25.03.1925
Efri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (2258)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get að miklu leyti vísað til ræðu hv. frsm. minnihl. (IHB), sjerstaklega um það, hver munur er á kvennaskólanum í Rvík og Blönduósskólanum. Hv. þm. hefir glögglega sýnt þennan mun, að annar er landsskóli, en hinn hjeraðsskóli. Mjer finst ekki rjett af hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) að bera sína tillögu fram sem brtt. við þetta frv. Eðlilegast væri, að hvort málið fyrir sig væri í sjerstöku frv. Það er auðsjeð, að talsverður munur er á þessum skólum. Annar þeirra sýnist færast meir og meir í það horf, að verða húsmæðraskóli. Hinn er stöðugt öllu fremur almennur skóli fyrir konur. Mjer finst, að hægt ætti að vera að koma sjer saman um að fella brtt. um kvennaskólann á Blönduósi. Jeg ætla ekki fremur en hv. frsm. minnihl. (IHB) að fara að mæla á móti þessum skóla. En jeg legg áherslu á, að í sambandi við þetta frv. á það mál ekki að koma til greina. Hvort hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) þykir ástæða til að koma fram með sína tillögu, þegar kvennaskólinn hjer er orðinn að ríkisskóla, það má tala um síðar. Það hefir komið fyrir í svipuðum tilfellum hjer á þingi, til dæmis í baráttu milli tveggja brúa, að hvor tillagan hefir spilt fyrir annari. Ef hv. þm. (GÓ) vildi fá sínu máli framgengt, ætti hann ekki að blanda því saman við þetta, heldur koma fram með það sjerstaklega.

Hv. meirihl. nefndarinnar hyggur, að skólinn yrði miklu dýrari sem ríkisskóli, heldur en ef hann væri rekinn sem einkaskóli, eða ætti sig sjálfur. Jeg skal játa, að hann yrði lítið eitt dýrari í upphafi, en í rekstri sje jeg ekki ástæðu til þess, að hann þyrfti að verða dýrari, nema að því sem munar á launum föstu kennaranna.

Hv. frsm. meirihl. (JJ) bar saman rekstrarkostnað kvennaskólans í Rvík við rekstrarkostnað ríkisskólanna. Það liggur næst að bera saman rekstrarkostnað Blönduósskólans og bændaskólanna, og Eiðaskólans. Hvað sýnir þá þessi samanburður? Kostnaður við þessa skóla er nokkuð svipaður. Hvanneyrarskólinn mun kosta um 18 þús. og Blönduósskólinn líka 18 þús., Hólaskóli ofurlítið meira og Eiðaskóli líka. Það mun ekki vera mikill munur á nemendafjölda, svo að það sýnir sig, að þetta einkafyrirtæki á Blönduósi er hjerumbil eins dýrt og skólinn á Hvanneyri. Eftir því sem mjer telst til, kostar Hvanneyrarskólinn 18400 kr., en Blönduósskólinn 18000, svo að munurinn er einar 400 kr. Jeg veit ekki með vissu um nemendafjölda á Hvanneyri, en hygg, að hann sje líkur á báðum stöðunum. Að þessu athuguðu sje jeg ekki með hvaða rjetti hægt er að tala um mun á einkaskóla og ríkisskóla, að því rekstrarkostnað snertir. Þessir skólar eru einmitt mjög sambærilegir, af því að báðir eru í sveit. Það, sem fyrir mjer vakir er það, að úr því að kvennaskólinn hjer er kostaður að öllu úr ríkissjóði, þá sýnist eðlilegast, að ríkið ráði yfir honum. Skólanum er ekkert lagt til annarsstaðar frá, nema skólagjöldin.

