08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3347 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

81. mál, sáttatilraunir í vinnudeilum

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Það, sem jeg hafði í huga þegar jeg talaði um, að atvrh. gæti skift sjer af deilum áður en skipaður væri sáttasemjari, var það, að ráðherrann gæti þegar í sumar látið koma fram tillögu um skipun sáttasemjara, og hann þá taka til starfs, ef þörf krefði.

Að því er snertir ákvæðið í 3. gr., sem hæstv. atvrh. vjek að, þá kemur það ekki til greina nema hlutaðeigandi sje í fjelagi atvinnurekenda.

Í 5. gr. er átt við menn, sem kosnir yrðu til samninga í hvert skifti. Frv. verður að skiljast svo, að það geti átt við ástandið eins og það er á hverjum stað, svo að það geti komið að gagni í framkvæmdinni.