04.03.1925
Neðri deild: 25. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í C-deild Alþingistíðinda. (2680)

32. mál, varalögregla

Forsætisráðherra (JM):

Jeg þarf ekki að tala mikið við hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Hv. þm. gaf upplýsingar um það fyrir hönd bæjarstjórnarinnar hjer, að hún vildi ekki aukna lögreglu fyr en lögreglustjóraskifti yrðu. Jeg veit ekki, hvað hann hefir fyrir sjer í því. Jeg tel það vítavert, að vera að tala enn um hervald, eftir því sem umræður hafa verið í þessu máli, enda gefur frv. ekkert tilefni til þess.

Jeg hefi aldrei talið það neitt höfuðatriði í þessu máli, að frv. þetta nái fram að ganga óbreytt. Þar sem það er nú ekki annað en heimild, er fylla þarf með tilskipun, mætti vel setja þau ákvæði, er ætluð eru tilskipun, inn í frv. sjálft. Og það er ekki rjett, að jeg sje horfinn frá frv., eða þeim grundvelli þess, að byggja á hinni almennu skyldu muna að aðstoða lögregluna. Þessu hefi jeg lýst áður, og hver, sem les frv., hlýtur að sjá, að þetta, og ekkert annað, er það, sem frv. byggist á.

Jeg ætla ekki að fara frekar út í þetta atriði, en hitt verð jeg að segja, að slíkum rangfærslum eins og fram komu í ræðu hv. þm. V.-Ísf. átti jeg ekki von á úr þeirri átt. Jeg hefði vel trúað ýmsum öðrum til þess að fara með slíkt fleipur, en tæplega honum.

Þegar hinn umtalaði atburður varð hjer 1921, voru hjer vissulega miklar æsingar, sumpart endurómur af róstum erlendis, og það var trú manna, að flokkur sá, er upphafsmanni fylgdi, mundi ætla að nota vopn til þess að verja rússneska drenginn. Jeg trúði því að vísu ekki, en því var býsna alment trúað hjer í bænum. Þessvegna hafði lögregluliðið nokkrar byssur. En vitanlega átti aldrei að bera vopn gegn þessum mönnum, nema því aðeins, að þeir væru vopnaðir og neyttu vopna. Þetta atriði á ekkert skylt við þetta mál. Frv. ber það með sjer, að hjer er aðeins um að ræða aðstoðarlið, er lögreglustjórar geti gripið til, þá er í harðbakka slær. Vopnun er þessu alveg óviðkomandi.

Hv. þm. V.-Ísf. sagði, að jeg viðurkendi það, að skoðanir okkar færu nokkuð saman í þessu máli. Þetta er rjett og ekki rjett, rjett að nokkru leyti. Hv. þm. sagði, að eigi þyrfti nema litla viðbót við það lögreglulið, sem nú er, og mætti treysta á innræti manna. Hann viðurkennir þá, að nokkra viðbót þurfi. Og hann sagði líka, sami hv. þm., að mest riði á því, að skifta um lögreglustjóra hjer í Reykjavík. Hver er kominn til að segja það, að nýr lögreglustjóri verði betri heldur en sá, er nú er? Jeg tel það mjög óvíst. Núverandi lögreglustjóri er að mínu viti mjög samviskusamur embættismaður, og jeg tel hann góðan embættismann. Jeg er ekki farinn að sjá, að öðrum tækist betur en honum stjórn þessa embættis.

Jeg er viss um, að það er ekki rjett haft eftir mjer, að jeg hafi verið að tala um anda frv. Hitt sagði jeg og segi enn, að höfuðtilgangur frv. er sá, að efla lögreglu í landinu. Hv. þm. kvaðst ekki vilja vera harður við mig. Það læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja, og jeg sje ekki, að slíkt hafi nokkuð að segja fyrir mig, hvorki til nje frá. Hitt verð jeg þó að segja, að framkoma hans sem þm. er sæmileg, og er það meira en sagt verður um suma af þeim þm., er um þetta mál hafa talað.

