26.02.1925
Neðri deild: 17. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í C-deild Alþingistíðinda. (2657)

32. mál, varalögregla

Jón Baldvinsson:

Þegar Íslendingar fengu viðurkent sjálfstæði sitt 1918, og Ísland varð fullvalda ríki, var um það send tilkynning til flestra eða allra annara ríkja í heimi, og í þeirri tilkynningu var það tekið fram, að landið væri æfinlega hlutlaust í ófriði. Þetta þótti rjett að gefa til kynna, til að sýna, að Ísland væri herlaust land og hjer byggi friðsöm þjóð, sem aldrei myndi taka þátt í herbúnaðarósómanum, og fram á allra síðustu tíma veit jeg ekki til þess, að nokkrum manni hafi dottið í hug, að Íslendingar færu að búa til her til þess að fara með hernað, hvorki gegn öðrum þjóðum nje til þess að berjast innbyrðis.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Ekki eru liðin sex fullveldisárin, þegar íslenski „militarisminn“ skýtur fyrst upp kollinum á Alþingi Íslendinga. Það var á fyrsta ári innlendu Íhaldsstjórnarinnar, því herrans ári 1924, að stjórnin ljet fara þess á leit við eina eða fleiri þingnefndir, að þær tækju til fósturs og uppfæðingar þennan frumburð Íhaldsstjórnarinnar íslensku, frumvarp til laga um stofnun varalögregluliðs, mjög líkt að orðalagi og efni eða nákvæmlega eins og frv. það, sem hjer liggur fyrir. Þetta var rjett fyrir þinglokin í fyrra, og undirtektirnar munu hafa þótt svo daufar, að ekki hefir þótt líklegt, að það kæmist í gegn á þeim stutta tíma, sem þingið átti eftir að sitja.

Stjórnin hirti því krógann aftur, og hefir hann nú í 9 mánuði, eða fullan meðgöngutíma, nærst við brjóst Íhaldsstjórnarinnar.

Það er því ekki í neinu fljótræði, að málið er borið fram. Efni þess og orðalag er orðið þaulhugsað, og fyrir þá sök er ástæða til þess, að taka það alvarlega og gera sjer grein fyrir því, hvernig þetta myndi reynast í framkvæmdinni, og þar er ekki á öðru að byggja en orðalagi frumvarpsins og þeim skýringum, er á því eru gefnar í athugasemdunum við frv. En áður en jeg vík að því, vildi jeg fara nokkrum orðum um þá nýju braut, um þá nýju stefnu, sem þetta frv. markar í íslenskri löggjöf, með hliðsjón af því, sem fram fer hjá öðrum þjóðum.

Her og herbúnaður þýðir það, að fara í stríð. Kapphlaup stórþjóðanna í vígbúnaði eftir síðustu aldamót leiddi til hinnar ægilegustu styrjaldar, sem sögur fara af. Þjóðirnar stundu undir kostnaðinum, en samt var haldið áfram að kasta meira og meira fje í þessa ógnar hít, og þær raddir, sem bentu á, að þetta myndi enda með skelfingu, voru kæfðar niður með illu eða góðu. En þegar mesta ófriðarvíman var af þjóðunum runnin, þá opnuðust augu fleiri og fleiri fyrir því, að svo búið mætti ekki lengur standa, og síðan hefir hver afvopnunarráðstefnan rekið aðra. Hitt er satt, að árangurinn af þessum ráðstefnum öllum er ekki eins mikill og vænta mætti, og veldur þar tortryggnin mestu um. Hernaðarsinnarnir blása að þeim kolunum, að ekki dugi að draga úr vígbúnaðinum, því að þessi eða hin þjóðin sitji á svikráðum o. s. frv. En þó að árangurinn sje lítill, þá er hann þó nokkur. Sumar smáþjóðirnar eru í þann veginn að varpa af sjer vígbúnaðar- og hermenskuokinu, og er þar skemst að taka dæmi af sambandsþjóð vorri, Dönum, sem nú hafa til meðferðar á löggjafarþingi sínu lagafrumvarp um að afnema herskyldu og ljetta af sjer að mestu þeim þunga útgjaldalið, sem árlega fer hjá þeim í herinn. Í Svíþjóð er hið sama uppi — algerð afvopnun — þótt það dragist sennilega lengur en í Danmörku, enda er þar af meiru að taka.

