07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3090 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

50. mál, tollalög

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Hv. frsm. meiri hl. (JJós) hefir haldið langa ræðu og mikla, og er mjer ánægja að geta þess, að hann hrakti ekki neitt af því, sem jeg hafði sagt í fyrri ræðu minni. Hann tók þann kostinn, sem hæfði best, að fara sem minst inn á málið, en talaði um ýmislegt, sem lá fyrir utan það, svo sem um virðingu kaupmannanna í þjóðfjelaginu o. fl., sem getur verið athugavert út af fyrir sig.

Háttv. þm. (JJós) leiddi sömuleiðis alveg hjá sjer að skýla, hvernig staðið hafi á skoðanaskiftum þeim, sem orðið hafa í hans flokki. En nú get jeg sagt honum það, að einkasalan var afleiðing af því, að þing og þjóð vantreysti verslunarstjettinni til að reka verslunina á sómasamlegan hátt. Okur kaupmannanna á stríðsárunum skipaði mönnum hjer í andstöðu við kaupmennina. Svo fór það í öllum löndum. Fólkið reiddist hinni miklu álagningu kaupmannanna, og það svo mjög, að ríkið hlaut að taka í taumana. Það hefði eins verið hægt að hafa allsherjarinnkaup og láta kaupmennina selja. En þingið vantreysti verslunarstjettinni, eins og áður er sagt. Það er alt og sumt.

En nú er eins að gæta. Hafi einkasalan átt rjett á sjer 1921, þá hefir hún það eins nú. Það var fyrir stríð, sem Hannes Hafstein og fleiri fylgjendur hans báru fram frv. um, að ríkið tæki að sjer kolaverslunina. Þeir vildu m. ö. o. láta landið fá kaupmannagróðann af kolaversluninni. Þessir menn munu þó tæplega hafa verið minni frelsisvinir en sumir þeir, sem nú hamast mest á móti einkasölu á tóbaki. Einfaldasta skýringin á þessu er sú, að Hannes Hafstein og líka hæstv. atvrh. (MG) hafa sjeð, að kaupmenn græða mikið á öllum vörum. Og þeir hafa ennfremur sjeð, að það var siðferðilega rjettmætt, að landið nyti þessa gróða, andstætt því, sem háttv. frsm. meiri hl. (JJós) heldur fram, að kaupmenn hafi einkarjett á öllum verslunargróða. En nú kemur annað til greina. Hæstv. atvrh. (MG) komst í ráðherrasess á því tímabili, þegar hringir verslunarmanna áttu ráð á stórum blaðakosti, sem var boðinn og búinn til að styrkja trúa fylgismenn til þingsetu og embætta. Það væri barnalegt að halda, að þessir skoðanaskiftingar hafi áður verið haldnir af illum öndum og sjeu nú hólpnir og frelsaðir. Mín skýring er sú, að þeir hafi fyrir rás viðburðanna orðið að beygja sig, þingmenn til að ná þingsetu og ráðherrar til að halda í völdin. Þetta er því þakklát fórn til verslunarstjettarinnar fyrir að hún hefir lagt þeim til blaðakostinn, sem hjálpaði þeim til valda. Við þessa skýringu verður málið ofureinfalt og afstaða hæstv. atvrh. sannar, að skýringin er rjett. Hann hefir í rauninni alls ekki snúist, en gat þó ekki fylgt máli, sem hann hafði beitt sjer fyrir með miklum áhuga, aðeins vegna þess, að kaupmennirnir heimta það af honum.