Hv. þm. Str. hóf ræðu sína í prjedikunartón, enda samdi honum það vel, þar sem hann hefir verið prestur áður. Að vísu finst sumum, að lítið hafi gætt prestsins nú á seinni árum, en gott er það, ef vænta mætti afturhvarfs.

Rangt er það hjá hv. þm. (TrÞ) að segja, að jeg hafi hröklast í máli þessu. Þegar í upphafi skýrði jeg frá því, hvað stjórnin öll — eigi aðeins jeg — meinti með frv., og þetta veit hv. þm. ósköp vel. Hitt veit jeg, að hjer var á ferðinni í fyrra líkt frv., en það kom ekki fram opinberlega.

Það er vesalmannlegt af hv. þm. að hæla sjer af því, að mótstöðumenn hafi farið hrakfarir. (TrÞ: Ekki fyrir mjer!) Jeg býst við, að hv. þm. hafi meint það. En jeg vona, að aðrir kunni að meta það.

Hv. þm. (TrÞ) sagði, að jeg hefði gripið til þess, að hafa í hótunum við embættismenn út af þessu máli. Jeg ætla ekki að tala um það nú, en kem að því síðar. En sami hv. þm. var tvívegis að tala um samviskusök. — Sumum hefir sýnst, að samviskan svæfi vel í þeim herbúðum, og jeg þori varla að vona til þess, að hún vakni í svip.

Sami hv. þm. kom að því, hver tilgangur minn hefði verið með frv. þessu. Jeg þarf ekki að svara slíku; það hefir hæstv. fjrh. gert fyrir stjórnarinnar hönd. En mjer er spurn: Hvernig ættum vjer eftir frv. þessu að blanda ríkinu inn í kaupdeilur? Það er hvergi gert ráð fyrir því. En það er dálítið misjafnt, hvernig hægt er að blanda sjer í slíkar deilur, eða óeirðir, er út af þeim rísa. Það mundi þó hver stjórn, og af hverjum flokki sem hún er skipuð, telja skyldu sína, er svo stendur á, að reyna af fremsta megni að hindra skemdir á eignum og fjármunum manna og sömuleiðis að vernda þá menn, sem vilja vinna. Og þetta mun vera hið eina, sem lögregla á að gera í þessum efnum.

Þar, sem betra skipulag er en hjer á fjelagsskap verkkaupanda og verkseljanda, er auðveldara að hafa fullkominn hemil á slíkum málum. Víða eru nærri því föst lög, beggja vegna, bæði hjá verkamönnum og vinnuveitendum, hvernig fara skuli með kaupdeilumál. T. d. þykir víða sjálfsagt, að gefa gagnaðilja einhvern frest, hvort sem verkfall eða verkbann stendur fyrir dyrum. Og eins og hv. þm. V.-Ísf. drap á, er ekki gott að setja neinar ákveðnar reglur um það, hvernig lögreglan skuli haga sjer, þegar slík mál ber að höndum. Það er komið undir mörgum atvikum. En aðalatriðið er það, að lögreglan á vitanlega ekki að skerast í kaupgjaldsdeilur upp úr þurru, en hinsvegar getur komið fyrir, að hún þurfi að vernda annanhvorn málsaðila, þegar slík tilfelli ber að.

Jeg geri varla ráð fyrir, að hv. þm. Str. (TrÞ) sje því kunnugur, hvernig farið er með slík mál erlendis, en jeg þykist vita, að einum hv. þm. a. m. k. sjeu þessi mál mjög kunn, hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Það nær vitanlega ekki nokkurri átt, að með stofnun varalögreglu sje stefnt á móti samtökum verkamanna sjerstaklega.