Ástæðurnar fyrir afvopnuninni eru fyrst og fremst að sýna, að þessar þjóðir vilji ekki stuðla að ófriði, og svo í öðru lagi að ljetta af almenningi þeim ógnarútgjöldum, sem vígbúnaðurinn gleypir. Þar að auki má heita, að menn sjeu sammála um það, að þótt þessar smáþjóðir reyttu sig inn að skyrtunni um fjárframlög til herbúnaðar, þá væri þeim engin vörn í herbúnaði sínum, ef eitthvert stórveldanna rjetti út klóna eftir þeim.

Þannig er þá stefnan í þeim löndum, sem við höfum langmest farið eftir í löggjöf vorri, fullkomin afvopnunarstefna, og við Íslendingar höfum verið svo lánsamir hingað til, að við höfum verið lausir við hernaðarósómann, bæði þá siðferðilegu spillingu, sem viða hefir af honum leitt, og það fjárhagsböl, sem vígbúnaðarbagginn hefir verið þjóðunum. Við erum svo lausir við það, að hvergi er með einum staf í allri okkar löggjöf ráð fyrir því gert, að hjer á landi verði lögleidd herskylda, en 71. gr. stjórnarskrárinnar leggur mönnum alment á herðar að verjast innrásarher.

Hjer er því tekin upp algerlega ný stefna í íslenskri löggjöf, stefna, sem aðrar þjóðir keppast við að kveða niður, og hjer er engin hæverska höfð, heldur er hjer farið fram á að lögleiða víðtækari herskyldu en sennilega þekkist í nokkru öðru ríki, nema þá á ófriðartímum. Það er þessi stefna, sem íhaldsstjórnin íslenska beitir sjer fyrir. Hún verður sjálfsagt „fræg“ fyrir, líklega heimsfræg, en jeg öfunda hana ekki af þeirri frægð.

Frumvarpið sjálft er takmarkalaust — fyrir utan það, sem það er takmarkalaust vitlaust. Orðalag þess opnar upp á gátt víðara valdsvið fyrir ríkisstjórnina yfir lifi og limum landsmanna en þekkist í nokkrum öðrum lögum.

Landsstjórninni er heimilað að koma á fót sveit varalögregluliðs, svo fjölmennri, sem henni sýnist. Hún getur kvatt menn svo langan tíma til heræfinga, sem henni sýnist; hún getur látið skipa flokksstjóra og herforingja eftir þörfum.

Hún getur ráðið eftir vild, hvaða „tæki“ eða hergögn eru notuð. Hún ræður því, hvort það eru hríðskotabyssur, sem nota á, handsprengjur, byssustingir, skammbyssur, fallbyssur, kylfur, rýtingar, sverð, korðar, axir eða blátt áfram axarsköft; með öðrum orðum: alt, sem nota þarf í bardaganum, og kostnaðurinn er líka ótakmarkaður og á vitanlega að greiðast af ríkissjóði.

Í athugasemdunum og skýringunum, sem þessu frv. fylgja, er ekki að neinu leyti dregið úr hinum víðtæku ákvæðum. Þvert á móti er alt frv. skýrt í allra víðustu merkingu, sem framast er unt.

Greinargerðin byrjar á því, að rekja ástæðurnar til þess, að þetta frv. er fram komið, og lýsa því sjálfsagða verkefni hvers þjóðfjelags, að halda uppi lögunum. Það sjeu „aðallega fastir, skipaðir lögreglumenn“, sem löggæslu hafa á hendi á hverjum stað. En svo kemur það í aths., að löggæsluliðið sje of fáment og ófullnægjandi „jafnvel til daglegra starfa“, og ekkert sjeð fyrir óvæntum atburðum, og að framkvæmdarvaldinu hafi frá upphafi sögu vorrar verið að þessu leyti mjög ábótavant og sje það enn.

Jeg ætla nú ekki að fara út í það, hvort framkvæmdarvaldinu hefir í upphafi sögu landsins verið ábótavant eða ekki, en líklega mun það þó sönnu næst, að vopnaburður og hermenska forfeðra vorra hafi verið stærsta orsök þess, að landið misti sjálfstæði sitt.

