11.05.1925
Efri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3184 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

60. mál, kosningar til Alþingis

Jónas Jónsson:

Mjer þótti vænt um, að hæstv. forsrh. (JM) skyldi minnast á þetta mál, sem er mjög skylt frumvarpi því, er vísað var til stjórnarinnar í fyrra, enda þótt það bæri ekki tilætlaðan árangur. Jeg held, að rjett væri að aðskilja þessi tvö atriði, kjördaginn og kjördeildaskiftinguna, og tel jeg ákvæði þessa frv., að skifta hreppum í kjördeildir, spor í áttina. Jeg mun ekki fara út í hitt atriðið, en vil aðeins benda hæstv. forsrh. á, að í Svíþjóð standa kosningar yfir í mánuð. Þar helst enn gamla lagið, að láta hvert kjördæmi ráða sínum kjördegi innan vissra takmarka. Hjer eru allmiklir örðugleikar á því að sækja kosningar, og mætti því vera, að fyrirkomulagið í Svíþjóð gæti verið oss til fyrirmyndar.