Jeg veit, að hv. þm. Str. á bágt með að sleppa því, að tala um þann ranga skilning, sem hann leggur í frv. þetta, og þessvegna talar hann mikið um stjettaher, sem eigi að berja á verkamönnum o. s. frv. En setjum nú svo, að alt það lið, sem frekast má kalla saman samkv. frv., verði kvatt til æfinga, eins og hv. þm. Str. (TrÞ) vill endilega gera ráð fyrir, þá skilst mjer, að í því liði verði menn af öllum stjettum, og sennilega ekki hvað fæstir verkamenn. En um þetta er óþarfi að ræða, því að stjórnin ætlast alls ekki til slíks.

Hv. þm. (TrÞ) segist vilja efla lögregluna hjer á landi, en ekki á þann hátt, sem í frv. segir. Þó vill hann ekki hleypa frv. lengra til frekari íhugunar og lagfæringar, ef mönnum býður svo við að horfa. Látum svo vera. En þá verður þessi yfirlýsing hans að skoðast sem loforð um, að hann ætli seinna að benda á góð ráð til þess að ná því marki, sem frv. stefnir að. Og þá mun jeg ekki fara að eins og hv. þm. (TrÞ) nú, að fella það frv., en bera síðan fram annað í sömu átt.

Hv. þm. talaði um ýmsar leiðir til að skera úr kaupgjaldsdeilum, sem gefist hefðu vel erlendis. Satt að segja held jeg, að mörg þau ráð hafi gefist svona upp og ofan, stundum vel, en oft ekki komið að liði. Það er rjett, að í Danmörku hefir sáttasemjari stundum gert nokkurt gagn. Frv. um gerðardóm í kaupgjaldsþrætum hefir verið borið fram hjer á Alþingi áður, en ef til vill fær frv. það, sem nú er fram komið, betri viðtökur en fyrra frv.

En þó að eitthvað slíkt yrði sett á stofn, sáttasemjari, gerðadómur eða því um líkt, þá er það ekki einhlítt og þörfin á varalögreglu hin sama. Því hvaða leið sem farin verður, þá er ekki þar með hægt að fyrirbyggja, að kaupdeilur komi fyrir, með öllum þeim vandræðum, sem af þeim geta hlotist. Hv. þm. (TrÞ) má vera viss um, að ef úrskurður gerðardóms t. d. þykir vilhallur, eða í einhverju ekki rjettur, þá er hætt við, að honum verði ekki hlýtt af þeim, sem þykjast misrjetti beittir. Og það er ómögulegt að búa svo um hnútana, að ekki verði e. t. v. sagt, að einhverjum sje gert rangt til.

Hv. þm. (TrÞ) talaði um, að það væri hart, að þingmenn skyldu þurfa að semja frv. um þessi efni, í stað þess, að stjórnin gerði það. Mig minnir nú satt að segja, að það sje ekkert nýtt, að þingmenn beri fram frv. hjer á Alþingi, og hv. þm. Str. (TrÞ) ekki síður en aðrir. Annars býst jeg við, að hv. þm. (TrÞ) hafi tekið upp frv. um sáttasemjarann nú, til þess að finna sjer eitthvað til afsökunar fyrir að vera á móti þessu frv.

Jeg kannast alls ekki við, að hafa haft háðuleg ummæli um hv. þm. (TrÞ), síst fyrir það, að hann væri fulltrúi bænda hjer á þingi, og vísa jeg því á bug umælum hans hjer að lútandi. Hún var dálítið spaugileg, þessi hótun hv. þm. (TrÞ), sem líklega heldur, að hann sje orðinn annar I. C. Christensen, um að koma með bændur til að skakka leikinn, og enn að flytja Alþingi upp í sveit, ef verkamenn og vinnuveitendur hjer í bænum halda sjer ekki í skefjum. Jeg hjelt, að hann vildi þá flytja það alla leið norður á Strandir, í viðurkenningarskyni við þá, sem hafa sent hann á þing. En þar sem hann nefndi aðeins að flytja þingið til Þingvalla, þá er jeg ekki viss um, að það verði alveg laust við alla verkamenn og vinnuveitendur, þó að það verði flutt þangað. (TrÞ: Þá er að flytja það norður á Strandir).