En ef löggæsluliðið er nú of fáment og ófullnægjandi til daglegra starfa, þá stafar það ekki af öðru en því, að kaupstaðirnir, sem eiga að hafa löggæsluna á hendi hver hjá sjer, leggja of lítið fje af mörkum til hennar, og sje tilfinnanleg vöntun í þessu efni — sem þó er alls ekki fullyrt í aths. frv. — þá er ekki nokkur minsti efi í því, að kaupstaðirnir myndu leggja fram meira fje til löggæslunnar og taka til hennar nægilega marga lögregluþjóna eða eftir því, sem þörfin heimtaði.

Þá eru það þessir svo nefndu „óvæntu“ atburðir, sem mikið er talað um í aths. frv., en hæstv. forsrh. (JM) gleymdist að skýra, þegar hann fylgdi frv. úr hlaði. Það er vitanlega hægt að hugsa sjer atburði, þar sem hið fasta lögreglulið væri eigi einhlítt. En jeg get ekki sjeð, að það sje nein afsökun fyrir stjórnina eða ástæða til þess að bera fram frv. um almenna herskyldu.

Það vill nú einmitt svo til, að löggjöfin hefir gert ráð fyrir þessum „óvæntu“ atburðum, því að auk varnarskyldunnar í 71. gr. stjórnarskrárinnar, sem jeg mintist á áðan, þá er í lögum nr. 1, 3. jan. 1890, um lögreglusamþyktir fyrir kaupstaðina, veitt heimild til að skipa lögreglulið, sem annaðhvort er sjerstaklega leigt til þess eftir ákvæðum bæjarstjórnarinnar eða á annan hátt, og kaupstaðirnir munu flestir, ef ekki allir, hafa notað sjer þessa heimild og sett ákvæði í lögreglusamþyktirnar, sem leggja borgurunum alment þá skyldu á herðar að aðstoða lögregluna, þegar hún þarf á mannhjálp að halda, eða m. ö. o. þegar óvæntir atburðir koma fyrir.

Og til þess að sýna, að hjer sje enginn vafi, skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp 9. gr. í lögreglusamþykt fyrir Seyðisfjarðarkaupstað, frá 14. nóv. 1895, en samþykt þessi er sett samkvæmt áðurnefndum lögum frá 3. jan. 1890. Þessi grein í lögreglusamþyktinni hljóðar á þessa leið:

„Lögregluvaldið getur krafið sjer til aðstoðar sjerhvern fulltíða karlmann, sem nærstaddur er, til að afstýra óspektum og annari óreglu á almannafæri, og hefta þá, er slíku valda, og eru allir skyldir til að hlýða því boði.“

Jeg geri ekki ráð fyrir, að neinn deili um, að Seyðisfjarðarkaupstaður hafi haft fulla lagaheimild til þess að setja þetta í lögreglusamþykt kaupstaðarins; eins og menn sjá, er hjer mjög víðtæk skylda lögð á borgarana til þess að aðstoða lögregluna.

Það er Magnús Stephensen landshöfðingi, sem staðfestir lögreglusamþykt þessa, og það hefði hann tæplega gert, ef það væri ekki lögum samkvæmt.

Í lögreglusamþykt Reykjavíkur, sem er að vísu miklu yngri, eða frá 19. apríl 1919, er samskonar ákvæði tekið upp og í Seyðisfjarðarsamþyktinni. 11. gr. í lögreglusamþykt fyrir Reykjavík hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Almenningi er skylt að hlýða öllum skipunum lögreglumanna. Ef nauðsyn ber til, geta lögreglumenn krafið sjer til aðstoðar hvern fulltíða karlmann, sem viðstaddur er, til að afstýra óreglu eða óspektum á almannafæri, en heimtingu eiga slíkir menn á fullum bótum fyrir tjón, er þeir kunna að bíða við það, á fatnaði eða limum, en bæjarsjóður á aðgang að hinum seka.“

Þarna er sama ákvæðið tekið upp og jeg las áðan. Báðar þessar greinar skylda borgarana til að veita lögreglunni aðstoð, hvenær sem kallað er.