Þá þætti mjer gaman, ef hv. þm. Vestm. (JJós) vildi slá upp í orðabók fyrir 3. umr. orðinu „monopol“ til að vita, hvort hann finnur það þýtt með „einokun“. Og þó hv. þm. (JJós) telji sig jafnsnjallan hæstv. ráðh. (MG), þá verður í þessu sambandi að viðurkenna, að hæstv. atvrh. notar alstaðar orðið einkasölu en ekki einokun. Hefir hann lýst því í ræðu, sem hann hjelt á þinginu 1921, er hann þakkar fjhn. fyrir meðferð hennar á einkasölufrv., hversu mikill munur sje á þessu tvennu. Þar farast honum svo orð:

„Það er mikill munur á þessum tveim orðum, og má alls ekki blanda þeim saman. Einokunin gamla bygðist á valdboði útlendrar stjórnar, en hjer tekur þjóðin sjálf einkasölu á þessum tilteknu vörum. Það er sá mikli munur, sem er á milli þess, að fara sjálfir einir með verslun sína eða láta aðra fara eina með hana.“

Það er sýnilegt á þessu, að hjer hefir ráðherra, þvert á móti því, sem á að vera, orðið undir í sínum eigin flokki. En kanske er ráðherratign hans nú launin fyrir að sitja hjá á þeim fræga degi.

Þá segir hv. þm. (JJós), að margir hafi verið á móti einkasölunni 1921. En það bætti ekki um, hverjir fluttu frv. um hana. Og vafalítið er, að þó einkasalan hafi reynst þjóðinni holl, þá hefir hún samt á ýmsan hátt goldið feðra sinna.

Háttv. þm. (JJós) vill ekki telja það neina uppgjöf, þó ekki sje svarað neinu þeim rökum, sem unnendur einkasölunnar hafa komið með. En á það ekki að skifta neinu í þessu máli, þó sannað sje, að vörur verslunarinnar sjeu yfirleitt ekki dýrari en erlendis, en tekjurnar af versluninni helmingi hærri en gert var ráð fyrir? Hans flokkur vill heldur ekki viðurkenna, að það skifti máli, að rekstrarkostnaður verslunarinnar hefir aðeins numið 4% af umsetningunni. Það er þó almenn skoðun, að hjer í bæ sje lagt 20% á matvörur. Þegar nú er athugað, að svo mikið er lagt á vörur, sem annars er talinn lítill gróði að versla með, og þegar hv. þm. Vestm. (JJós) hefir upplýst, að meðalumboðslaun á tóbaki muni vera 3%, þá ætti engum að blöskra, þó landsverslunin tæki 4% fyrir alla starfrækslu, þar sem þessi verslun gefur landinu allan arðinn. Þá má ennfremur benda á, að forstjóri lyfjaverslunarinnar hefir 18 þús. kr. í árslaun, en landsverslunarforstjórinn 12 þús. kr., þó hann sje búinn að vera miklu lengur í þjónustu landsins. Landsverslunin mun því síst tapa á því, þó borinn sje saman kostnaðurinn við hana og áfengisverslunina, því meðan sú síðarnefnda hefir forstjóra á 18 þús. kr. launum og annað eins eða meira gengur í súginn, en hæstv. stjórn er samt ánægð með hana, þá álít jeg, að hún geti ekki verið svo hörundsár út af því, þó landsverslunin leggi 4% á tóbakið. Með hverju skipi þarf að senda margar sendingar út um land og taka dýra geymslu á leigu. En alt slíkt og mannahaldið við verslunina, og yfirleitt allur kostnaður við rekstur hennar, er innifalið í þessum 4%. Það getur því varla talist mikið, þó lagt sje á tóbakið 1% fram yfir það, sem umboðslaunin eru, að sögn hv. þm. Vestm.

Hv. þm. (JJós) hefir skýrt frá því aftur, hvað hann hafi átt við, er hann talaði um góðærið. Sýndi hann það ennþá, að hann hefir ekki þekt til þar, sem harðindin voru mikil. Hann hefir aðeins litið á það, hvernig aflaðist, og sjeð, að það var harla gott. Óneitanlega hefði verið þinglegra af honum að líta nokkuð á kringumstæður alls landsins.

