16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (2373)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Ágúst Flygenring:

Jeg hefi áður bent á tvent í þessu máli, sem aldrei hafði verið minst á, en þeim rökum var einungis svarað þannig, að þau kæmi í bág hvort við annað, eða m. ö. o., þeim var svarað út í hött. Jeg held því fram, að engin líkindi sjeu til, að góðum skipstjóra, sem hefði gerát brotlegur, yrði synjað um skiprúm, t. d. sem háseti. Tel víst, að skipseigandi hjeldi þennan mann áfram á skipinu, og þó honum væri ekki fengin skipstjórn opinberlega, gæti hann þó öllu ráðið. Enda sýnist það í mesta máta ósanngjarnt, að lofa ekki góðum skipstjóra að vera áfram um borð, þó að hann hafi orðið fyrir því slysi, að verða sekur um landhelgisbrot, kanske allsendis óviljandi. Það er ekki hægt að ganga fram hjá því, að engar líkur eru til þess, að útgerðarmenn hegni skipstjórum sínum á þennan hátt, og er þá augsýnilegt, að hegningarákvæði frv. koma að engu haldi.

Hinsvegar er og víst, eins og áður hefir verið bent á, að þeir, sem löggæslu hafa á sjónum, munu því fremur veigra sjer við að kæra skipstjóra fyrir landhelgisbrot sem meira er í húfi, að því er refsingu snertir, nema þeir sjeu fullkomlega vissir í sinni sök.

Jeg hefi verið á ýmsum fundum, þar sem mál þetta hefir verið rætt meðal alþýðu, þar á meðal suður með sjó. Skoðun þeirra manna þar syðra er eindregin sú sama og hv. flm. Skal jeg játa það, að mjer þykir leiðinlegt að geta ekki fylgt þessari skoðun, kjósenda minna vegna, en nú erum við allir, sem hjer sitjum, bundnir við sannfæring sjálfra vor, og í þessu máli er mín sannfæring bygð á þekkingu. Jeg er í engum efa um, að það væri mikil vanvirða fyrir þingið að samþykkja frv., enda mundi það ekkert draga úr brotunum.

Íþynging sekta ein saman leiðir ekki til meiri löghlýðni, miklu fremur mundi slíkt vekja gremju og þrjósku. Tel jeg víst, að íslenskir skipstjórar, þeir sem annars brjóta landhelgislögin, mundu engu síður fremja slík brot, þó refsing yrði þyngri. Það er hreinn misskilningur að ætla það, að slík refsiákvæði, sem hjer er gert ráð fyrir í frv., mundi vekja hjá þeim löghlýðni.

Frá hvaða sjónanniði sem jeg lít á frv., get jeg ekki fallist á það, og langar mig þó til þess vegna hv. flm., því jeg veit þeim gengur gott til, og vegna minna kjósenda. En mjer virðist, að slík lög hafi ekki hina minstu þýðingu. Það er vanvirða, að setja þessi lög, vegna þess m. a., að það er órjettlæti gagnvart mönnum, sem brjóta á sama svæði, eins og margsinnis hefir verið bent á. Útlenda skipstjóra getum vjer ekki svift rjettindum til skipstjórnar.

Vitanlega er ekki til neins að vera að ræða þetta meir, því líklega er málið að öllu leyti tæmt, hvað rök snertir. Held jeg, að með og móti hafi komið þær ástæður, sem komið verður auga á, og þessvegna verða menn að láta sjer lynda, að atkvgr. fari nú fram um málið, svo að úr skeri.