Þá var hv. þm. (TrÞ) voðalega hreykinn yfir samanburðinum við Danmörku, og gerði mikið veður út af því, að jeg skyldi ekki telja ótækt að stofna varalögreglu, þar sem bændur og íhaldsmenn í Danmörku vildu ekkert hafa með hana að gera. Fyrst er því að svara, að jeg hefi aldrei talið mjer skylt að skrifa skilyrðislaust undir alt, sem danskir íhaldsmenn segja. Auk þess er sá hængur á þessum samanburði, að danskir bændur og íhaldsmenn vilja halda í herinn, vilja ekki láta afnema hann og fá eingöngu varalögreglu í staðinn. Er því hjer ólíku saman að jafna.

Hv. þm. (TrÞ) var svo óheppinn að segja, að hann óskaði, að jeg vildi einhverntíma oftar fara eftir skynsamlegum tillögum Tímans, og viðurkendi þar með, að jeg hefði farið eftir þeim í þessu máli. Öðruvísi voru orð hans ekki skilin. En þegar jeg nú er í samræmi við yfirlýsta, skynsamlega skoðun Tímans í þessu máli, hvað skeður þá? Þá rís einmitt ritstjóri Tímans, hv. þm. Str., upp öndverður á móti og segir till. mínar óalandi; ekki einu sinni þess verðar, að þær sjeu athugaðar í nefnd. Það vantar ekki samræmi þeim megin.

Um kostnaðinn samkv. frv. þessu ætla jeg ekki að tala við hv. þm. (TrÞ), heldur hitt, að hann sagði, að jeg hefði hneykslast á því, að nefndar væru byssur í sambandi við varalögreglu. Nei, jeg hefi aldrei hneykslast á því. Það gæti meira en vel komið fyrir, að einhver stjórn vildi fá varalögreglunni skotvopn í hendur. Í Þýskalandi t. d. hefir lögreglan daglega skammbyssur að vopnum, og notar hún þær oft. En á Norðurlöndum er þessu ekki þannig varið, og er harla ólíklegt, að sá síður verði hjer upp tekinn, sem ekki þekkist meðal annara Norðurlandaþjóða.

Jeg hefi ekki viljað stinga neinu undir stól, heldur segja það, sem jeg meinti, þegar jeg flutti frv. þetta. Það getur meira en vel verið, að öflugrar lögreglu þurfi með, til þess að skerast í leikinn, ef óeirðir spretta upp af kaupdeilum, eins og yfirleitt, ef óeirðir ógna friði og öryggi borgara þjóðfjelagsins. Það getur komið fyrir, að lögreglan þurfi að sefa á báðar hliðar.

Jeg skil varla, hvað hv. þm. (TrÞ) meinar, þegar hann er að tala um, að mikið muni hlaðast utan um þessa heimild, sem frv. fer fram á, og hann kallar takmarkalausa. Jeg vil benda á samanburð minn fyr í þessu máli, í sambandi við ýmsar aðrar heimildir, sem stjórnin hefir samkv. öðrum lögum, eins og jeg drap á í gær.

Það er vitanlega fákunnátta hv. þm. (TrÞ) í lögum, sem veldur því, að hann talar um 16 ára lífstíðarfangelsi, en það er tiltölulega saklaus villa, samanborið við ýmsar aðrar, og ætla jeg því að leiða hjá mjer að fjölyrða um það atriði.

Jeg kannast alls ekki við, að hafa kvartað undan ummælum hv. þm. (TrÞ) eða undan tíðindum þeim, sem hann flutti frá Danmörku. Mjer þótti miklu fremur vænt um, að hann mintist á þessi dönsku deilumál. Jeg hafði ekki hugsað mjer að blanda þeim inn í þessar umr., en fyrst það hefir verið gert, þá skal jeg taka það fram, að mjer virðast þær deilur fremur snúast hv. 2. þm. Reykv. (JBald) í óhag, þar sem þær sýna, að skoðanabræður hans í Danmörku eru á líkri skoðun í þessu og stjórnin hjer.