Auk þess hafa hinir kaupstaðirnir tekið upp í sínar lögreglusamþyktir samskonar eða samhljóða ákvæði. Í lögreglusamþykt fyrir Akureyrarkaupsstað er ákvæði þetta tekið upp í 11. gr. Sömuleiðis er samskonar ákvæði að finna í 11. gr. lögreglusamþyktar fyrir Ísafjörð og 11. gr. lögreglusamþyktar fyrir Siglufjörð, en báðar þessar reglugerðir eru frá 15. júní 1920, og loks er samhljóða ákvæði að finna í 10. gr. lögreglusamþyktar fyrir Hafnarfjörð rá 14. des. 1908.

Þessvegna er svo fjarri því, að ekki sje sjeð fyrir þessum „óvæntu“ atburðum, sem hæstv. stjórn verður svo tíðrætt um í aths. frv. Í löggjöf allra kaupstaðanna hefir einmitt verið tekið fult tillit til þeirra, eins og jeg hefi nú þegar sýnt fram á með nægum rökum.

Í aths. frv. er að því vikið, „að nokkur þörf sje vara- eða viðbótarlöggæslu í öðrum stöðum en í kaupstöðunum“, en eðlilegast að „byrja“ þar. Af þessu má fyllilega ráða það, að það sje ætlun stjórnarinnar að lögleiða herskyldu mjög bráðlega einnig utan kaupstaðanna, og verður þá ekki langt að bíða, að herskyldan nái til allra landsmanna.

Hjer er heldur ekki sú afsökun fyrir hendi, að í löggjöfinni sjeu engin ákvæði, sem geri ráð fyrir aðstoð við löggæslu í sveitunum. Í reglugerð fyrir hreppstjóra frá 29. apríl 1880 — það er í 11. og 12. gr. — eru ákvæði, sem svara til þeirra, sem jeg hefi áður bent á í lögreglusamþyktum kaupstaðanna. Þetta er þar að auki staðfest í mjög langri og ítarlegri ritgerð eftir Einar háskólaprófessor Arnórsson, „Meðferð opinberra mála“, er kom út sem fylgirit Árbókar Háskóla Íslands árið 1919. Hann segir þar berum orðum, að það orki ekki tvímælis, að mönnum sje alment skylt að veita lögreglunni lið, hvenær sem þess sje krafist, og þessa skoðun styður háskólaprófessorinn með því að vitna í reglugerðina frá 1880, svo og lögreglusamþykt Reykjavíkur frá 1919, og nefnir einmitt þær sömu greinar, er jeg hefi vitnað í.

Það er því hreinasta fjarstæða, að til þess að halda uppi góðri reglu í landinu þurfi á herskyldufrv. stjórnarinnar að halda. Það eru fyrir hendi nægilega skýr lagaákvæði til þess að sjá fyrir þeim „óvæntu“ atburðum, sem frv. talar um.

Það hefir líka farið vel á þessu, og ekkert á því borið hingað til, að ekki væri unt að halda uppi lögum og reglu, að minsta kosti þar og á þeim sviðum, sem framkvæmdarvaldið hefir sýnt fullan vilja og einurð á því að halda uppi lögum og góðri reglu, enda er það mála sannast, að íslensk alþýða er svo löghlýðin og friðsöm, að ekki þarf að setja á stofn slíkt herbákn og hjer er um að ræða, til þess að halda henni í skefjum.

Eftir frv. að dæma nær herskyldan til allra karlmanna á aldrinum frá tvítugu til fimtugs. Þ. e. m. ö. o. þrjátíu ára herskylda fyrir alla karlmenn á þessum aldri. Hjá mestu hervaldsþjóðum heimsins mun herskyldan ekki vera nema 3 ár, og þykir fulllöng, svo að allir kvarta. En íhaldsstjórnin íslenska vill tífalda hana og setur með því heimsmet í herskyldu.

Mjer telst svo til, að eftir frv. nái herskyldan til um 7 þús. manna. Ef mannfjöldi kaupstaðanna er nálægt 34 þús., þá verður um það bil fimti hver maður í hernum. En nái herskyldan til allra landsmanna — eins og virðist að vera vilji stjórnarinnar samkvæmt aths. frv. — þá mundi herliðið íslenska verða um 20 þús. Til samanburðar mætti að eins nefna það, að í Danmörku varð fasti herinn aldrei yfir 60 þúsundir. Ef Danir hefðu viljað fylgja íhaldsstjórninni íslensku og taka hana til fyrirmyndar um hermál, þá gætu þeir haft 600 þús. manna her undir vopnum.