Hv. frsm. (JJós) finst, að ekki megi bera saman áhættuna við tóbakssölu og fisksölu; það hefi jeg heldur ekki gert; en jeg bar saman allan reksturinn, og mjer er ekki kunnugt um atvinnurekstur iðnaðar og verslunar nokkursstaðar í heiminum, sem starfar varasjóðslaust. Stór fyrirtæki leitast ávalt við að safna varasjóði, og þessu var meðal annars altaf haldið fram af forgöngumönnum kaupmannastjettarinnar hjer á landi. Sje því afsakanlegur gróði kaupmanna af tóbaki, af því að hann sje í varasjóði, þá verður maður að telja það líka sanngjarnt, að landsverslun hafi varasjóð. (JJós: Jeg hefi aldrei verið á móti því). Varasjóðurinn á þá ekkert erindi inn í umr., úr því maður veit og viðurkennir, að öll fyrirtæki þurfa hans við.

Jeg ætla ekki að fara út í útsvarsskylduna nú, en benda aðeins á það, að það hafa fallið dómar um það hjer á landi, að landsverslun væri útsvarsfrí. Jeg get vikið að því aftur, að hæstv. atvrh. virðist ekki hafa verið sjerlega hræddur við það, þegar hann kom á einkasölunni, þótt atvinnan væri tekin af þessum fáu mönnum, sem versluðu með tóbak í heildsölu, og hefir þannig verið alt annarar skoðunar heldur en fylgifiskar hans. Hv. frsm. hjelt, að mjer þætti það út af fyrir sig lítils vert, að sömu kaupmennirnir kæmust aftur að tóbaksversluninni sem verið hafa áður. Jeg verð að játa minn ófullkomleika í allri tóbaksverslun. Því hvorki ætla jeg að neyta þess eða versla með það, svo frá því sjónarmiði er mjer alveg sama í raun og veru, hvort það er Pjetur eða Páll, sem þessa verslun hefir með höndum. Jeg held, að hv. þm. geti giskað á, að það er annað, sem er vítavert, en það, að sömu mennirnir taki við, sem sje að geta ekki unt landinu þess að fá þennan gróða. Margir þessara helstu heildsala hafa stóra verslun að öðru leyti og feikna tekjur; tóbakið er bara fjöður á þeirra fati, og landið verður að líða tap vegna þeirra. Sem áþreifanlega sönnun fyrir græðgi þessara manna má benda á það, að þeir bíða þess með óþreyju, að frv. þetta gangi í gegn og eru viðbúnir að flytja inn firn af tóbaki óðara en búið er að koma þessu fyrirtæki hæstv. atvrh. (MG) fyrir kattarnef.

Hv. þm. var að átelja það mikið, að verslunin hefði dofnað í landinu við tóbakseinkasöluna. Svo benti hann á það, að maður ætti ekki að vera með uppeldislegar hugrenningar innan um fjárlögin, en kom um leið með töluverða uppeldisþanka, og mjer til gleði var hann mjer að miklu leyti sammála. En því miður er ekki hægt að segja, að þessi minkun skaðlegrar nautnar sje svo áberandi mikil.

Þegar maður ber saman árin rjett fyrir stríð og síðasta árið, verður niðurstaðan sú, að innflutningur stendur alveg í stað. Þegar innflutningurinn minkar 1920—1921, stafar það af tvennu: hallæri og hinum óeðlilega innflutningi rjett áður. Jeg vil benda á það, að hv. þm. var áður í dag að halda því fram, að ýmsar verslanir hafi ekki viljað eiga neitt við að afla tóbaks frá landsverslun, og þess vegna hafi víða verið tóbakslaust. Þetta er að einhverju leyti rjett, og mjer er kunnugt um staði, þar sem mönnum þótti 10—25% alt of lítil álagning fyrir smásölu. En samt sem áður er það svona, að innflutningur á árunum rjett fyrir stríð og á síðasta ári stenst nokkuð á, svo þessi dofnun er ekki mikil frá því sjónarmiði. Aftur get jeg ekki neitað því, að jeg er ekkert á móti því, þótt innflutningur minki. Og jeg vil benda háttv. þm. Vestm. á það, að hann er með fyrirspurn hjer í þinginu viðvíkjandi útsölu vína, sem gengur í þá átt, að hann vill losa sitt kjördæmi við vínsölu. Hvers vegna er háttv. þm. að þessu? Af þeirri einföldu ástæðu, að minna er drukkið, ef engin er útsala í Vestmannaeyjum. Vitaskuld fær landið talsverðan gróða af víninu. Þannig er hv. þm. í hjarta sínu sammála mjer um það, að tekjum mætti gjarnan ná á heppilegri hátt en gegnum álagning á eitur, sem menn neyta á ýmsan hátt.

