11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í C-deild Alþingistíðinda. (2914)

89. mál, dýraverndun

Flm. (Magnús Jónsson):

Þetta litla frv., sem jeg flyt hjer á þskj. 144, er ekkert annað en viðauki, eða rjettara sagt skýring á 1. gr. dýraverndunarlaganna frá 1915, sem lögfræðingar hafa ekki komið sjer saman um, hvernig skilja beri, og dómar þeirra því ekki fallið á eina lund.

Í 1. gr. þessara laga frá 1915 er svo fyrir mælt, að sá, sem misbjóði skepnu eða fari illa með hana á einn eða annan hátt, skuli sæta sektum fyrir meðferðina. Í framkvæmdinni hefir þessum tilgangi laganna verið náð, t. d. í Reykjavík, á þann hátt, að kært hefir verið til lögreglustjóra yfir illri meðferð á skepnum og hann þá látið taka meiddan hest eða haltan eða horaðan af eigandanum, sent skepnuna að Tungu og látið hjúkra henni þar á kostnað eiganda, á meðan hún þurfti með.

Þetta er náttúrlega gott og blessað og eflaust samkvæmt tilgangi laganna, og skepnunni fyrir bestu. En sá er galli á, að þetta verður aðeins framkvæmanlegt samhliða því, að eigandinn er dæmdur til sekta, að hann samþykki dóminn góðfúslega.

Þvertverskallist eigandinn aftur á móti og neiti að sleppa skepnunni, þangað til dómur hefir fallið um sekt hans, greinir lögfræðinga á, hvað hægt sje að gera. Sumir líta svo á, að samkvæmt greininni sje aðeins hægt að dæma eigandann í sekt, en umráðarjett hafi hann yfir skepnunni eftir sem áður.

það virðist því skynsamlegra og óneitanlega í meira samræmi við anda dýraverndunarlaganna, að geta umsvifalaust svift eigandann umráðarjetti yfir þeirri skepnu, er hann hefir misboðið, því að henni er að engu leyti borgið, þó að eigandinn greiði einhverja sekt, en heldur svo ef til vill áfram að þrælka hana. Og þó að sá dómur falli síðar, að eigandinn missi umráðarjettinn, er ekki hægt að framfylgja þeim dómi, því að ef dæmdur áfrýjar dómnum, er rjettarverkun hans horfin, þar til fullnaðarúrslit eru fengin, en það tekur vanalega langan tíma, og skepna sú, er misboðið var, er að litlu hólpnari.

Þessu litla frv. er ætlað, eins og í greinargerðinni segir, að taka af öll tvímæli í þessu efni, og það er borið fram samkvæmt ósk formanns Dýraverndunarfjelagsins. Þessvegna vona jeg, að hv. deild geti fallist á það og lofi því að ganga til 2. umr. og til allsherjarnefndar.