06.04.1925
Efri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2283)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. minnihl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg skal ekki vera langorð.

Hv. 1. landsk. (SE) var á móti því, að stytta skólatímann, og er jeg honum þakklát fyrir það. Fanst mjer þar kenna þeirrar sanngirni, sem hann hefir altaf sýnt í mentamálum. Við vorum því þarna alveg samdóma um, að ekki ætti að breyta neinu. En lengra gátum við ekki átt samleið. Hann byrjaði á að tala um það, að jeg hefði haft í hótunum. Því skal jeg taka rólega. En um leið og hann reifaði það, að jeg hefði haft í hótunum, sagði hann, að hann hefði byrjað sína pólitísku braut með því að vera með kvenrjettindunum. Jeg sagði áður, að margir, ekki aðeins konur, hefðu orðið löngu á undan honum í því að styðja að rjettarbótum kvenna. Það er ekki konum einum að þakka, að þær hafa fengið þessar rjettarbætur, heldur sanngirni fulltrúa á Alþingi.

En vegna þess, að jeg hefi ætíð haldið því fram, að hv. 1. landsk. (SE) hafi kynt sig að því, að vilja styðja að mentamálum þjóðarinnar, þá kom mjer það á óvart, að hann skyldi nú láta kostnaðaratriðið við það, að ríkið taki að sjer kvennaskólann, verða að þrætuepli. Að honum ólöstuðum, bæði sem þm. og ráðherra, hefir hann aldrei kynt sig að því, að vera neinn sparnaðarmaður. (SE: Ó-jú!) Jú, það er hægt að spara eyririnn og kasta krónunni, og með því að spara á skökkum lið, má fella ýmislegt gagnlegt.

Hv. 1. landsk. (SE) hafði eftir mjer, að kosningar myndu snúast um þetta mál næst. Jeg skal ekki standa í neinni orðaorustu við hann út af því, þótt hann „lagfæri“ orð mín, en jeg skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp, það sem jeg sagði. Mjer fórust svo orð: „Konur munu gefa því gætur og minnast þess við næstu kosningar, hvernig atkvæðagreiðsla fer í þessu máli.“ Þetta, sem hv. 1. landsk. (SE) hefir sagt, er því rangfærsla. (SE: „Kosning fer fram eftir 2 ár“!) Hv. 1. landsk. (SE) er skáldmæltur, eins og allir vita (SE: Jeg hefi aldrei fengið viðurkenningu fyrir það!), en þetta er' ekki skáldskapur, heldur afbökun.

Mundi það t. d. ekki þykja fremur ósanngjarnt, ef konur færu að sletta sjer fram í það, hvernig skólum karlmanna væri skipað? (SE: Alls ekki; sjálfsagt!) Jú, „klipt var það, skorið var það“, um þetta skulum við ekki deila; jeg sje, að það tjáir ekki. Hæstv. forsrh. (JM) hefir rjettilega bent á það, að það er mergur þessa máls, að kvennaskólinn á undir högg að sækja með fjárveitingar til þingsins, til þess að geta uppfylt rjettmætar kröfur, sem þjóðin gerir til skólans. Þetta er mergurinn málsins, og það bið jeg því háttv. þm. að athuga. Jeg skil það ekki, að kostnaðurinn sje aðalástæðan á móti þessu máli. Hv. 1. landsk. (SE) hefir ekki verið svo mikill sparnaðarmaður til þessa.

