11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. síðari kafla (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð, og ætla jeg fyrst að svara hæstv. fjrh. (JÞ). Hann kom inn á þau atriði, sem okkur ber á milli, og sagði viðvíkjandi Búnaðarfjelaginu, að það væri átakanlegt skilningsleysi hjá mjer að vera að telja upp þá menn, sem eiga að ráðstafa fje Búnaðarfjelagsins. Jeg hefi tvisvar áður sagt frá, hverjir sjeu í stjórninni, en aldrei hitt, hverjir ráðstafa fjenu, en það fanst mjer jeg verða að gera, þegar hæstv. ráðherra hefir sagt, að frá þingsins hálfu væri illa frá þessu gengið. En máske er búnaðarþingið ekki óvirðulegri samkoma en þetta þing og ekki ver til þess fallið að ráðstafa fjenu. Svo vel er gengið frá skipun búnaðarþingsins, að jeg held, að Alþingi geti rólega lagt í þess vald að ráðstafa peningunum.

Það er alveg rjett, að jeg hefi ekki lið fyrir lið gert grein fyrir, til hverra framkvæmda eigi að nota hækkunina. Satt að segja hjelt jeg, að hjer í hv. deild bæru menn það traust til búnaðarþingsins, að það væri óþarfi. Jeg ætla heldur ekki að gera það núna, en aðeins minna á, að fyrir fjvn. hefir verið gerð glögg grein fyrir þessu, lið fyrir lið. Jeg get ekki verið að draga það inn í fjárlagaumræðurnar, þar sem altaf eru uppi raddir gegn því, að þm. lengi um of umræður hjer á þingi.

Jeg vil bæta því við, að hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að sjer hefði aldrei gefist tækifæri til að fá vitneskju um, hvernig ætti að verja þessu fje. En eftir samkomulagi, sem varð í fjvn. um að fá hækkaðan styrkinn til Búnaðarfjelagsins á yfirstandandi ári, átti að fá samkomulag við hæstv. stjórn um þetta. Búnaðarfjelagið hefir svo fyrir meira en mánuði ritað stjórnarráðinu skýrslu þessu viðvíkjandi, svo að ef hæstv. ráðherra (JÞ) þykist ekki hafa getað fengið tækifæri til að fá vitneskju um þetta, er það af því að hann hefir svo mikið að gera, að hann gefur sjer ekki tíma til að lesa skýrslur, sem búið er að senda honum.

Það gleður mig, að hæstv. fjrh. skuli falla frá því, að ósamkomulag hafi orðið í búnaðarþinginu um kröfurnar til Alþingis. Nú sagði hann, að þetta hefði alt verið ósköp eðlilegt.

Jeg ætla ekki að fara frekar út í samkomulagið í fjvn. Jeg kann ekki við að fara að blanda einstökum mönnum inn í það.

Hvað viðvíkur tekjuskattslöggjöfinni, hefi jeg ekki blandað henni inn í umr., en jeg er hæstv. fjrh. ekki sammála um þennan 613 þús. kr. tekjumissi. Það er sem sje alveg undir hælinn lagt, hvort tekjurnar næðust á næstu árum, því að ef þau verða jafngóð og árið 1924 var, er ekki um tilfærslu að ræða, heldur eftirgjöf og undir öllum kringumstæðum um vaxtatap fyrir ríkissjóð af 613 þús. kr. Jeg get bætt við öðru, sem stungið var að mjer, að í sambandi við varnarvegg þann, sem hæstv. fjrh. talaði um, hefir fjvn. aldrei fyr borið fram eins öruggan vegg og einmitt núna, því að í góðu samkomulagi við hæstv. ráðherra höfum við sett gjaldamegin 600 þús. kr. til afborgana á lausaskuldum. En það var rjett að gera það, og á ekki að þakka.

Þá ætla jeg að víkja fáeinum orðum að kæliskipsmálinu. Hæstv. fjrh. sagði, að það hefði glatt sig, að komið væri fram, að ekki hefði verið rjett að fleygja frá sjer öllum vonum um að koma kjötinu kældu á markaðinn. Það er misskilningur hjá hæstv. fjrh., ef hann heldur, að nefndin hafi gert það. Nefndin ætlaðist til, að jafnframt frystu kjöti væri flutt út kælt kjöt, en hitt áleit nefndin, að útflutningur á kældu kjöti væri svo áhættusamur, að ekki væri hægt fyrir landbúnaðinn að reiða sig á útflutning til Englands, nema hafa frystihús. Vonunum um að geta flutt út kælt kjöt hefir altaf verið haldið, og sem betur fer eru þær altaf að glæðast.