04.03.1925
Neðri deild: 25. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í C-deild Alþingistíðinda. (2676)

32. mál, varalögregla

Ásgeir Ásgeirsson:

Háttv. þm. V.-Sk. (JK) tók sjer fyrir hendur að verja mann, sem ekki hefir verið ráðist á, og engin þörf var að verja. Því að það getur ekki talist skerðing á nokkurs manns æru, þó að sagt sje, að hann sje ekki vel til foringja fallinn. En það er öllum bæjarmönnum kunnugt, að núverandi lögreglustjóri hjer er það ekki. Og það er ennfremur öllum vitanlegt, að bæjarstjórnin hjer gerir engar endurbætur á lögreglunni, fyr en skift er um stjórn hennar. Það var því alger óþarfi fyrir háttv. þm. V.-Sk. (JK), að vera að reiðast slíku, og það því fremur, er jeg gat þess, sem er af öllum viðurkent, að þessi maður er til margra annara starfa stórvel fallinn, og einmitt þeirra starfa, þar sem hans er sjerstaklega þörf. Jeg þykist vita, að hann í hjarta sínu finni það sjálfur, að hann er ekki til lögregluforingja fallinn.

Þá fór þessi háttv. þm. að tala um hermannsæru mína. Um hana hefir hann líklega lesið í Morgunblaðinu þá sögu, er hann sagði. En jeg vil vara hann við að leggja of mikinn trúnað á það, sem í því blaði stendur. Annars hefi jeg fyrir nokkru rekið aftur þennan uppspuna, í Tímanum, og nenni ekki að eltast við hann oftar, enda er mjer ekki svo mjög sárt um hermannsæru mína, því að jeg hefi aldrei fengið svo mikið sem tækifæri til að flýja, eins og hv. þm. V.-Sk. (JK).

Hæstv. fjrh. virtist hafa fyrtst mjög við mig, er jeg óskaði að fá að vita um vilja þingmanna Reykjavíkur í þessu máli. Jeg hefði í upphafi átt að láta þess getið, sem ráðherrann í rauninni gat sagt sjer sjálfur, að þar átti jeg ekki við hann, því að jeg taldi auðvitað, að hann væri frv. þessu fylgjandi, þar sem það er stjórnarfrumvarp. Mjer skildist á hæstv. ráðherra, að hann óskaði hervarna í landinu, til þess að vernda sjálfstæði þess, og koma í stað danska hersins, sem vjer eigum litla stoð í, síðan sambandslögin gengu í gildi. Sömu trúar var háttv. þm. Dala. (BJ). En svo langt gekk hæstv. forsrh. (JM) ekki. Hann vildi engin vopn hafa, að því er hann sagði. Er því skoðun þeirra og hans ekki sambærileg. Annars má okkur vera það fyllilega ljóst, að við eigum mikið undir nágrannaþjóðum okkar í þessu efni, og þó einkum Englendingum. Er því óþarft að láta svo mikið af fullveldinu, að það sje jafnörugt og ágætt, hvað sem í skerst, og jafnvel þó sólin hverfi af himninum. Jeg lýsti ekki eftir skoðun hæstv. fjármálaráðherra (JÞ) í þessu máli, heldur þeirra þingmanna Reykjavíkur, sem eru ekki flutningsmenn frumvarpsins. Nú hafa tveir þeirra talað, og báðir á móti frumvarpinu. Er því aðeins einn eftir (MJ). Þó jeg hafi ekki, eins og hæstv. ráðherra tók fram í gær, kröfurjett til þess að fá að vita um þetta, hefi jeg þó rjett til að mynda mjer skoðun um, hvorumegin þeir eru, sem ekki svara. Þó jeg geti gert þá ályktun um nemendur mína, að þeir viti ekki, þegar þeir svara ekki, þá dreg jeg alt aðra ályktun af þögn þingmanna, sem láta fyrirspurnum ósvarað. Og svo framarlega sem háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) lætur ekki í ljós skoðanir sínar um þetta mál, geri jeg ráð fyrir, að hann sje því andstæður.

Jeg sje nú ekki, að ástæða sje til að hafa miklu lengri umræður um þetta mál nú, þar sem fyrst og fremst lítur út fyrir, að andstaðan gegn því sje nú orðin svo mögnuð, að því sje engin lífs von, og í öðru lagi hefir hæstv. forsrh. (JM) lýst yfir því, að honum sje ekki sárt um frv. sjálft, heldur aðeins um anda þess, og hafði jeg raunar vakið athygli á því í fyrri ræðu minni. Þar sem nú hæstv. ráðherra er fallinn frá frv. sínu, getur hann ekki ætlast til, að við, andstæðingar þess, greiðum atkv. með honum og flokki hans, því ef ekki þyrfti annað en falla frá frv. sínum, til þess að afla þeim fylgis í þinginu, þá mætti flestu fram koma.

Það eru tvær grundvallarstefnur, sem hjer er deilt um. Önnur er sú, sem í frv. felst. Hún leiðir til hervarna, og er því hættuleg braut fyrir okkur að ganga inn á. Hin stefnan er, að reyna af fremsta megni að bæta þá lögregluna, sem við eigum við að búa, án þess þó að fjölga lögreglumönnunum umfram það, sem efnahagur leyfir. En bæta má hana á margan hátt. Með því t. d., að skifta embætti lögreglustjóra, skilja tollheimtuna frá lögreglueftirlitinu. Einnig mætti bæta hana með því að setja lögregluþjónum aldurstakmark. Þegar „andi“ frumvarpsins tekur á sig þessa mynd, mun sú raun á verða, að þá fær það marga fylgjendur.

Jeg sje ekki, að ástæða sje til að eyða fleirum orðum að frv., þar sem enginn hefir enn talað með því af heilum hug.