Jeg skal ekki mikið ræða um tóbaksbirgðir landsverslunar, því yfirleitt eru það fáir andstæðingar hennar, sem halda því fram, að þær sjeu ekki þegar og að of fáar tegundir flytjist. Og jeg get tekið það fram, að mjer er kunnugt um, eftir viðtali við menn, sem hafa starfað við einkasöluna, að hún pantaði ýmsar óvenjulegar tegundir fyrir neytendur. Nei, ef einkasalan fellur, þá er það af því, að verslunarstjettin vill hafa gróðann, smásalar meira en 10—25%, og heildsalar vilja hafa æðimikið meira en landsverslun leggur á nú.

Jeg tók það fram í fyrri ræðu minni, að það er ómögulegt að gera allsherjar samanburð á tóbaki hjer við önnur lönd. En samanburður hefir samt verið gerður við 2 næstu löndin, eftir því sem hægt hefir verið, þau, er við höfum mest viðskifti við. En verðið er áætlunarverð, og lítið á því að byggja að taka það allra dýrasta og allra lægsta til samanburðar. Það hefir komið í ljós, að tóbakið hefir verið jafndýrt í miðri Reykjavík eins og t. d. norður á Þórshöfn og Kópaskeri, af því hámarkið er „kontrolerað.“ En sú frjálsa samkepni notar sjer aðstöðuna með þetta og annað til þess að skrúfa verðið hærra á einum stað en öðrum. Þetta sýnir eina af skuggahliðum hinnar svokölluðu frjálsu samkepni.

Mjer þykir vænt um, að bæði sá hæstv. ráðherra, sem hjer hefir verið í dag, — sem hefir þá fortíð, að hann gat verið hjer í dag, — og líka hv. stuðningsmaður hans (JJós) hafa þekt þetta stóra tollsvikahneyksli með tóbak, sem varð fyrir stríðið því að það ætti að vera þeim nokkur lexía um það hvernig sú frjálsa samkepni hefir komið fram. Og þó það liggi ekki fyrir hjer, þá er það dálítið einkennilegt að maðurinn, sem svikin framdi skuli ekki hafa farið í betrunarhús og að hann geti haldið áfram að taka þátt í hinni frjálsu samkepni í þessu landi.

Hævstv. ráðh. kom með sögu. sem jeg hefi ekki heyrt áður, um tollsvik framin á síðustu árum. Búast má við að einhver tollsvik hafi verið höfð í frammi enda dettur engum í hug, að einkenning ein fullnægi með engu eftirliti. En alt um það mun áreiðanlega ekkert tollsvikamál hafa komið upp á þessum árum eins og það, sem jeg hefi hent á. Mjer virtist hv. frsm. meiri hl. (JJós) telja það hugsanlegt, að maður, sem keypti af landsverslun, geti að einhverju leyti notað hennar merki aftur á sviknar vörur. En síður mun það geta átt sjer stað, ef merkið er sett á af sjálfri verksmiðjunni heldur en ef því er komið á eins og hv. þm. vill vera láta.

Út af Romanos-vindlinum skal jeg taka það fram, að jeg hefi litið á skakkan dálk í skýrslunni. Háttv. frsm. var svo þokukendur, að jeg gat ekki altaf fylgst með þar sem hann var að snúast á villigötunum.