Mjer hefir oft verið borið á brýn, að jeg stæði nálægt skoðunum jafnaðarmanna í ýmsum málum. Og það er rjett, að jeg hefi altaf viðurkent, að margar till., sem jafnaðarmenn hafa borið fram, hafi verið spor fram á við, enda hafa þær unnið sigur í mörgum löndum. Það, sem fyrir fáum árum þótti óalandi, hefir nú hlotið viðurkenningu svo að segja alls hins siðaða heims. Enda er það ekki sjaldgæft, að íhaldsmenn og jafnaðarmenn taki höndum saman í ýmsum málum og hrindi þeim í framkvæmd, þó að þeir annars standi oftast andspænis hvorir öðrum í stjórnmálum. Það þarf því engan að undra, þó að jeg hafi oft viðurkent ýmislegt af áhugamálum jafnaðarmanna og staðið nærri skoðunum þeirra í ýmsum málum, þó að jeg hinsvegar kannist ekki við, að hafa skjallað þá eða smjaðra fyrir þeim, eins og hv. þm. Str. vildi gefa í skyn.

Nú talar hv. þm. (TrÞ) um, að bœndurnir sjeu þeir einu, sem geti bjargað þjóðinni. Í fyrri ræðu hans voru það sjómenn og verkamenn. Á skammri stund skipast veður í lofti.

Þá breiðir hv. þm. (TrÞ) sig mikið yfir þann innileikans blæ, sem á að hafa verið á ummælum mínum um dönsku jafnaðarmannastjórnina. Jeg skal kannast við, að jeg hefi sýnt þessari stjórn fulla kurteisi, og enda hefi jeg ekki annað en gott til hennar að segja. Viðskifti vor við það ráðuneyti hafa verið hin vinsamlegustu. Hví skyldi jeg þá ekki tala vinsamlega um það.

Það er rjett, að jafnaðarmannastjórnir hafa setið við völd í Svíþjóð, Danmörku, Englandi og jafnvel víðar, og hefir ekki borið á því, að þær stjórnir hafi verið byltingagjarnar eða reynt til að umsteypa þjóðskipulagi þessara landa. Að því leyti má segja, að þessar stjórnir hafi verið íhaldssamar, enda hafa þær verið úr flokki hinna gætnari og íhaldssamari jafnaðarmanna.

Nei, — það er alls ekki hlægilegt, að sýna stjórn vinsamlegs ríkis fulla virðingu og vinsemd, hverrar pólitískrar skoðunar sem hún er. Ef nokkuð er hlægilegt í þessu sambandi, þá eru það ummæli hv. þm. Str.

Hv. þm. (TrÞ) sagði, að jeg hefði líklega ekki fengið að sigla með stjórnarfrv. á fund konungs. (TrÞ: Jeg sagðist hafa heyrt þetta.) Já, það sagði Gróa gamla á Leiti líka. Ólýginn sagði henni. Mjer er alveg óskiljanlegt, að þessi hv. þm. (TrÞ) skyldi fara að finna að þessu. Jeg gat betur skilið einn hv. þm. í hv. Ed., sem drap á þetta atriði þar, ekki alls fyrir löngu. Jeg get sagt hv. þm. (TrÞ) það í fullri einlægni, að jeg ákvað mjög snemma að sigla ekki sjálfur með stjórnarfrv. að þessu sinni. Þegar í utanför minni síðastl. vor ljet jeg þess getið, að jeg óskaði eftir að þurfa ekki að fara þessa ferð, til þess eins, að bera nokkur stjfrv. upp fyrir konungi. Jeg fæ ekki sjeð, að brýn nauðsyn beri til þess, að forsrh. taki sjer 6 vikna ferð á hendur, til þess eins, að framkvæma hálftíma verk, sem hœgt er að framkvæma með skriflegri tillögu. Það er satt, að það er nýr siður að sigla ekki með eitthvað af stjfrv., en það er alls ekki nýr siður, að mörg stjfrv. sjeu send á þann sama hátt, er farið var með öll frv. nú. Það kemur fyrir árlega. Jeg get því ekki annað en undrast stórum, þegar þessi hv. sparnaðarþm. (TrÞ) fer að finna að þessari ráðstöfun, sem einkum var gerð í sparnaðarskyni. (TrÞ: Jeg var ekki að finna að þessu.) Hversvegna fjölyrðir hv. þm. (TrÞ) svo mikið um þetta atriði? Var það einungis til að koma að sögunni, sem ólýginn hafði sagt honum?

