02.05.1925
Neðri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í C-deild Alþingistíðinda. (2867)

69. mál, sala á koksi eftir máli

Magnús Jónsson:

Jeg verð að standa upp til þess að þakka ekki nefndinni fyrir afgreiðslu á þessu máli, þar sem hún vill fella frv. Jeg hefi borið fram brtt. á þskj. 424, þar sem nefndin hefir tekið svo hart á málinu, sem gerir það umfangsminna. Jeg hefi orðið var við, að menn hafa komið með þá mótbáru, að ef kolin væru í stórum stykkjum, mundu menn skaðast á kaupunum, þar sem þá væri hættara við auðum rúmum á milli stykkjanna. Jeg hefi því breytt þessu þannig, að ákvæðið um að selja kol eftir máli nær aðeins yfir gastæmd kol (koks). Þau eru viða seld eftir máli, og gefst það vel, þar sem stykkin eru svipuð að stærð, en aftur á móti munar miklu á þyngdinni, ef vatn kemst að þeim.

Annars ætla jeg ekki að teygja umr. um þetta mál. Jeg sje, að hv. nefnd er viss um, að málið verði felt. Jeg skal geta þess, að þetta er ekkert sjerstakt áhugamál mitt. Jeg hefi lagt það fram til þess að vernda kaupendur kolanna og þá, sem versla með kol og koks og geyma vöruna vel, í samkepni við hina. Svo læt jeg hv. þm. alveg ráða því, hvort þeir telja málið þess vert, að það sje samþykt eða ekki.