Jeg held, að úr fjárhagsatriðinu hafi verið gerð óþörf grýla. Það er rjett, að kostnaður eykst ofurlítið, en hann er aðallega fólginn í þessari litlu launahækkun, sem hjer er farið fram á, og sem hv. frsm. meirihl. sagði, að mælti heldur með frv. Jeg þarf ekki annað en að vísa til ræðu hans um þetta atriði. Það hefir verið talað um, að ekki væri þörf á sjerskólum fyrir konur, nema húsmæðraskólum. Það er gömul kenning, að hollara sje að hafa samskóla fyrir karla og konur. Sú skoðun hefir verið ríkjandi um tíma. En nú eru ýmsir farnir að rísa upp og segja, að þessi stefna sje röng. Karlar og konur sjeu svo ólík að eðlisfari, að samskonar uppeldisaðferð eigi ekki að öllu við, og sje því nauðsynlegt að hafa ýmsa sjerskóla fyrir konur. Margir uppeldisfræðingar halda því fram nú, að of langt sje gengið í því, að sjá ekki konum fyrir sjerskólum. Þarf jeg ekki að fjölyrða um þetta, því að hv. frsm. meirihl. er jafnkunnugt um þetta og mjer. Jeg held því, að þetta frv. stjórnarinnar sje á mjög góðum rökum bygt, hvernig sem á það er lítið. Það er satt, að ofurlítið dýrara verður að hafa fasta kennara en tímakennara eingöngu. En eins og hv. frsm. minnihl. (IHB) tók fram, er óholt fyrir skólann að byggja mjög á tímakennurum, sem aðeins eru við skólann 1–2 ár í einu. Má því telja nauðsynlegt að hafa eitthvað af föstum kennurum. Hjer er farið hóflega í sakirnar, þar sem gert er ráð fyrir þremur föstum kennurum, fyrir utan forstöðukonu. En auðvitað verður að byggja nokkuð á tímakenslu.

Hv. frsm. minnihl. (IHB) talaði um, að útvega þyrfti skólanum hús. Það hefir nú raunar verið svo undanfarið, að ríkið hefir orðið að borga húsaleiguna, því að skólanum hefir aldrei verið neitað um það fje, sem álitið var nauðsynlegt, og það hefir verið upplýst hjer, að til húsaleigu verður að leggja 1/3–1/2 af hinu árlega ríkissjóðstillagi. Jeg held því, að þetta um aukakostnaðinn sje aðeins grýla, nema ef menn sjá eftir þessari lítilfjörlegu aukningu við launin. Um annan aukakostnað er varla að ræða. Hvað er þá hættulegt við að játa það með berum orðum, að þessi skóli, sem kostaður er af ríkinu, sje ríkisskóli? (JJ: Skólagjöldin eru há). Þau mundu halda áfram, svo að þetta er ekki frambærileg ástæða. Ef einhver eftirgjöf yrði í skólagjöldum, þá mun það einnig vera til nú, svo að í þessu efni yrði engin breyting. Skólinn er nú rekinn fyrir ríkisfje. Hann hefir fengið umbeðinn styrk, og hafi það ekki nægt, þá viðbót síðar.

Jeg hefi lagt áhersluna á að athuga fjárspursmálið. Hvað kensluna snertir og nauðsyn hennar í sjerskóla fyrir konur, það hefir hv. frsm. minnihl. (IHB) talað um, og getur líka miklu betur um það atriði borið heldur en jeg eða hver af okkur, sem er hjer í hv. deild. Og við vitum allir, að það er nauðsynlegt og óhjákvæmilegt, að hafa sjerskóla fyrir konur, ekki einungis til þess að þær læri matartilbúning og þesskonar, heldur líka ýms önnur verk, og á þann hátt, sem er nauðsynlegt fyrir konur, sem eiga eftir að giftast og standa fyrir búi; m. ö. o. til þess að búa sig undir það sjerstaka starf, sem nú einu sinni er ætlað konum sjerstaklega. Þær hafa sömu rjettindi og líka sömu skyldur og karlmenn. Þær verða á öllum sviðum að fylgjast með karlmönnum. En það stendur mjög ólíkt á, bæði líkamlega og andlega hjá konum og körlum, og það er meira og meira viðurkent á síðustu árum, mjer er óhætt að segja hjá meirihluta þeirra manna, sem fást við uppeldi og kenslu.