15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í C-deild Alþingistíðinda. (2521)

33. mál, lærði skólinn

Magnús Jónsson:

Jeg hefi borið hjer fram brtt. á þskj. 215 og 269, sem jeg 32 býst við, að standi upp á mig að tala fyrir. Annars þykir mjer leiðinlegt, að hv. mentmn. skyldi taka aftur dagskrá þá, er hún bar fram við 2. umr. þessa máls hjer í deildinni, því að jeg hefði talið viðkunnanlegra að fá útgert um hana, áður en farið var að ræða einstök atriði þessa frv.

Brtt. þessar skifta ekki verulegu máli um aðalatriði frv. Þær eru flestar til þess að breyta upptalingu á námsgreinum, og geta því ekki valdið ágreiningi, því að jafnvel hv. flm. (BJ) hefir talið sig þeim samþykkan. Brtt. á þskj. 269 eru einungis til þess að leiðrjetta fyrri brtt., gera þær fyllri og ákveðnari.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að þeim brtt., sem eru orðabreytingar. Það er nú farið að tíðkast allmjög hjer á Alþingi að vera með allskonar breytingar á orðum, þótt jafnvel þau hafi tíðkast í máli voru um langan aldur. Eins og hv. þm. sjá, ganga brtt. þessar út á það, að halda áfram ýmsum skólaorðum, sem tíðkast hafa í máli voru um langan aldur, orðum eins og t. d. „stúdent“, „próf“ o. fl. Annars held jeg, að við mættum ganga nokkuð langt í málhreinsun, ef við ættum að tína burt öll þau orð úr máli voru, sem ekki eru af strang-norrænum uppruna. T. d. segir Finnur Jónsson, að öll þau orð, sem byrji á „p“, sjeu ekki norræn. Mættum við því ganga nokkuð langt, ef við ættum að útrýma þeim öllum. En hvað snertir orðið „stúdent“, þá finst mjer, að við það sjeu bundnar svo margar endurminmngar, að ógerningur sje að taka það burt úr málinu. Enda er jeg viss um, að þó að það væri gert, í lögum. Þá færi enginn eftir því. Menn mundu aldrei fara að tala um „fullnemafjelag“ og „fullnemahúfu“. Það væri tilgangslaust að setja það í lög, það myndi enginn fara eftir því. Jeg held, að það yrði sama og þegar fara átti að leggja niður orðið „biskup“, af því að það þótti minna um of á kaþólska trú, að erfitt yrði að festa önnur orð í málinu.

Ef brtt. þessar verða feldar, verður eigi að siður að samræma ýms orð í frv., sem beinlínis eru í ósamræmi hvert við annað. Þannig stendur t. d. í 5. gr. orðið „fullnemareynd“, í 6. gr. „fullreynd“, og í 14. gr. „viðtökuraun“

Þá hefi jeg gert brtt., sem eru efnisbreytingar, þó að þær í sjálfu sjer snerti ekki aðalgrundvöll frv. Er þá fyrst, að í 3. gr. frv., eftir upptalningu námsgreinanna, legg jeg til, að gríska skuli vera ein af námsgreinum í máladeild. Mjer finst nefnilega, þegar búið er að skifta skólanum í stærðfræðisdeild og máladeild, þá verði að gera allmiklar kröfur til málakunnáttu þeirra, sem koma úr máladeildinni, og sje því ekki nema sjálfsagt að bæta við kenslu í þessu máli. Fyrir guðfræðisnema skiftir það miklu máli, að hafa numið undirstöðuatriðin í grísku, áður en þeir koma í háskólann, því að þó aldrei nema þeir fái dálitla kenslu í henni þar, þá er það miklu óþægilegra að fara að nema þá tungu, sem þeir jafnframt eiga að lesa fræðigrein á, ef þeir hafa ekki fengið einhverja undirstöðu í henni áður. Og eins og menn vita, er grískan hið fegursta mál, sem til er, og á henni hafa verið skrifaðar hinar bestu bókmentir. Og þrátt fyrir það, þó að hún hafi verið mál litillar þjóðar, þá hefir útþensluafl hennar verið svo mikið, að hún lagði í rauninni undir sig heiminn um langan aldur, og enn er í öllum málum sægur af orðum, sem mynduð eru úr grísku, eins og t. d. orðin „telefon“, „grammofon“ o. fl. Annars ætlaði jeg ekki að mæla með grískunni frá þessari hlið, heldur frá því, hversu mjög hún er „praktisk“ fyrir guðfræðinga.