Þá er nú þessi gífurlega meinloka í frv., að lögreglustjórar eigi að afhenda miða til allra tóbakskaupmanna og þeir eigi svo sjálfir að merkja vörurnar. Jeg verð að játa, að mjer gat ekki dottið sú heimska í hug, og vil miklu frekar hallast að þeirri upprunalegu skýringu, að menn hafi ekki hugsað út í það, hvað er í raun og veru framkvæmanlegt í þessu máli og hvað ekki. Virðast þeir hafa búið frv. til í hasti undir „hápressu“ frá sínum yfirmönnum, og því ekki getað hugsað málið út fyr en eftir á. Þetta sem hv. þm. sagði, er svo mikil fjarstæða, og yrði eitthvað svipað eftirlit úr því eins og refurinn væri beðinn að passa gæsirnar, líkt og danskurinn kemst að orði. Jeg ætla yfirleitt að vísa til heimakosninganna um það, hvað það mundi gefast vel, þegar lögreglustjóri gæti afhent miða upp á varanlegar pantanir. (JJós) Það gæt i ekki komið til mála). Það átti heldur ekki að koma fyrir, að heimakosningarnar yrðu misbrúkaðar. En hvernig fór? Menn eru farnir að sjá, að það er ekki hægt að trúa hreppstjórum og sýslumönnum til að leysa þetta af hendi; og kaupmenn þurfa ekki að kveinka sjer við, þó þeir sjeu settir á bekk með þeim dánumönnum sem líta eftir lögum í landinu. Það er í raun og veru sama, hvor aðferðin er höfð, að láta lögregluna rífa upp sendingarnar og merkja, sem myndi verða afskaplega kostnaðarsamt, eða láta kaupmennina gera það. Það er að reyna að gera skrípaleik úr öllu saman, og náttúrlega ræður hæstv. stjórn því, hvorn skrípaleikinn hún leikur.

Hv. frsm. hefir tvisvar í dag minst á það, að ólíklegt væri, að landsverslun gæti komist að sjerlega góðum kjörum. Þar sem hún hefði ekki veltufje. Þetta er nú ekki sú ástæða, sem sumir halda fram: að það þyrfti að leggja tóbaksverslunina niður, svo landið gæti fengið veltufje hennar til sinnar notkunar. Ef hv. þm. vill hugsa um það, hvers vegna hringar eru myndaðir víða um heim og hvernig þeir leita eftir tryggum viðskiftum, þá mun hann geta sjeð, að hjer liggur það sama til grundvallar: að auðveldara er að gera góð kaup, eftir því sem kaupandinn þarf meira með. Hv. þm. er ekki ókunnugt um, hvað mikið framboð er á tóbaki og að það, sem framleiðendur vantar, það er einmitt markaður. Þess vegna er það, að þegar hægt er að bjóða öruggan markað, þá fást betri kjör. Og þegar þar við bætist, að engin er áhætta, þá held jeg það sje ekki svo fjarstætt, að landsverslun geti komist að betri kjörum en nokkur einstakur verslunarmaður. Jeg skal játa, að það mætti fá eitthvað betri kjör með því að borga út í hönd. En landsverslun var ekki lagt fje til þess. Og þó hefir hún getað sýnt þessa niðurstöðu, að gefa ríkissjóði svo mikla peninga án þess að hafa verð hærra en í næstu löndunum. Ef hv. þm. vill halda því fram, að landsverslunin vegna sinnar fátæktar og fátæktar landsins hafi ekki getað notið hinna bestu kjara, þá sýna úrslitin því skýrar yfirburðina hjá þeim, sem henni veittu forstöðu. Annars þarf maður ekki að taka þetta svo hátíðlega; hv. þm. veit, að slík verslun er iðulega rekin með víxlum; jafnvel óskilamenn hafa flutt inn tóbak á þann hátt, og mikið af því tóbaki, sem flutt var inn 1919—1920, var tóbak, sem vörubjóðar ytra urðu fegnir að losna við og seldu upp á lán. Tóbaksbraskið gekk svo langt, að hús voru seld fyrir tóbak, mótorbátar voru seldir fyrir tóbak, o. s. frv. Þetta sýndi, að jafnvel óskilamenn gátu flutt inn þessa vöru. Annars hefir aldrei heyrst kvörtun um það, að landsverslun hafi ekki staðið í skilum, og hafi aðstaða hennar ekki verið neitt betri en annara, þá varpar það nokkrum ljóma á þá, sem keyptu inn.

