07.03.1925
Neðri deild: 28. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3339 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

81. mál, sáttatilraunir í vinnudeilum

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Það fer vel á því, að þessi tvö frv., frv. það, sem hjer er til umr., og frv. háttv. þm. Dala. (BJ), verði samferða til nefndar. Þau stefna bæði að sama marki og eru bæði flutt í sama tilgangi, sem sje þeim, að koma í veg fyrir eða draga úr illum afleiðingum, ef upp koma deilur milli vinnuveitenda og vinnuþiggjenda. Við flm. þessa frv. erum samþykkir hv. þm. Dala. í því, að það er skylda löggjafarvaldsins að stuðla til þess, að friðsamir samningar geti orðið milli aðilja í slíkum deilum. Sú aðferð, er þetta frv. okkar leggur til að notuð verði, hefir mjög verið notuð erlendis og alstaðar gefist vel. Okkur dettur ekki í hug, að þetta muni einhlítt, en þetta er ein af þeim aðferðum, sem viðhafðar eru víða til að greiða úr þessum málum, og við teljum sjálfsagt, að hún verði reynd hjer líka. Það er enginn vafi á því, að reynslan erlendis hefir sýnt, að þetta er spor í rjetta átt, og gæti því einnig vel átt við hjer. Ástæðan til, að þetta skipulag um að setja niður vinnudeilur hefir gefist svo vel, er sú, að óhlutdrægur aðili fær þá tækifæri til að bera fram skynsamlegar miðlunartillögur, sem ef til vill komast ekki að, er aðiljar eigast einir við, en í raun og veru er það báðum lífsspursmál, að friður náist.

Jeg get sjálfur af sjerstökum ástæðum borið um það, að heppilegt gæti verið að eiga aðgang að slíkum manni sem hjer ræðir um. Jeg hefi sem sje lent í því að þurfa að hafa afskifti af og taka þátt í einni slíkri kaupdeilu milli verkamanna og vinnuveitenda, og get því borið vitni um þetta. Jeg lenti í stjórn prentsmiðjueigendafjelagsins og tók því þátt í launasamningum við prentarana. Báðir aðiljar báru fram kröfur sínar, og langt var í milli. En báðir voru tregir að stíga fyrsta sporið til samkomulags, því að þeir voru hvor um sig hræddir um, að mótstöðumennirnir mundu skoða slíka framkomu sem vott um veikleika eða vantraust á sínum málstað. Þannig veit jeg, að oft hefir verið ástatt, og er æ hætt við, að deilan harðni eftir því sem hún verður lengri. Því er vafalaust, að það gæti gert ákaflega mikið gagn, ef frv. þetta yrði að lögum. Væri ávalt til maður, sem af þjóðfjelagsins hálfu hefði þau skyldustörf á höndum að grípa inn í slíkar deilur sem þessar og bera sáttaboð á milli, þá þarf hvorugur aðili að lækka sig til þess að stíga fyrsta sporið til sátta.

Í greinargerð frv. sjest, að það er sniðið eftir danskri löggjöf um þessi mál. Jeg hefi ekki haft tækifæri til að kynna mjer lög annara þjóða en Dana um þetta, en jeg vænti, að nefnd muni eiga þess kost. Frv. felur í sjer ýms góð ákvæði til þess að tryggja aðstöðu sáttasemjarans, en hinsvegar var ekki hægt að taka alt eftir, sem Danir hafa í lög sett um þetta. Hjer horfir ýmislegt öðruvísi við en þar, sem staðhættir eru allólíkir vorum. Danir hafa og 3 menn, sem gegna þessum starfa, en við álítum, að fyrst um sinn að minsta kosti mundi okkur nægja einn maður. Ákvæðin um kosning nefndarinnar, sem á að tilnefna sáttasemjarann, eru að nokkru önnur en hjá Dönum, vegna ólíkrar aðstöðu. Bið jeg hv. nefnd að athuga það. Jeg er sem sagt þess fullviss, að þetta frv. er spor í rjetta átt; um einstöku atriði þess aftur á móti er jeg fús til samvinnu og endurathugunar. Jeg vænti þess svo, að hv. deild taki þessu frv. með velvild og vísi því til 2. umr. og allshn.