01.05.1925
Neðri deild: 69. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3220 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

111. mál, útvarp

Magnús Torfason:

Jeg þarf að svara nokkrum orðum fyrir hönd allshn., þótt jeg sje ekki eins vel inni í þessu máli eins og háttv. frsm. (JBald). Og jeg verð að segja það, að mjer fanst anda kalt frá hæstv. atvrh. (MG) til nefndarinnar fyrir meðferðina á málinu. Þetta hefir nú gerst fyr, en jeg held, að það sje ómaklegt að finna að gerðum nefndarinnar í þessu máli. Hún hefir lagt mikið verk í rannsókn, og er þetta óvenjulega hröð afgreiðsla á jafnstóru máli. Og jeg tel það þakkarvert af nefndinni, að hún taldi það skyldu sína að leita til fleiri en leyfisbeiðenda um upplýsingar.

Mjer finst það aðallega valda ágreiningi, að í stað 150 km. geisla skuli koma 1½ kw., en nefndin er þar á rjettri leið, því að rjettara er að ákveða heldur afl stöðvarinnar en lengd geislans. Spurningin er, hvort hjer sje farið of hátt, en eins og hv. frsm. (JBald) sagði, þá mun nefndin taka til athugunar fyrir 3. umr., hvort hægt muni að lækka þetta.

Þar sem hv. flm. (JakM) taldi, að stöðin þyrfti að vera sterk, þá átti hann við það, að hún yrði ekki aðeins til skemtunar, heldur líka til gagns, þannig að hún gæti náð til mótorbáta, sem þá fengju sjer móttökutæki. Þegar mikil óveður eru, er hætt við, að afllítil stöð dugi ekki, og bregðist því þegar mest á ríður. Þetta hefir valdið því, að við tókum svona djúpt í árinni. Annars gætu ýmsir fleiri kostir fylgt því að hafa sterka stöð. Því sterkari sem stöðin er, því ódýrari geta tækin verið, en ef stöðin er veik, þurfa tækin að vera talsvert fullkomnari, og ef tækin verða að vera nokkuð dýr, virðist það mundu verða til þess, að færri sæju sjer fært að afla sjer þeirra en ella, og því bendir þetta til þess, að ef stöðin er sterk, þá mundi þetta útvarp verða meir alment notað heldur en með veikari stöð, og þá yrði hún sjerstaklega fyrir þá menn, sem eru í Reykjavík og umhverfi hennar; hinir yrðu, eftir því sem mjer skilst, að hafa talsvert vandaðri tæki en hjer. En hvernig þetta verkar fyrir sjerleyfishafa, skal jeg ekkert um segja; við höfum ekkert á að byggja hvað það snertir. En jeg hjelt, að því almennara sem þetta er notað, því betra mundi það vera fyrir sjerleyfishafa að hafa sterka stöð heldur en veika, og þá kem jeg að því, sem orð hafa verið látin falla um, að það að setja styrk stöðvarinnar svona hátt geti ekki verið af öðru en óvild til sjerleyfishafa. Því mótmæli jeg sem rakalausu. En jeg býst ekki við, að það þurfi að vera neitt kapp um þetta, því að það er ekki annað en álit manna um það, hvernig tækin þurfi að vera.

Þá skal jeg víkja að því, sem hæstv. ráðherra (MG) sagði, að árgjald og stofngjald yrði að líkindum hærra, ef sjerleyfishafi hefði ekki einkasölu á tækjunum. Þá er sjálfsagt að athuga, hvort er betra; og enn sem komið er get jeg sagt það fyrir nefndarinnar hönd, að hún álítur í öllu falli vafasamt, hvort er betra; það er m. a. það, sem kom til orða í nefndinni viðvíkjandi þessu, að framfarirnar á þessu sviði eru svo ákaflega örar, og því getur verið athugavert, hvort rjett væri að einoka tækin. Það getur líka verið rjett, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) tók fram í gær, að þá mætti selja lítilfjörleg tæki, en þá verða menn, eins og í öðrum tilfellum, að vara sig á ruslinu. Þá er aðeins að athuga það, hvað hagkvæmast er í þessu máli; nefndin hefir enga tilhneigingu til að gera þetta að „princip“- atriði.

Þá kem jeg að þriðja atriðinu, sem hæstv. atvrh. þótti, að nefndin hefði skemt í frv., og það var það, að hún lætur sjerleyfið ekki vera bundið við nafn; en þessu er því að svara, sem hv. frsm. (J- Bald) líka benti á, að það var beinlínis eftir till. hæstv. atvrh., og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkur orð úr ræðu hæstv. atvrh., eftir því sem ritararnir hafa skrifað hana, en jeg verð að taka það fram, að hæstv. atvrh. hefir ekki leiðrjett hana:

„Þá er og annað, sem mætti athuga í sambandi við þetta mál. Það gæti t. d. komið til mála að veita stjórninni heimild til þess að veita útvarpssjerleyfi, því hugsast gæti, að aðrir gætu orðið fyrri til en þeir menn, sem hjer er rætt um.“

Og það kom einmitt berlega fram í nefndinni, að þetta mundi vera rjett athugað hjá hæstv. ráðherra (MG), því ef þessir menn gætu ekki notað leyfið, þá yrði þingið að búa til önnur lög, en ef stjórninni yrði falið að veita leyfið, þá gætu þau eins gilt, þó að þeir hyrfu frá því. Þetta var, sem sagt, gert beint fyrir bendingu frá hæstv. atvrh., og svo langt frá því, að nefndin ætlaði að sýna nokkurn óvildarhug til þeirra, sem báðu um leyfið, enda er þess getið í nál., að þeir eigi að hafa forrjettindi (með leyfi hæstv. forseta):

„Nefndin vill þó láta þess getið, að hún telur rjett, að þeim mönnum, eða fjelagi þeirra manna, sem um ræðir í frv., verði, að öðru jöfnu, veitt sjerleyfi til þess að reka útvarpið.“

Nefndin gat vitanlega látið vera að setja þetta í nál., en hún gerði það af góðvild til þessara manna.

Jeg skal taka það fram, að nefndin hefir ekki snúið sjer svo mikið til sjerleyfishafa í þessu máli, blátt áfram af því, að hún leit svo á, að þetta mál væri rjett að athuga sem mest frá almennu sjónarmiði, eða að hafa fyrir augum hagsmuni þeirra, sem eiga að nota tækin og verða viðskiftamenn þessara sjerleyfishafa.

Í öðru lagi skal jeg líka benda á það, að nefndin ætlast til, svo sem brtt. okkar sýna, að það yrðu víðtækari ákvæði í reglugerðinni heldur en í frv., og sýnist mjer þetta einmitt vera nokkurskonar traustsyfirlýsing til hæstv. atvrh. (MG).

Jeg hefi nú ekki fleira að taka fram að svo stöddu. Þetta er, sem sagt, alt saman smáatriði, en það ber þó að athuga þetta vel, og er nefndin fús til að athuga það frekar til 3. umr., og rjett áður en þessi umr. hófst, fjekk jeg nýjar upplýsingar, sem sjálfsagt munu hafa áhrif á málið, og mun jeg bera þær undir nefndina.