Hv. frsm. (JJós) fann að vísu, að það var drengilegt hjá núverandi forstjóra landsverslunar að hafa ekki hækkað sínar vörur í stríðsbyrjun, en hann hjelt því fram, að þannig hefðu margir farið að. Má vera, að svo sje, en jeg held þeir hafi verið alt of fáir. En hv. þm. gerði vel, ef hann vildi hækka hróður þeirra með því að láta þeirra getið, því þeir góðu eiga ekki að gjalda hinna seku.

Þá kom ein dálítið skrítin skýring hjá hv. þm. til þess að afsaka verðhækkunina 1914, sem sje, að fólkið hafi verið svo trylt eftir að fá vörurnar. En það getur aðeins verið afsökun í augum þeirra manna, sem vilja nota sjer heimsku og neyð fólksins. Annars minna þeir mig á Romanos-konungsættina þessir Romanosvindlar, sá etiski merkimiði, sem hv. þm. (JJós) hefir límt á sína stjettarbræður, að af því menn eru nógu viltir og nógu hræddir, þá megi nota sjer neyð þeirra. Jeg öfunda hv. þm. ekki af því að hafa sagt þetta í góðri trú, og sagt það af sínum hjartans grunni; en jeg skal játa, að þessi merkimiði gæti verið einskonar allsherjar merkimiði á alla baráttu Mbl.- manna í þessu máli hjer á þingi.

Jeg ætla ekki að fara mikið út í píslargrát háttv. frsm. meiri hl. (JJós) yfir kaupmönnunum. Jeg hefi ýtt undir hann að nefna fleiri dæmi, en hann hefir ekki getað það. Hv. þm. getur því ekki sagt að jeg hafi ekki viljað unna verslunarstjettinni þess hróðurs, sem hún hefir unnið til.

Eins og hv. þm. er eflaust kunnugt, hafa fáar áskoranir komið til þingsins um að leggja tóbakseinkasöluna niður, en margar hafa aftur komið um að halda henni áfram. Eru þær áskoranir flestar úr þeim hjeruðum, þar sem samvinnufjelögin eru í meiri hluta. En áskoranirnar um að leggja hana niður eru aftur úr kaupmannahjeruðunum. Því verður nú ekki neitað, að það er engu síður gróðavegur fyrir kaupfjelögin en kaupmenn, ef einkasalan verður lögð niður. En þrátt fyrir það hefir engin ósk komið frá þeim um að fá þennan gróðamöguleika opnaðan. En kaupmenn beita sjer fyrir því af öllum mætti, til þess að geta notið þessa gróða.

Hv. þm. Vestm. hlýtur nú að sjá, ef hann vill aðeins athuga þetta, að annaðhvort eru kaupfjelagsmenn svo heimskir, að þeir sjá ekki þennan möguleika, eða þá að þeir hugsa öðruvísi en kaupmenn. Og sú mun raunin á vera. Þeir sætta sig við þá stefnu, sem tekin var upp af Hannesi Hafstein fyrir nokkuð löngu síðan, og nú hefir aftur verið tekin upp af núverandi hæstv. atvrh. (MG). Þeir geta vel þolað, að landið hafi tekjur af þessari verslun, enda þótt þeir sjálfir líði eitthvert peningalegt tap við það.

