08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg skal aðeins nefna þrjú atriði. Það er fyrst till. á þskj. 502, um lán til Friðjóns Kristjánssonar o. fl. til þess að koma upp kembingarvjelum hjer í Reykjavík. Þessir menn hafa látið rannsaka málið og komist að þeirri niðurstöðu, að mikil þörf Væri kembingarvjela, og sú þörf fer vaxandi eftir því sem spunavjelar útbreiðast. Enginn þarf að halda, að þetta fyrirtæki verði skaðlegur keppinautur þeim verksmiðjum, sem fyrir eru, því að þær anna ekki nándar nærri því, sem vinna þarf.

Þeir, sem. að þessu standa, vilja láta þess getið, að þegar að því kemur, að hjer verður stofnuð stór verksmiðja, sem unnið getur alla dúka, sem landið þarfnast, þá muni þeir fúsir til þess að láta þetta fyrirtæki renna inn í þá verksmiðju. Lóð geta þeir fengið innanvert við bæinn, og loforð fyrir nægilegu rekstrarafli hafa þeir fengið hjá rafstöðinni fyrir 300 kr. á mánuði. Þeir þykjast vissir um, ef þetta lán fæst, að hægt verði að setja vjelarnar á stofn í sumar. Af því að svo er að heyra, sem sumum þyki verra að ganga í ábyrgð en að veita lán, hefi jeg komið með varatillögu um ábyrgðarheimild, og býst jeg við, að hún ýti undir hv. þm. að samþykkja lánveitinguna.

Þá er farið fram á, að tvær konur fái lítilfjörlegan styrk til þess að kenna kvennlegar hannyrðir. Það er merkilegt tímanna tákn, að við hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) erum sammála um þessa till., og hefir hann þó oft verið annari þessari konu þungur í skauti. En fyrst hann sjálfur ber nú fram þessa till., má nærri geta, hvort aðrir í deildinni muni leggjast á móti henni.

Þessi kona, Þórdís Ólafsdóttir, er mjög vel að sjer í kvenlegum hannyrðum, fornum og nýjum, og hefir kent þær í Dalasýslu og víðar, og hefir jafnan verið sóst eftir tilsögn hennar. En hún varð að leggja þessa kenslu niður, þegar styrkurinn var af henni tekinn.

Hin konan, sem lagt er til að veittur sje 500 króna styrkur, er á Austurlandi, svo ekki er hætt við, að þær taki mikið hvor frá annari. Hún heitir Sigrún Pálsdóttir og er kona Benedikts Blöndals kennara frá Eiðum. Hún hefir áður kent við þann skóla, en nú er hagur hennar annar, því að þau hjón eru hætt að starfa við skólann og farin að búa í Mjóanesi. Mjer þykir vel fara á því, að konur þessar sjeu styrktar, hvor í sínum landshluta, til þess að breiða út þekkingu og áhuga fyrir kvenlegum hannyrðum og listum. Verk þeirra miðar meðal annars að því að fegra og prýða heimilin og kenna kvenfólkinu að hafa verk með höndum, sem unun er að að vinna.

Þá skal jeg aðeins minnast á skáldin. Það er sagt, að í upphafi, þegar drottinn úthlutaði gæðum jarðarinnar, hafi skáldið verið statt úti í skógi og ekki fengið neitt í sinn hlut. Svo þegar skiftunum var lokið, fór skáldið til drottins og kvartaði yfir hlutskifti sínu. Drottinn sá, að skáldið hafði rjett að mæla og sagði: „Til uppbótar mun jeg leyfa þjer að koma inn í himin minn hvenær sem þú vilt.“

En af því að hið háa Alþingi mun ekki eiga neinn slíkan himin, tel jeg víst, að það muni hiklaust veita skáldunum umbeðinn styrk.