Þá hefi jeg gert brtt. við 12. gr., sem er töluverð efnisbreyting, þar sem jeg legg til, að hver fastur kennari skólans skuli fá frí frá kenslustörfum 10. hvert ár, og ríkið sjái um kenslu fyrir hann á meðan, honum að kostnaðarlausu. Það má vel vera, að mörgum þyki þetta mikið, og ógni kostnaðurinn, sem af því muni verða. En jeg hygg, að kostnaðurinn verði aldrei stórkostlegur. Því að ekki væri það meira en einn kennari á ári, sem þyrfti að láta kenna fyrir, og gæti sá kostnaður tæplega farið fram úr 3000 kr. Yrði hann því hverfandi og gætti lítið í jafnstóru skólabákni sem lærði skólinn er. Auk þess sem kenslan yrði miklu betri, því að það er mjög lýjandi að kenna altaf ár eftir ár sömu námsgreinarnar, og því hætt við, að mennirnir verði að hálfgerðum steingjörvingum við starfið, ef þeir fá aldrei tækifæri til þess að víkja sjer frá því og hressa sig upp. Þó nú vitanlega þörf sje fyrir, að allir fái einhverja hvíld frá störfum sínum, þá er víst, að kennararnir þurfa ekki síst uppörvunar og hressingar við.

Jeg vil því mæla hið besta með þessari brtt. minni, því að mjer finst ekki horfandi í svona lítinn kostnað, til þess að kennararnir verði hæfari til þess að rækja starf sitt.

Þá á jeg enn brtt., sem gengur í þá átt að fresta því um 1 ár, að lög þessi komi í framkvæmd. Og býst jeg ekki við, að hún orki tvímælis, því að það mun vera hið harðasta, að hægt sje að koma þeim í framkvæmd fyr en hjer er gert ráð fyrir. Til þess svo að samræma síðari part greinarinnar, er viðbótartill. á þskj. 269. Af öllum þessum breytingartill. legg jeg mesta áherslu á brtt. við 12. gr„ því að jeg tel hana til svo mikilla hagsbóta fyrir skólann. En allar þessar brtt. eru mjer þó smáatriði hjá aðalgrundvelli málsins.

Út í meginatriði þessa máls skal jeg ekki fara langt nú, því að á þinginu 1921 var jeg frsm. eins hluta mentmn. í þessu máli, og gerði jeg þá grein fyrir afstöðu minni eins skýrt og jeg gat.

Lausnarorð nútímans er „kerfi“. Alt er sett í „kerfi“, og með þessu hefir margt stórmerkilegt áunnist. En hvorki þessi lykill nje neinn annar getur gengið að öllum skrám. Og mjer finst sannast að segja, að stundum haldi menn, að á öllum sviðum og alstaðar sje það lífsskilyrðið, að koma öllu í „kerfi“. Í skólamálum hygg jeg, að mikið vafamál sje, hve langt á að fara í þessu, að setja skólana saman í skólakerfi, gera samband milli þeirra, láta alla eiga samleið, en heltast aðeins úr lestinni misjafnlega snemma, eftir því, hve mikið nám þeir vilja og þurfa að fá, eða hvort ekki sje heppilegra, að þar sjeu samhliða brautir sjálfstæðar.

Þetta leiðir mig út í það, að líkja þessu við vegagerð. Það mætti leggja veg þannig, að ekki þyrfti nema eina braut, sem allir gætu fylgst að á, en færu aðeins misjafnlega langt. T. d. lægi vegurinn hjeðan suður með sjó, og svo aftur upp í Mosfellssveit og þaðan austur fyrir fjall. Sá, sem ætlaði austur, yrði þá fyrst að fara suður með sjó og svo upp í Mosfellssveit. Þetta er að vísu dálítil skrípamynd, en enganvegin alveg fjarstæð, af því skólafyrirkomulagi, sem við nú höfum, með samglundrun milli gagnfræðaskóla og lærðs skóla. Í báðum tilfellunum er best fyrir þann, sem langt ætlar að halda, að komast sem beinast, og ekkert vit að þvæla honum með hinum.

