu áramót um 1 kr. á kg., orðið þess valdandi. að álagningin er jafnvel orðin meiri en 4 kr. á kg. Ef menn þykjast vissir um að ríkissjóður muni ekki fá eins miklar tekjur af tollhækkun eins og einkasölu, þá er hægurinn hjá að bæta úr því með því að hækka tollinn um meira en eina krónu. t. d. um tvær. Það skyldi ekki standa á mjer til þess; en um þetta hefir engin till. komið fram. Það er yfir höfuð svo, að hvort sem tekjurnar eru teknar með einu móti eða öðru, eru ekki takmörk fyrir því, hve miklu er hægt að ná inn, önnur en þau, hvað lengi menn fást til að halda sinni tóbaksnautn í sama horfi, þrátt fyrir verðhækkun, sem leiðir af álagningu eða tolli. Í þessu efni er enginn munur á þessum tveim leiðum: neytendum kemur það alveg í sama stað niður. En það er alt annað atriði, sem verður í raun og veru að vera afgerandi um það hvor leiðin sje hentugri, og það er tilkostnaðurinn við að afla teknanna; og það er sú hlið málsins, sem mjer finst ekki gæta nægilega mikið í umræðunum. Eins og öllum er kunnugt, þá er tilkostnaður við tollheimtu fremur lítill útgjaldaliður ríkissjóðs og er innifalinn í útgjöldnm í 11. gr. fjárlaganna, sem jafnframt taka yfir allan kostnað við löggæslu í landinu. Tilkostnaðurinn við tekjuöflun tóbakseinkasölunnar kemur fram í reikninguni hennar sjálfrar, og hefir verið þessi 3 ár, sem einkasalan hefir starfað, alt að 335 þús. kr., en tekjurnar 650 þús. Í þessum 335 þús. kr. eru innifalin aukaútsvör 70 þús. kr., sem jeg skal ekki öldungis fullyrða. hvort sanngjarnt sje að telja með eiginlegum tilkostnaði í þessu sambandi, sökum þess, að bærinn hefði orðið að taka þá upphæð af einstaklingum, hefði hún ekki verið greidd þarna. Taki jeg hana undan, þá er tilkostnaður, sem ekki verður um deilt. 265 þús. kr. við að afla 656 þús. kr. tekna. Þetta þýðir það, að með þessari tekjuöflunaraðferð hefir tilkostnaður orðið 41% af tekjuupphæðinni. Er það svo langt fram úr því. sem á sjer stað um tilkostnað við öflun nokkurrar annarar tekjugreinar ríkissjóðs. Það má gera sjer þetta betur ljóst með því að taka það hugsaða dæmi, að ríkissjóður yfirleitt notaði nú hliðstæðar aðferðir til þess að afla sjer allra sinna tekna. Það ætti ekki að vera fjarstæða að hugsa sjer slíkt frá sjónarmiði þeirra manna, sem álíta, að þessi einkasöluaðferð sje sjerstaklega vel til þess fallin að afla ríkissjóði tekna. Taki jeg þá árið 1923 sem er það síðasta, sem fullgildir reikningar liggja fyrir um þá voru allar tekjur ríkissjóðs samkv. 2. gr. fjárlaga 8 milj. 107 þús. kr.: með tiltölulega sama öflunarkostnaði og hjá tóbakseinkasölunni hefði tilkostnaðurinn verið 3328000 kr. Og jeg verð að segja það, að þegar maður ber þetta saman við tilkostnað ríkissjóðs í raun og veru. Þá á jeg ákaflega bágt með að skilja það. Þegar menn halda því fram, að þetta sje sjerstaklega hagkvæm aðferð fyrir landsmenn yfir höfuð. Að hún geti verið hagkvæm fyrir þá, sem njóta tilkostnaðarins beint sem starfslauna, er einsætt: en það liggur fyrir utan málið. En ef nú þessi leið hefði yfir höfuð verið farin, yrði tilkostnaðurinn nokkurnveginn samsvarandi öllum útgjöldum ríkissjóðs til konungs, Alþingis, stjórnar, löggæslu, heilbrigðismála og kenslumála. Jeg held það verði að líta talsvert á þessa hlið málsins, ef menn vilja gera það upp við sig með sanngirni, hvor leiðin sje landsmönnum heppilegri tollaleiðin eða verslunarálagningarleiðin. Jeg verð að segja, að þótt vikið sje frá þeirri nýbreytni sem tekin var upp 1921 og horfið aftur að þeirri tekjuöflunarleið, sem við höfum notað frá því landið fjekk efnalegt sjálfstæði og notum að mestu leyti ennþá, þá held jeg það verði ekki falið rjett sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, að með því sje verið að fremja óbótaverk.