En að herinn verði nú ekki nema tæp 7 þús. eftir mannfjölda kaupstaðanna, þá er þó ekki útilokað, að við töluna bætist drjúgur hluti þeirra manna, er dvelja í kaupstöðunum lengri eða skemri tíma. Það er sem sje gert ráð fyrir því í frv. og í aths. stjórnarinnar skýrt á þá leið, að það geti verið „hagkvæmt“ að „grípa til manna, er dvelja í kaupstaðnum“.

Eins og kunnugt er, kemur t. d. hingað til Reykjavíkur á vetrarvertíðinni mesti fjöldi sveitamanna úr hjeruðum austan fjalls, ofan úr Borgarfirði, og víðar að af landinu, og flestir þessara manna eru í atvinnuleit og dvelja hjer stundum alt að því 3 mánuði; þessvegna þykir það „hagkvæmt“ að heimila að taka þá í herinn. Og þó að þeir þyrftu að vera í heræfingum svo sem einn eða tvo mánuði af tímanum, ætti það svo sem ekki að gera þeim mikið til. Hæstv. dómsmálaráðherra (JM), eða öllu heldur hermálaráðherra, tók það einmitt fram í ræðu sinni, að æfingamar, sem frv. talar um, gætu orðið miklar. Þetta gæti vitanlega orðið góður undirbúningur fyrir sveitapiltana, þegar herskyldan verður lögleidd um land alt. Þá hafa sveitirnar þegar vel æfðum mönnum á að skipa, er gætu orðið til mikillar hjálpar og sjálfsagðir foringjar í herliði sveitanna.

Jafnvel gesti, sem eru aðeins á snöggri ferð í kaupstöðunum, getur herforingjaráðið tekið í herinn, ef því býður svo við að horfa, og það getur líka orðið drjúg viðbót við þá tölu, sem fyrir er. Og þó að gestunum yrði haldið við heræfingar í kaupstöðunum eitthvað lengur en þeir ætluðu sjer eða þyrftu annara hluta vegna að dvelja þar, þá dugar þeim lítið að mögla. Og ef þeir skyldu strjúka, þá verður þeim vitanlega stefnt fyrir herrjett, og geta menn þá farið nærri um, hvaða refsing muni bíða slíkra manna.

Hæstv. dómsmálaráðherra (JM), sem hjer eftir má eins vel nefnast hermálaráðherra í þessu sambandi, skipar forstöðumann í hverjum kaupstað. það eru yfirhershöfðingjarnir eða „generalarnir“, og verða þeir 7 að tölu. Þeir ráða svo aftur flokksstjóra eða undirforingja, sem þó líklega verða mismunandi hátt settir, en ósennilegt að geta sjer til, að þeir geti orðið færri en hálft fjórða hundrað. Hefði hver þeirra þá 20 manna flokk til umsjónar og æfinga, og mun það verða nægilegt verkefni hverjum flokksstjóra. Loks mundi þurfa 1 sveitarforingja fyrir hverja 10 flokka, og yrðu þeir þá 35. Sveitarforingjarnir mundu að metorðum ganga næst yfirhershöfðingjunum og ættu sennilega sæti í herforingjaráðinu.

Þá er í aths. frv. gert ráð fyrir umsjón með útbúnaði, og er þar vitanlega átt við hergögnin, vopnin o. fl. Slíkt bákn sem þetta mundi ekki komast hjá því að hafa sjerstaka skrifstofu, þar sem skráning hersins færi fram. Hæstv. forsrh. (JM) vjek nokkuð að þessu í ræðu sinni. Er því varla hugsanlegt að gera ráð fyrir færra en tveim skrifurum á skrifstofuna, bæði til að skrásetja þá, sem herskyldir eru, og sjá um reikningshaldið, því að ekki má ætlast til, að sjálfir „lautinantarnir“ hafi tíma frá sínum störfum til þess að annast um skriftirnar. Einnig mundi það vera óhjákvæmilegt, að reisa allmyndarlegan hermannaskála og ryðja svæði, þar sem æfingar herliðsins gætu farið fram.