Annars þykir mjer leitt að þurfa í hverju máli að fara um alla heima og geima. En jeg er stundum neyddur til þessa af ýmsum hv. þm., sem eiga bágt með að halda sjer að málefni því, sem er til umræðu í hvert skifti.

Þá þarf jeg ofurlítið að svara hv. 3. þm. Reykv. (JakM).

Það er alveg óþarfi fyrir þennan hv. þm., að vera að afsaka sig, þótt hann fylgi Framsóknarflokknum í mörgum málum; a. m. k. er það óþarfi gagnvart mjer. Jeg hefi engar kröfur til hans að gera í því efni, enda hefi jeg aldrei borið traust til hans. Hitt, sem jeg sagði við hv. þm. (JakM), að jeg hefði vonast eftir því, að hans veglega embætti legði nokkur bönd á hann, þannig, að framkoma hans gagnvart stjórninni væri sæmileg, þarf máske skýringar við.

Jeg skal þá fyrst taka það fram, að jeg tel það talsvert athugavert, að forstöðumenn hvors bankans sem er hjer, taki mikinn þátt í hinum pólitísku deilum. Peningamálin eiga að vera hlutlaus, og menn eiga að geta treyst því, að flokkadeilurnar komist ekki inn fyrir dyrnar á bankastjóraherbergjunum. Þessa hefir ekki verið gætt sem skyldi, og jeg er ekki að ásaka neinn flokk sjerstaklega fyrir það, en niðurstaðan hefir verið sú, að bankarnir hafa verið dregnir inn í flokkabaráttuna, engum til gagns, en til tjóns fyrir marga. Nú vil jeg ekki halda því beinlínis fram, að bankastjórar megi ekki sitja á þingi; en ef þeir eiga þar sæti, þá tel jeg, að staða þeirra eigi að leggja bönd á þá. Það er yfir höfuð áhugamál allra banka, að þeim sje haldið fyrir utan pólitík, því að þeir verða að vinna mikið saman við hverja stjórn, sem er í landinu, enda er það svo mjög áriðandi fyrir þjóðfjelagið. Nú veit jeg ekki, hvort menn telja það líklegt til góðrar samvinnu, að bankastjóri og ráðherra ausi hvor annan auri í þingsalnum, en gangi síðan upp í stjórnarráð, til þess að semja um mestu vandamál þjóðarinnar. Jeg álít, að þessi aðstaða eigi að leggja þau bönd á, að þeir komi sæmilega fram hvorir gagnvart öðrum, þó ágreiningur sje í öllum málum.

Jeg hefi áður látið í ljós skoðun mína um það, hversu veglegt jeg teldi embætti það, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir nú. Þegar lögin um það embætti voru á ferð í hv. Ed., sagði jeg meðal annars þessi orð:

„En þess verður að gæta, að það kemur því aðeins að gagni, að valinn verði til starfans maður, sem nýtur almenningsálits, maður, sem er bæði glöggur og einarður, og ekki síst óháður peningastofnunum landsins og öðrum. Ef vel tekst valið, getur orðið ómetanlegt gagn að eftirlitinu, en aftur á móti, ef illa tekst val mannsins, verður þetta að engu liði, nema síður sje.“

Forsætisráðherra þáverandi lýsti því yfir, að hann væri algerlega samþ. þessu, og jeg taldi það sem loforð um, að eftir þessu yrði farið.