En svo er fleira, sem jeg hygg, að komi þarna inn í. T. d. það, að hjá okkur, eins og hvaða þjóð sem er, þá er sjálfsagt, að sem flestir leiti sjer gagnfræðamentunar. Það liggur því beint við, að haga gagnfræðaskólum svo, að þeir laði til sín svo marga sem frekast er unt. Þeir mega vel vera nokkurskonar vörpur eða veiðivjelar, því seint verður of mikið af gagnfræðamentuðum mönnum. En þegar slíkar veiðivjelar, sem gagnfræðaskólar eru og eiga að vera, eru tengdar neðan við lærðan skóla, eins og nú er hjer, þá fer ekki vel, því að afleiðingin af slíku fyrirkomulagi er sú, að það er hjer um bil einróma álit, að þeir sjeu of margir, sem lærða veginn ganga. Það er með rjettu talin plága í hverju þjóðfjelagi, að stúdentar verði of margir. Þar með er jeg ekki að segja, að svo þurfi eða sje mögulegt að stilla í hóf, að stúdentar sjeu nákvæmlega jafnmargir og svarar þeim embættum, sem þjóðfjelagið þarfnast. En hitt er víst, að of margir stúdentar eru plága fyrir þjóðfjelagið. Þeir eru búnir að eyða of miklum tíma í nám til þess að gerast búðarmenn eða bankaþjónar o. s. frv. Til slíks þykjast þeir of dýrir, og er þá stundum reynt að búa til eitthvert starf fyrir þá. Sem sagt, það er heppilegast fyrir þjóðina, að tala lærðra manna sje nokkurnvegin við hóf. En einmitt vegna þess hygg jeg, að sá skóli, sem safnar þeim mönnum, sem ganga eiga hinn lærða veg, megi ekki vera alt of aðgengilegur í byrjun, svo menn fljóti ekki inn í hann svo að segja ósjálfrátt, þannig, að þeir eru komnir inn á þessa leið áður en þeir vita af. Þannig er um gagnfræðaskólann á Akureyri, og þannig er það hjer. Úr efsta bekk barnaskólans fljóta nemendurnir inn í mentaskólann. Þeir dragast svo bekk úr bekk í gagnfræðadeildinni, því þar er námið mjög ljett, eins og vera á í gagnfræðaskóla. En þegar gagnfræðanáminu er lokið, þá er hert á í 3 efri bekkjunum, svo þeir eru mun þyngri en í gamla skólanum. Þetta hlutfall var alveg öfugt áður. Og jeg hygg einmitt best fyrir þá, sem ætla að verða stúdentar, að sá hluti vinnutímans, sem nú er ljettur, ætti að verða sem mest eldraun fyrir þá. En þegar þeir eru komnir upp í efri bekkina, þá eigi að ljetta á þeim. Þá hafa þeir fengið svo mikla undirstöðu í náminu, að þeir geta notað sjer sjálfstæði og sjálfræði og undirbúið sig undir háskólanámið, þar sem hver og einn verður að sjá svo mikið um sig sjálfur. Jeg tel það hafa verið höfuðkost gamla skólans, að hann var þungur framan af, en svo ljettist námið, svo margir tóku 5. og 6. bekk á einum vetri. Jeg var einn af þeim, sem lásu þessa bekki utan skóla, og get því ekki eins vel talað um þá af eigin reynslu. En jeg hefi heyrt menn segja, að þá hafi námið orðið þeim svo ljett, að þeir gátu þá fyrst farið að lesa fyrir utan námsgreinarnar, og notuðu margir sjer það geysimikið, sjer til hins mesta þroska. Hygg jeg, að í þessu megi sjá meginatriði þess, að mörgum finst, að stúdentar hafi verið þroskaðri áður, undir gamla fyrirkomulaginu, en nú er.

Þetta útilokast gersamlega með því fyrirkomulagi, sem nú er. Gagnfræðaskólinn verður að vera ljettur og aðgengilegur, en lærði skólinn verður að gera miklar þekkingarkröfur, og meðan þeir starfa saman, hlýtur því námið í vissu falli að standa á öfuga endanum, ljett fyrst og þungt síðan, og bókaþrældómurinn mestur þar á námsbrautinni, sem hann á að vera orðinn minstur.

Þetta tel jeg megingallann á fyrirkomulaginu nú, auk þess tvíverknaðar, sem það hlýtur að hafa í för með sjer. Jeg efast ekki um, að það rætist, sem haft var hjer áður við umr. eftir mentamálanefnd þeirri, sem rannsakaði þetta mál, að verði þetta ráð ekki tekið, að gera mentaskólann að 6 ára lærðum skóla, þá liði ekki á löngu, að sú breyting verði gerð á lærdómsdeild skólans, að bæta við hana einu ári. Og þeir menn, sem nú spyrna á móti þessu frv., græða þá ekki annað en það, að skólinn verður gerður ári lengri en nú. Þau atvik geta náttúrlega legið til, að menn geti sætt sig við þetta. En jeg álít samt, að við megum ekki við lengri skóla en 6 ára, og því verði betra að gera skólann óskiftan. Og jeg skil heldur ekki, að Norðlendingar — ef það er aðalatriði fyrir þeim að bjarga sambandi gagnfræðaskólans á Akureyri við mentaskólann — sjeu nokkru nær, ef skólinn verður gerður einu ári lengri. Það mundi áreiðanlega ekki borga sig.

