08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í C-deild Alþingistíðinda. (3004)

125. mál, sauðfjárbaðanir

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal ekki bregða fæti fyrir þetta frv., að það fari til landbn., en er því miður hræddur um, að það verði naumur tími til þess að afgreiða það. Jeg vildi aðeins skjóta því til landbn., að hún rannsaki þetta mál og ráðgist um við dýralækni, áður en hún ákveður nokkuð. Jeg get ekki sjeð, að þó að þetta mál sje lagt undir atvinnumálaráðuneytið, að annað verði gert betra en að leita álits dýralæknis um það. Jeg veit, að hann muni leggja á móti þessu baðlyfi, en sú umsögn fer mjög á móti áliti bænda, því að það er fjöldi af þeim, sem óskar að mega baða úr þessu baðlyfi, og það er nærri ótrúlegt, hvað það er víða, sem menn óska þess. En þá kemur það til álita, hvort skuli meira meta, óskir fjáreigenda eða álit dýralæknis. Þetta á nefndin að meta. Jeg hefi fengið óskir úr Dalasýslu, Strandasýslu, Skagafjarðarsýslu, Rangárvallasýslu og Árnessýslu um að mega nota Coopersduft til sauðfjárbaðana, en jeg verð að segja það, að jeg treysti mjer ekki til að fara eftir öðru en því, sem dýralæknirinn segir. Út af því, sem hv. þm. Dala. (BJ) sagði um að þrifaböðun hefði verið þröngvað upp á bændur, þá er það ekki alveg rjett, nema að forminu til. Jeg er alveg viss um, að það kemur bændunum að góðu, því að það leiðir af sjálfu sjer, að þeir þurfa að hafa þrifabað á hverju ári, auk þess sem það er víst hægt að halda fjárkláðanum í skefjum, ef þrifaböðun er framkvæmd vel og vandlega.