19.02.1925
Neðri deild: 11. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (2313)

48. mál, friðun rjúpna

Björn Líndal:

Jeg get nú að vísu fallist á sumt af því, sem háttv. flm. hefir sagt, en jeg held, að hann hefði ekki flutt þetta frv., ef hann hefði verið jafnkunnur staðháttum sumstaðar á Norðurlandi og hann er í Borgarfirði. Hjer er ólíku saman að jafna. Jeg geri ráð fyrir því, að hv. þm. Borgf. (PO) hafi lýst rjettilega, hvað Borgarfjörð og Suðurland snertir, öllu því, er mæla kann með þessari breytingu á aðeins ársgömlum lögum. En væri hann jafnkunnugur sumstaðar á Norðurlandi, t. d. um Þingeyjarsýslur, geri jeg ráð fyrir því, að honum mundi skiljast það, að þessar breytingar eiga ekki þar við. Norðlendingar eru margir hverjir bundnir við ákveðnar skipsferðir — einkum skipin, sem taka kjöt þeirra — til þess að koma rjúpunni frá sjer. Annars hafa þeir svo langt að sækja, þegar þeim ferðum sleppir, t. d. til Akureyrar eða Húsavíkur, og verður þá flutningskostnaður rjúpunnar svo mikill, að hagnaðurinn af veiðinni verður lítils eða einskis virði.

Auk þess legst veturinn það snemma að sumstaðar á Norðurlandi, að öllum jafnaði, að sjaldgæft má telja, að hægt sje að vinna að nokkrum jarðabótum eftir miðjan október. Einkum er þetta altítt í Þingeyjarsýslum. — Það er síður en svo, að jeg vilji stuðla að því, að menn meti meira að eltast við rjúpur en að vinna nauðsynleg haustverk á heimilunum, og tel jeg þar með alt, sem að jarðabótum lýtur. En þegar algengt má telja, að hausthríðar og harðindi hafi gert mönnum ófært að vinna að slíkum nauðsynjastörfum eftir miðjan október, virðist það ósanngjarnt, að útiloka menn í þessum harðbalahjeruðum frá því að stunda rjúpnaveiðarnar, þegar ekkert er annað hægt að gera. Það var þetta, sem jeg vildi benda á, úr því að jeg kvaddi mjer hljóðs, og gæti það orðið nefnd þeirri til athugunar, sem frv. fær til meðferðar. — Annars kann jeg því illa, að verið sje að breyta aðeins ársgömlum lögum að nauðsynjalausu. Alstaðar, þar sem jeg þekki til á Norðurlandi, er almenn ánægja með rjúpnafriðunarlögin frá síðasta þingi.