Þetta get jeg sagt, að sje aðalatriði fyrir mjer. Hitt er auðvitað stórt atriði, hvaða námsgrein eigi að leggja til grundvallar við skólann sem höfuðnámsgrein. Til þess hefir latínan verið talin hentugust, en það er ekki eins stórt atriði og hitt, hvort gera eigi skólann óskiftan. Það er eingöngu umhugsunaratriði, hvaða námsgrein sje hentugust sem prófsteinn á nemendur, hverjir dugi og hverjir ekki. Og eigi að sýna mönnum í tvo heimana, þegar í byrjun námsins, alvarlega og þroskandi, þá þekki jeg ekki neina námsgrein hentugri en latínuna. Ekki segi jeg það af ást á latínunni eða af því, að hún sje nauðsynleg til þess, að opna fyrir mönnum heim hinna latnesku bókmenta. Jeg hefi að vísu gaman af því oft að lesa latneskar bækur, hvað sem aðrir gera, en jeg segi ekki um það, að jeg mundi ekki hafa haft nóg af góðum bókum að lesa án þess. Hitt er víst, að latínan er svo fast og lögbundið mál, að ekkert annað mál er jafnþroskandi fyrir nemendur og hún. Hún er líka mátulega óskyld okkar máli til þess, að ekki fari fyrir okkur eins og manninum, sem las stafsetningarorðabók Björns Jónssonar, og sagðist ekki sjá þar neitt, sem hann ekki kannaðist við. Auðvitað þekti hann líka öll orðin, en skrifaði þau jafnvitlaust eftir sem áður. Þá er það einn kostur latínunnar, hvað óháð nám hennar er kennaranum, og er það ekki lítils virði, því þeir gefast vitanlega misjafnt. Það hefir oft verið nefnt á fundum, sem haldnir hafa verið um þetta mál, t. d. í stúdentafjelaginu hjer, að gera ætti náttúruvísindi að höfuðnámsgrein við skólann. En jeg býst við því, að ef kenna ætti náttúrufræðin eingöngu af bókum, þá mundi ekki auðgert að kenna þau svo, að þau yrðu nemendum til mikils þroska. Það er sagt um latínuna, að hún sje dautt mál og því hreinn óþarfi að læra hana. Í fyrsta lagi er það hrein fjarstæða, að menn eigi ekki að læra annað en það, sem komið geti að „praktiskum“ notum. Það yrði þá harla lítið, sem menn þyrftu að læra, ef ekki ætti að kenna mönnum annað en verkaðferðir, t. d. sýslumönnum og prestum o. s. frv. Nei. Það er víst, að menn læra og þurfa að læra margt, sem ekki er hægt að benda á bein „praktisk“ not af. Og um það, hvort latínan sje dautt mál eða ekki, þá er það að vísu satt, að engin þjóð talar hana nú hreina. En jeg hygg, að hún lifi samt enn á svo margvíslegan hátt, að ekki verði sagt, að hún sje með öllu dautt mál eða okkur óviðkomandi. Ekki aðeins eins og hv. 2. þm. Rang. (KIJ) tók fram við 2. umr., að fjöldi heimildarrita um sögu vora og bókmentir eru á latínu, heldur er líka á það að líta, að latínan var til skamms tíma alþjóðamál allra lærðra manna um Norðurálfuna. Og þó engin þjóð tali nú latínu sem sitt móðurmál, þá er hitt víst, að sú tunga, sem haft hefir slíkt vald alt frá dögum Rómverja fram til vorra daga, hlýtur að skilja eftir sig mikil og djúp spor.

Hjer er kvartað yfir stúdentafjöldanum. Jeg vil benda á það, að hann var nokkuð hóflegur áður, og virðist rjett, áður en leitað sje nýrra þjóðráða, óprófaðra, í þessu efni, að hverfa heldur að því fyrirkomulagi, sem áður hefir gefist vel.

Mótstaðan gegn þessu frv. virðist aðallega sprottin af hagsmunapólitík þeirra, sem vilja halda áfram að njóta sambands Akureyrarskólans og mentaskólans. En slíkt er fráleitt, því ef skólinn verður svo miklu betri við breytingu þessa, sem ástæða er að vona, þá er óhugsandi, að nokkur óski fyrir sig eða börn sín að fara í lakari skóla, þó nokkuru ódýrari yrði. Enda verð jeg að telja það beina skyldu, ef skólinn verður þannig tekinn úr sambandi við Akureyrarskólann og færður í það form, að þar verði allir þeir, sem stúdentar vilja verða, að nema alt sitt nám, áð búa þá svo um skólann, að námið verði fjárhagslega bærilegt. Úrval að gáfum, en ekki úrval að efnum, á að ráða, hverjir ná stúdentsprófi og hverjir ekki.

Jeg mun svo ekki orðlengja meira að sinni. Brtt. mínar eru svo lítils verðar hjá frv. sjálfu, að hvernig sem um þær fer, mun jeg greiða því atkv. mitt og leggja þannig til alt, sem í mínu valdi stendur, að þessi breyting, sem hjer er um að ræða, nái fram að ganga.