Af því, sem einstakir hv. þm. hafa sagt, vil jeg víkja nokkuð að einstökum atriðum hjá hv. frsm. minni hl. (KlJ). Hann var dálítið gramur yfir því, að jeg skyldi vera að tilfæra þessar tölur. (KlJ: Jeg sagði. að jeg hefði ekki þurft þessar upplýsingar). Það var samanburður á áætlun, sem gerð var þegar tilhögun þessi var innleidd. og reynslunni af henni. Jeg hefði heldur ekki farið út í þetta, ef ekki hefði stöðugt verið talað um það, að vonirnar hefðu ræst. (KlJ: Jeg vitnaði til hæstv. atvrh. um þetta). Hv. þm. Str. (TrÞ) gerði það; og jeg leiddi með tölunum rök að því, að vonirnar hefðu ekki ræst fyr en 1924: brugðist þegar mest á reið, 1922 —23. og það mjög tilfinnanlega. Þær tekjur sem jeg nefndi, voru ekki tolltekjurnar einungis, heldur tolltekjur og verslunartekjur samanlagðar.

Hjá nokkrum hv. þm. hafa komið fram ummæli, sem skoða mætti ef til vill sem einhverskonar ögranir, að ef frv. nær fram að ganga með mínu atkv., þá muni þeir láta landið gjalda þess, á þann hátt, að þeir ljái ekki atkv. sitt með tekjuauka ríkissjóði til handa, sem þeir annars mundu gera. Það bólaði á þessu hjá hv. frsm. minni hl. (KlJ) og kannske fleirum.

Jeg fyrir mitt leyti vil nú alls ekki trúa því, að þessir hv. þm. hafi meint það, eða hafi viljað gefa í skyn, að þeir myndu í öðrum málum haga atkv. sínu á annan veg heldur en þeir álíta þjóðinni nauðsynlegt og rjett vera. Þeir geta að minsta kosti ekki með nokkurri sanngirni búist við því, að jeg breyti skoðun minni á þessu máli, þótt þeir gefi í skyn, að þeir ætli ekki að fylgja sinni eigin skoðun í öðrum málum. Jeg vil gjarnan halda, að það sje misskilningur minn, að þeir hafi verið með þessar ögranir; en jeg hygg, að fleiri hafi skilið ummæli þessi þannig. Gef jeg hjer með tilefni til skýringar, sem jeg fyrir mitt leyti skal taka til greina, ef fram kemur.

Jeg ætlaði að svara háttv. 1. þm. Árn. (MT) ofurlítið sjerstaklega, en svo heyrði jeg, að samþm. minn, hv. 3. þm. Reykv. (JakM), tók helstu ummæli hans til athugunar, svo jeg get að mestu leitt það hjá mjer. En jeg vil þó leiðrjetta einstök ummæli, sem hann hafði um mig og mína framkomu. Hv. þm. sagði, að jeg hefði á síðasta þingi beitt mjer á móti frv., sem hefði fært ríkissjóði um eða yfir 100 þús. kr. tekjur, og átti hann við frv., sem heimilaði áfengisverslun ríkisins að taka verslunarágóða af lyfjaáfengi. Jeg vildi bara segja það, að það er ekki rjett hjá hv. þm., að jeg hafi greitt atkv. á móti frv.; þvert á móti veitti jeg því allan þann stuðning, sem jeg gat. Það mun hafa verið óútrætt í þessari hv. deild eftir að það kom frá hv. Ed. Og það er rjett hjá hv. þm., að hv. Ed. tók út úr frv. að sameina áfengisverslunina við landsverslun. En það var ekki tekjuatriði fyrir ríkissjóðinn, heldur það sem eftir stóð í frv. Og jeg gekk á milli manna í hv. Nd. til þess að tryggja frv. meiri hl. eins og það kom frá hv. Ed.: því það var eina vonin til að fá því framgengt á því þingi, því þetta var seinasta þingdaginn, að jeg ætla. En jeg gat ekki fengið meiri hl. hv. þm. í deildinni til að samþykkja frv. þannig óbreytt, og það strandaði fyrst og fremst á þeim þm. í Framsóknarflokknum, sem jeg sneri mjer til. Svo þetta mál horfir þveröfugt við frá því, sem háttv. þm. (MT) sagðist frá.

Hv. þm. sagði, að það mætti veita meiri frest til niðurlagningarinnar. Jeg veit ekki, hvað hann á við, en eins og frv. var fyrst borið fram, var gert ráð fyrir að leggja einkasöluna niður fyrir lok þessa árs. Hin eina brtt., sem hefir komið fram, er sú, að lengja líf hennar til næstu áramóta, og þá till. hefi jeg stutt og greitt atkv. En engin önnur till. um að lögin gangi síðar í gildi hefir verið fram borin.

Jeg ætla svo ekki að rekja ummæli hv. þm. (MT), og sjerstaklega ætla jeg ekki að fylgja honum í þeim útúrdúr út úr deildinni, sem hann gerði í lok ræðu sinnar síðast, þangað sem sami fretsterturinn er reyktur tvisvar sinnum, að hans sögn.