Í 3. gr. frv. er heimilað að greiða herforingjum þóknun, og í aths. við þessa grein er það sagt, að forstöðumanni verði að launa. Hjer er því um fast embætti að ræða, enda styðst það einnig við það, er hæstv. forsrh. (JM) sagði áðan. En flokksstjórum eða undirforingjum á að greiða þóknun, sem ráðherra ákveður, þ. e. hermálaráðherrann.

það er því auðsætt, að hjer er ekki um neitt smáræðis bákn að ræða, er setja á á stofn, og, eins og hv. þm. Str. (TrÞ) benti rjettilega á í sinni ræðu, þá á allur kostnaður við þetta að greiðast af ríkinu. Hann benti einnig á, að kostnaður þessi gæti orðið allmyndarleg upphæð, er ríkissjóð munaði dálítið um að snara út á ári. Jeg hefi reiknað hann á dálítið annan veg og komist nokkuð hátt líka, enda er auðsætt, eftir frv. að dæma og skýringunum við það, að allur herkostnaðurinn getur orðið ærið mikill, og þó hefi jeg alls ekki gengið hóti framar en orðalag frv. gefur tilefni til.

Eitt helsta stórvirki hæstv. stjórnar í fjármálunum hefir verið það, að hún hefir bætt nýrri grein inn í fjárlögin, þar sem hún segir, að talið sje saman það fje, sem gangi til almennrar styrktarstarfsemi í landinu. Öll útgjöld þessarar greinar — það er 17. gr. — nema 458.500 krónum samtals.

En verði nú þetta frv. samþykt, sem hjer er nú til 1. umr., þá sje jeg ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherra (JÞ) og hæstv. hermálaráðherra verði að setjast niður við að semja nýja grein, sem bætt verði svo inn í fjárlögin. Og í þessari nýju grein yrðu þá talin öll þau gjöld, sem fara eiga til hermálanna.

Jeg er ekki í fjárveitinganefnd deildarinnar, en jeg hefi þó reynt að gera mjer nokkra grein fyrir því, hvað þetta herskyldufrv. myndi auka útgjöldin, ef það yrði að lögum. Og mjer finst þá, að þessi nýja grein fjárlaganna hljóti að verða eitthvað á þessa leið:

Til hermála er veitt:

1. Laun 7 hershöfðingja 70.000

Jeg geri sem sje ráð fyrir, að úr því að þessir menn eiga að halda uppi lögum og reglu í landinu, þá komi ekki til mála að bjóða þeim lægri laun en hæstarjettardómendunum. Sveitarforingjum verður varla bjóðandi minna en 4 þús. kr.

hverjum, og verður þá

2. Þóknun til 35 sveitarforingja 140.000

3. Þóknun handa 350 flokksstjórum 350.000

4. Skrifstofukostnað verður ekki unt að áætla minni en að miða hann við, að þar sjeu tveir menn, og svo fyrir húsnæði, og verður það þá 15.000

5. Húsgögn, allar byssurnar og það, sem þeim fylgir, .... 100.000

Jeg skal játa, að jeg hafði algerlega gleymt einkennisbúningi hermannanna, en hv. þm. Str. (TrÞ) hefir komist að þeirri niðurstöðu, að hann myndi kosta allálitlega upphæð, og get jeg fallist á það. Ætla jeg því að fylgja dæmi hans og áætla hann á þessa leið:

6. Búningar handa foringjum og merki handa liðinu .... 1.000.000

Það er ekki heldur ætlast til, að herforingjar gangi mörg ár í sömu fötunum. Liðsforingjar eru kunnir að því að vilja vera vel til fara, ganga stroknir og fágaðir; myndi því óhætt að ætla þeim búning á ári. Hæstv. forsrh. (JM) virtist og leggja talsvert upp úr þessu í ræðu sinni áðan, að foringjarnir þyrftu að fá búninga. — Þá hefi jeg gert ráð fyrir, að senda yrði utan nokkra menn, er stunduðu hernaðarnám við herskóla þar, svo að þeir gætu búið sig undir starf sitt. Þetta er líka í samræmi við það, sem hæstv. forsrh. (JM) benti á. Þennan utanfararstyrk get jeg ekki áætlað lægri en stúdentum er nú veitt til náms við erlenda háskóla:

7. Handa foringjum, til þess að sækja erlenda herskóla ... 20.000

8. Ýmisleg útgjöld alt að .... 15.000

Þetta verða þá samtals kr. 1.710.000

eða á átjánda hundrað þúsunda króna, og þó er þetta áætlunarupphæð, og ekki tekið tillit til hermannaskálans, sem óhjákvæmilegt yrði þó að byggja, og yrði eflaust ekkert smásmíði, ef hann ætti að rúma alla hermennina til æfinga, þegar Veður væru svo ill, að ekki væri hægt að halda uppi útiæfingum. Og ekki heldur er hjer gert ráð fyrir æfingasvæðinu, sem hlýtur þó að kosta mikið, því að bæði hlýtur það að verða víðáttumikið, og tæplega að gera ráð fyrir því, að það kosti ekki talsvert að ryðja það.

Þessi útgjöld eru þá það há, að tekjur af tóbakseinkasölunni og tóbakstollurinn hrekkur ekki nándarnærri til þess að greiða hann. Það verður að grípa til vörutollsins líka.

„Útbúinn í oddaklið

ekki mátti standa við“,

segir í gamalli vísu, og á það við hæstv. ráðh. (JM) í þessu máli, því að lögin eiga að öðlast gildi „þegar í stað“.

Nei; það má svo sem engin töf verða á því, að frv. þetta verði að lögum. Það er sagt svo í aths. um frv., að vegna þess, hversu framkvæmd laganna muni þurfa langan undirbúning, þá sje um að gera, að frv. verði samþykt þegar í stað. Við verðum að flýta okkur að grípa hnoss þetta sem allra fyrst. Raunar er dálítill galli á gjöf Njarðar, sem mönnum má vera óblandið sorgarefni(!). Hæstv. forsrh. (JM) gat þess, að ekki væri víst, hvort lögin gætu komið jafnsnemma til framkvæmda í öllum kaupstöðum landsins. Auðvitað er þetta þó á valdi stjórnarinnar, eins og annað, sem frv. þessu við kemur, og er þá þess að vænta, að einstakir kaupstaðir verði ekki lengi afskiftir því dýrmæti(!), sem alt þetta hernaðarbrask hefir í för með sjer.

En sleppum öllu gamni.

Manni verður næst að spyrja: Til hvers á að stofna her þennan? Fyrir því hefir hæstv. forsrh. (JM) enga grein gert. Það eitt er vitanlegt, að fyrst stofna á her, þá á að fara í stríð. Það eru einu afleiðingar frv., sem menn vita nokkurnvegin fyrirfram. Það var yfirleitt lítið á upplýsingum hæstv. forsrh. að græða, en hvar sem frv. þetta er rætt manna á milli, og þegar þeir fáu menn, sem hafa getað fengið sig til að bera í bætifláka fyrir það eða a. m. k. talið sig fylgjandi því að lögleiða slíka herskyldu í einhverri mynd, hafa verið spurðir í þaula um, til hvers nota ætti herinn, þá hefir síðasta vígi þeirra jafnan verið að vitna í kaupgjaldsdeilur, sem orðið hafa hjer í Reykjavík á síðustu árum. Við slík tækifæri á að nota her þennan. Annað verkefni hafa formælendur málsins ekki fundið handa honum. Það er því sennilega rjett tilgáta hv. þm. Str. (TrÞ), að til þessa máls sje stofnað í þessu skyni. En eins og frv. liggur fyrir, er til þess ætlast, að allar framkvæmdir samkvæmt því fari eftir geðþótta hæstv. stjórnar, og þar sem hún hefir haft má) þetta til athugunar nú um alllangan tíma, og þar sem ætla má, að hún vilji fá þetta fyrirkomulag, úr því að hún her frv. fram, þá finst mjer næsta lítið á upplýsingum hæstv. forsrh. (JM) að græða.