Út frá þessari skoðun minni hefði jeg talið æskilegast, að eftirlitsmaðurinn sæti ekki á þingi, væri utan við flokkadeilurnar, eins og t. d. hæstarjettardómendur eru nú. Má vera, að sú skoðun mín sje ekki rjett, að hann megi alls ekki sitja á þingi. En hins þóttist jeg mega vænta, að sæti hann á þingi, þá legði embætti hans þau bönd á hann, að hann væri ekki að nauðsynjalausu sjerlega illvígur í garð hverrar stjórnar sem væri. Að hann mætti ekki vera í andstöðuflokki stjórnarinnar eða t. d. bera fram vantraust, það hefir mjer aldrei dottið í hug. Aðeins að hans framkoma gagnvart stjórninni ætti að vera fullkomlega þingleg og sæmileg. Getur verið, að aðrir líti öðruvísi á þetta. En þetta er mín skoðun, og það, sem jeg lýsti yfir sem skilyrði þess, að jeg gæti samþ. frv. um eftirlitsmanninn.

Þá kem jeg að hv. 1. þm. Árn. (MT). Hann tók upp þykkjuna fyrir hv. 3. þm. Reykv. (JakM), af því jeg ljet það í ljós, sem jeg nú hefi lýst, að jeg hefði vonast eftir, að sá hv. þm., vegna hinnar veglegu stöðu sinnar, gætti fulls velsæmis í andstöðu sinni gegn stjórninni. Og hv. 1. þm. Árn. þóttist skilja það, að jeg mundi ekki síður heimta það sama af honum. En hv. þm. skjátlast algerlega í þessu efni og í öllu tilliti. Fyrst er nú það, að jeg tel hans embætti, þó virðulegt sje, á engan hátt saman berandi að þýðingu við embætti hv. 3. þm. Reykv. (JakM), og alt aðrar ástæður fyrir því, hversvegna jeg hefi sagt þetta við hv. 3. þm. Reykv., ástæður, sem alls ekki koma til greina, er talað er um sýslumannaembætti, eða að minsta kosti í svo miklu minna mæli. Svo er jeg alveg sannfærður um, að hv. 3. þm. Reykv. þykir það enginn greiði, að hv. 1. þm. Árn. sje að verja hann. Hv. 3. þm. Reykv. gerir það miklu betur sjálfur.

Og hv. 1. þm. Ám. (MT) má ekki ofmetnast svo, að hann haldi, að jeg vilji jafna þeim saman, hv. 3. þm. Reykv. (JakM) og honum. Þótt við hv. 3. þm. Reykv. sjeum óvinir, eða rjettara sagt, hann sje hatursmaður minn, þá vil jeg alls ekki jafna þessum tveim mönnum saman. Mjer hefir ekki dottið í hug að búast við, eða nefna það, að þessi hv. þm., 1. þm. Árn. (MT), komi sæmilega fram í hv. deild. Það væri mikil ósanngirni að ætlast til velsæmis af þessum hv. þm. í þingdeildum. Slíka ósk myndi hv. þm. (MT) ekki einusinni skilja.

Ræðu hv. 1. þm. Árn. mun jeg annars svara fáu einu. Hún var mestmegnis óþokkaleg árás á mig persónulega, og að nokkru leyti á mig sem dómsmálaráðherra. Gersamlega órökstuddar dylgjur. Hann sagði, að jeg gerði landinu ósóma, bæði inn á við og út á við, sem dómsmálaráðherra. Slíkum orðum svara jeg alls ekki. Þó má vera, að jeg svari, ef hv. þm. reynir að koma með nokkur rök í þessu efni.

Það, sem hv. þm. talaði um frv., var hvað á móti öðru. Stundum virtist hann ekki telja neina nauðsyn á viðbót við lögregluna hjer, en annað veifið var hann að tala um varalögreglu, öðruvísi fengna en frv. gerir ráð fyrir, nefnilega fjölgun tollþjóna, og hafa þá fyrir varalögreglu. Enn að hafa brunaliðið fyrir varalögreglu, og endaði svo með því að gefa í skyn, að er þetta frv. væri úr sögunni, þá ætlaðist hann til, að upp risi ríkislögregla. Jeg geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. ætlist til þess, að nokkur maður telji slíkan vaðal svaraverðan.