Ekki er það jeg sem hefi kúgað einn ráðherra, landsins til þess að sitja hjá og hafast ekkert að, meðan verið er að ganga milli bols og höfuðs á hans eigin áhugamáli, til stórtjóns fyrir þjóðina; heldur eru það nokkrar gróðasjúkar sálir, sem af fjegræðgi sinni hafa leitt hæstv. ráðherra út á þessa glapstigu. Annars væri það lærdómsríkt fyrir kaupmenn þessa lands, að taka sjer til fyrirmyndar kaupmennina í Frakklandi og Svíþjóð, sem um langa stund hafa möglunarlaust þolað einkasölu á þessum vörutegundum og horft á hana gefa miljónir króna tekjur í ríkissjóð.

Vill nú háttv. þm. halda því fram, að kaupmannastjett þessara landa sje ver þroskuð en kaupmannastjett okkar? Jeg býst við, að hann eigi erfitt með að sanna það. En hvernig stendur þá á því, að kaupmannastjett þessa lands er svo gírug, að hún er engri annari samskonar stjett lík? Fram úr þessu á háttv. þm. Vestm. eftir að ráða, og get jeg trúað, að það verði erfiðara fyrir hann en að reykja Romanos-vindil. Geti hann ekki útskýrt þetta svo vit sje í, verður hann að þola, þó að stjett hans sje talin eigingjörnust allra verslunarstjetta heimsins. Þá talaði hv. frsm. um verslunarfrelsi, eins og svo margir aðrir. Skal jeg út af því nota mjer tækifærið til að leiðrjetta gamlan misskilning. Því hefir verið haldið fram, að Skúli Magnússon hafi verið fyrirrennari kaupmannastjettarinnar hjer á landi. En þetta er hin mesta firra. Hann barðist á móti harðvítugri kaupmannastjett og gerði miklar tilraunir til þess að koma á landsverslun, og reyndi jafnvel að koma á kaupfjelagsskap meðal bænda, þar sem hann gerði tilraun til að fá jarðeigendur til að mynda fjelagsskap og setja jarðir sínar í veð til þjóðarhagsmuna. Jeg nota þetta tækifæri til að leiðrjetta þennan misskilning, því að margir hafa viljað nota nafn Skúla, en með öllu ranglega, til að hlaða undir þá eigingjörnu og skammsýnu stjett, sem stendur af afnámi tóbakseinkasölunnar. Skúli barðist á móti ranglátri kaupmannastjett og vildi reyna að skapa íslenska verslun fyrir fólkið sjálft.

Þá sagðist háttv. frsm. meiri hl. (JJós) ekki vilja láta setja fótinn fyrir verslunarstjettina með þessari tóbakseinkasölu. Þarna kemur sú hreina yfirlýsing. En hver er þá sá, sem brugðið hefir fæti fyrir hana með þessu? Það er vitanlega enginn annar en hæstv. atvrh. (MG), sá sami maður, sem er yfirmaður hv. þm.

Jeg vil nú spyrja, — hvernig getur hv. þm. trúað þessum manni og þeim flokksbræðrum hans, sem á þinginu 1921 bera fram frv. um „monopol“ á lyfjum, „monopol“ á kornvöru, og síðast en ekki síst ,,monopol“ á tóbaki? Hvort sem hæstv. ráðherra hefir gert það ósjálfrátt eða af heimsku; því hafi hann gert það af heimsku, þá er ekki að vænta, að hann sje vitrari nú. En hafi hann gert það ósjálfrátt, þá getur slíkt ósjálfræði hent hann aftur, Hann getur t. d. snúist gegn þeim málum, sem hv. þm. Vestm. berst mest fyrir, t. d. sölu Vestmannaeyja o. fl.

Jeg sje ekki, hvernig þessi áfellisdómur um tóbaksverslunina getur samrýmst við þá trú og þá auðmýkt sem undirmanni ber að hafa fyrir yfirmanni sínum.