Þó er víst hægt að taka það trúanlegt, sem reyndar kom enganvegin ákveðið í ljós, að hann sjálfur ætlist ekki til, að fleiri menn verði teknir í ríkisher þenna hjer í Reykjavík en nálægt 100. En sannast að segja er slíkt fyrirkomulag öllu verra en hin almenna herskylda, sem í frv. felst, eins og það nú er orðað, því að það er gefið, að samkv. hinum víðtæku og takmarkalausu heimildum, sem landsstjórn eru gefnar í frv., þá er henni innan handar að tryggja pólitískum fylgifiskum sínum hvert einasta rúm í 100 manna sveit. Henni verður í lófa lagið að haga þessu alveg eins og henni þóknast. Og hverju geta menn ekki trúað um hæstv. landsstjórn ? Halda menn, að hún velji pólitíska andstæðinga sína í sveit þessa? Nei; það þarf enginn að halda. Þessvegna eru þær skýringar hæstv. forsrh. (JM),sem hann vildi láta draga úr hernaðarhættunni, sem af frv. stafar, jafnvel enn verri en þó að þetta ógeðslega frv. yrði samþykt eins og það nú er. Það yrði þokkalegt ástand í landinu, ef stjórnin fengi leyfi til að koma sjer upp sveit vopnaðra fylgismanna sinna, sem hún gæti síðan notað til þess að halda völdum svo lengi sem henni sýndist. Það er í rauninni ekkert annað en „fascismi“ eftir ítalskri fyrirmynd, sem stjórnin vill koma hjer á, eftir þessum skýringum hæstv. forsrh. (JM), þó að skýringin hafi sennilega verið gefin í því skyni að gera frv. aðgengilegra. Nei; þá er þó skárra að skömminni til, að öllum verði gert að skyldu að taka þátt í heræfingunum en að valin sveit flokksmanna landsstjórnarinnar verði látin ein um „löggæsluna“.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að friði og reglu yrði betur borgið í landinu, ef her yrði stofnaður, svo sem í frv. segir. Jeg er alveg viss um, að hið gagnstæða verður uppi á teningnum. Jeg held líka, að hæstv. forsrh. hafi grun um, að svo muni verða, og hefi jeg stundum verið að velta því fyrir mjer, hvernig á því stæði, að hann skuli hafa tekið í mál að bera frv. þetta fram. Þykist jeg vita, að þar muni áhrifamiklir menn standa á bak við, sem vilja fá eitthvað fyrir sig gert. Vil jeg því vona, að frv. sje í þeim tilgangi einum fram borið, að það verði drepið tafarlaust; hæstv. forsrh. (JM) hafi hugsað sjer að gera það svo úr garði, að ómögulegt væri fyrir þingið að fallast á það, og er það honum mikil afsökun.

Hæstv. forsrh. (JM) talaði nokkuð um hina brýnu þörf aukinnar lögreglu í Reykjavík og á Siglufirði, og tók það jafnframt fram, að í rauninni þyrfti hennar ekki við annarsstaðar sem stendur. Mjer er spurn: Hversvegna á þá að lögleiða þessa almennu herskyldu um alt land, úr því að það er þarflaust? Mjer þætti dálítið fróðlegt að heyra, hvernig hæstv. forsrh. (JM.) hugsaði sjer framkvæmd aukinnar lögregluverndar, t. d. á Siglufirði. Það er rjett, að þar gengur á ýmsu um síldveiðatímann, og getur oft komið fyrir, að lögreglan fái ekki við neitt ráðið, jafnfámenn og hún er þar nú. En jeg er viss um, að hæstv. landsstjórn hefir að öllu leyti á valdi sínu að afstýra því, að óspektir keyri úr hófi fram á Siglufirði, jafnvel þó að margir útlendir sjómenn sjeu þar í landgöngum í einu. Það er ekkert annað en að láta loka áfengisútsölunni, eins og hefði átt að gerast hjer í Reykjavík dagana, sem amerísku herskipin lágu hjer á höfninni í sumar er leið. Það er besta lögregluvernd, sem Siglufjörður getur fengið, að stjórnin fortaki með öllu, að þar sje selt áfengi, eins og íbúar kaupstaðarins hafa farið fram á. Þessa leið hefði hæstv. stjórn átt að reyna áður en hún lagði þessa frumvarpsómynd fyrir þingið og telur sig vilja bæta með því löggæslu í landinu.

Nei, það er sýnilegt, að fyrir hæstv. stjórn vakir ekki eingöngu að bæta löggæsluna eða koma á friði í landinu. Það er stríð, sem hún vill hafa, því að annars vildi hún ekki stofna her.