Þátttaka kvenna í samskólunum og í áframhaldandi æðri skólum, þar sem ekki eru nema sárfáar stúlkur í tölu nemenda, sýnir, að sú fræðsla, sem þeir veita, hentar ekki konum yfir höfuð. Af þeirri bóklegu fræðslu, sem þeim er þar veitt, hentar þeim sumt, en samhliða því vantar alla kvenlega sjermentun, og flestar konur, sem dætur eiga, leggja þó allmikið upp úr þeirri hlið málsins. Af hverju sækja þær ekki betur þessa skóla? Af því að það hentar þeim ekki. Menn verða að taka tillit til reynslunnar í þessum efnum. Jeg efast ekki um það, að bráðlega muni koma þeir tímar, að fleiri skólar sæki í kjölfar þessa skóla, t. d. skólinn á Blönduósi og Flensborgarskólinn. Það er eðlilegt, að skólarnir æski eftir að verða ríkisskólar, því að þeir vilja á þann hátt tryggja framtíð sina. Hví ættum vjer konur að láta okkur nægja með pappírsrjettindi ein? Ættum vjer að hrekjast sem ásauður frá kvíum til kvía? Nei, það koma fleiri skólar hjer á eftir, um það er jeg sannfærð. (SJ: Aldrei húsmæðraskóli Norðurlands; það er jeg viss um.) Jú, jeg er viss um, að sá skóli kemur líka á eftir. En yfir höfuð felst ekki annað í þessum kröfum skólanna, eins og jeg hefi þegar tekið fram, en krafan um að fá tryggingu fyrir því, að geta starfað sæmilega nú og í framtíðinni.

Þá ætla jeg að svara lítillega því, sem háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ) vjek að mjer, og mun jeg þó ekki tefja tímann með því að svara því öllu, enda var sumt af því hið sama og jeg hefi þegar svarað hjá hv. 1. landsk. En því, sem háttv. 1. þm. Eyf. vjek að mjer persónulega, hefi jeg flestu gleymt, enda gerir það ekki til. Hann byrjaði á því að segja, að námstíminn væri of langur og yrði því mörgum of dýr. Get jeg að nokkru leyti fallist á það; en á það ber þá einnig að líta, að námið hefir komið fjölda nemenda að góðu gagni. Jeg vil benda á, að stúlkur frá kvennaskólanum hafa fengið ágætar stöður eftir 3 ára nám, hafi þær komið sæmilega undirbúnar á skólann, t. d. þær námsmeyjar, er komið hafa frá góðum unglingaskólum. Það, að neðstu bekkirnir væru ekki annað en framhald af barnaskólunum, er veigalítið. Má þá ekki 14 ára stúlka eiga kost á framhaldsmentun, þótt foreldrar hennar vilji ekki senda hana í mentaskólann? Jeg segi hún eigi heimtingu á því. Að færa aldurstakmarkið niður í 12 ár, það hefi jeg eigi gert, og þarf jeg eigi að svara því frekar. Að skólavistin sje ill og heilsuspillandi, og að margir nemendur hafi mist heilsuna af þeim ástæðum? — Þessu er því að svara, að það er mjög algengt, að unglingar á þeim árum sjeu eigi eins heilsuhraustir og æskilegt væri, en það á ekkert fremur við kvennaskólann en aðra skóla, og jeg er þakklát forsjóninni fyrir það, að heilsufar í kvennaskólanum hefir yfirleitt verið gott. Háttv. þm. fann að því, að skrift og teikning væru teknar upp í frv. sem lögboðnar námsgreinar, og tók til dæmis, að þá ætti lestur einnig að vera lögboðin námsgrein, þar eð margir væru lítt læsir. Þetta er því miður sorglegur sannleikur. Það mundi gleðja mig, ef hægt væri að byrja ofar og fækka þar af leiðandi byrjendanámsgreinum, t. d. skrift. Háttv. þm. talaði eitthvað um beinar linur og bognar, í sambandi við teiknikensluna. Það er rjett; þær eru undirstaðan í teiknilistinni, og það er vel þess vert, að athuga það, að fegurð skapast af bognum línum, en hið rjetta, sanna, kemur fram í hinum beinu línum, og jeg sný ekki frá því, að það er sjálfsagt, að temja sjer teikningu. Háttv. þm. sagði sjer fyndist, að framhaldsskólar barnaskólanna ættu ekki að vera ríkiskólar, og að því leyti sem háttv. þm. átti við unglingaskólana, er það rjettmætt. Þó ber nú ríkissjóður þetta alt saman á einhvern hátt. Háttv. þm. sagði, og tók það oft fram, að kvennaskólinn mundi ekki batna neitt, þó að hann yrði gerður að ríkisskóla. Jeg tek mjer þetta til inntekta; en þegar slíkur úrskurður var feldur, held jeg það hafi síður átt að teljast lof en last, en jeg býst þó eigi við, að háttv. þm. (EÁ) sje fær um að gefa vottorð um þessi efni.