Hv. þm. (MT) talaði um það annað veifið, að það væri óþarfi, að lögregla þyrfti nokkuð til að koma, þótt einhver órói yrði út af kaupdeilum; samtökin væru svo öflug meðal vinnuveitenda, að verkamenn gætu ekki á unnið.

Þetta er alveg fáránleg staðhæfing. Sumir, sem hlustuðu, hjeldu þetta vera mismæli, en jeg býst við, eftir öðru hjá hv. þm. (MT), að þetta hafi verið í alvöru mælt. Það sanna er, að fullkomið skipulag og samtök á sjer stað meðal verkamanna, en meðal vinnuveitenda er varla hægt að tala um slíkt, að minsta kosti svo, að lag sje á. Ummæli hv. þm. um þetta atriði eru alveg öfug.

Þá sagði hv. þm., og með miklum móði, að einhver íhaldsmaður, sem hann var svo göfugur að vilja ekki nefna, hefði sagt sjer, að menn hefðu ekki komið til hjálpar lögreglunni við vatnstökuna við hafnarbakkann, af því að þeir hefðu ekki viljað það. Jeg held, að hv. þm. hefði verið óhætt að nefna manninn. Þetta er það, sem allir vita, og það, sem við hv. þm. V.-Sk. (JK) höfum sagt.

Hv. þm. bar það ekki beint upp á mig, að jeg hefði sagt pósitívt rangt frá atburðunum, sem jeg nefndi í ræðu minni, en skýrslan hefði verið röng vegna þess, hverju jeg hefði slept. Það hefði verið til þess ætlandi, að hann segði það, hverju jeg hefði slept, er gerði skýrsluna ranga.

Árásir hv. þm. á Íhaldsflokkinn ætla jeg að leiða hjá mjer, að svo vöxnu máli. Jeg furða mig ekki á því, þótt hann sje smánaður af andstæðingum. Hann hefir af hv. þm. verið talinn kominn í stað Heimastjórnarflokksins, og jeg lít svo á einnig; og það hefir verið sjerstaklega einkenni þessa flokks að framkvæma, gera eitthvað. Hinir, sjerstaklega Framsóknarflokkurinn, hafa eiginlega ekkert sjerstakt einkennilegt, og ekki mikið fyrir sig að bera annað en vaðalinn.

Þá held jeg, að hv. þm. (MT) hafi sagt eitthvað í þá átt, að lögreglan hjer væri sjerstaklega til þess að halda uppi og dylja glæpi íhaldsmanna. Jeg þarf væntanlega ekki að láta þess getið, að slíkum fáránlegum fúkyrðum svara jeg ekki. En máske segir hv. þm., hvað hann á við með þessu.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði horfið alveg frá frv., og að lögreglustjóri kæmi ekki nærri því, sem til væri ætlast með frv., en hefði aðeins tilllögurjett um þá, sem ættu að stjórna liðinu. Í aths. frv. er það sagt með beinum orðum, að það væri alls ekki ætlast til, að nota varalögregluna, nema þegar lögreglustjóri vildi.

Loks skal jeg láta þess getið, að ræða hv. 1. þm. Árn. (MT) sannar að nokkru leyti — og þó á sundurleitan hátt — tvö atriði í fyrri ræðu hv. þm. V. Ísf. í þessu máli, nefnilega það, hvað treysta mætti á innræti, og hitt, að það mundi vera nokkur skríll til í öllum stjettum.

Annars ætla jeg ekki miklu að svara persónulegum árásum þessa hv. þm., nje annara hv. þm. Jeg ætla að láta nægja að gera það með ofurlitlum vísustúf:

Eina kann jeg vísu:

ari sat á steini.

Aðra kann jeg vísu:

ari sat á steini.

Öll er sem ein sje:

ari sat á steini.