12.05.1925
Sameinað þing: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (3199)

131. mál, steinolíuverslunin

Flm. (Sigurjón Jónsson):

Það var önnur ræða hv. 5. landsk. (JJ), sem jeg ætlaði að minnast ofurlítið á. Jeg verð að segja það, einkum um fyrri hluta þessarar ræðu, að hún hafði á sjer annan og betri blæ en fyrsta ræða hans. Hún snerist um málið, sem lá fyrir, og tildrög þess, og er sjálfsagt að eiga orðastað við hann á þeim grundvelli. Jeg sagði, að þessi ræða hv. þm. hefði haft á sjer annan blæ en fyrri ræða hans. Það er af eðlilegum ástæðum, því að hann las mikið upp úr ræðum merkra manna og tilfærði orð þeirra, svo að ræða hans lýsti oft meira skoðun annara en hans eigin skoðun. Þessi upplestur hv. þm. átti að sýna tvent. Í fyrsta lagi, hverjar aðalástæður væru fyrir heimildarlögunum 1917 og hvað þá vakti fyrir þingmönnum, og í öðru lagi, hvort lögin væru sett til að afla ríkissjóði tekna. Jeg ætla að víkja dálítið að þessu tvennu. Það kom fram í fyrstu ræðu minni, að ástæður þeirra þm., sem fylgdu lögunum 1917, voru óttinn við, að einokunin, sem hafði verið óhagstæð, mundi halda áfram. Jeg tók fram þá, að það væri í alla staði eðlilegt, að þm. settu þessi heimildarlög 1917, en hitt var jafnsjálfsagt, að ef þm. komust að þeirri niðurstöðu við að rannsaka málið, að höfuðástæðan til að hrinda því áfram var ekki lengur til, sje gengið inn á aðra braut. Það er hjer, sem okkur greinir á, hv. 5. landsk. og mig.

Jeg lýsti því yfir í fyrstu ræðu minni, og get gert það enn, að jeg hefði talið heppilegra, að þingið hefði 1917 fylgt þeirri stefnu, sem núverandi forstjóri Landsverslunarinnar, Magnús Kristjánsson, lagði til að þingið fylgdi, sem sje að ríkið hefði áfram, í frjálsri samkepni, olíuverslun hjer, svo lengi sem þyrfti, til þess að tryggja mönnum hagstæð olíukaup. Þar fyrir var afstaða þingmanna 1917 til málsins ofureðlileg.

Jeg þykist hafa sýnt með dæmum, sem ekki verða hrakin, að þessar ástæður, sem þá voru fyrir hendi, eru ekki lengur til. Markaðurinn er orðinn það frjáls hjer í Evrópu, að það á ekki að vera og getur naumast verið hætta á því, að við lendum í einokun, eins og hjer átti sjer stað fyrir 1917, í mörg ár. Jeg tók dæmi um innkaup Standard White frá Hamborg, og það sýnir, að það hefði verið hægt að kaupa þessa olíu, sem er notuð að hálfu leyti hjer í landi, það er að segja 20 þús. tunnur af 44 þúsundum, og það verð, sem yrði á henni, hingað kominni, ætti að sanna, að hægt er að kaupa þessa olíu með eins góðu verði og Landsverslunin með einokun getur útvegað okkur. Önnur dæmi mín stefndu að þessu sama. En það er ekki hægt að eiga orðastað við hv. þm., ef hann vill ekki trúa þeim gögnum, sem fram eru lögð í málinu, og segir bara, að best sje að hafa Landsverslun. Maður heyrir altaf þetta sama, að ekkert sje að marka tölurnar, að það sje alt ósannað, sem við segjum, að Landsverslun sje best og því um líkt. Jeg vil því taka það fram, að það, sem okkur greinir á um, er það, að jeg álít, að þær ástæður, sem voru fyrir hendi 1917, sjeu nú ekki lengur til.

Þá kem jeg að hinu atriðinu, viðvíkjandi því, að ýmsir þm. hefðu 1917 álitið, að þessi verslun ætti að vera tekjulind fyrir ríkissjóð. Þessu mótmælti jeg strax í framsöguræðu minni og gat um, að ríkisverslunin væri nú ekki rekin sem ágóðafyrirtæki. Þó að ríkissjóður fái 60 aura af hverju fati umfram lögákveðinn vörutoll, eru það engar tekjur, allra síst þegar þess er gætt, að hann á að bera áhættuna við verslunina, jafnhliða varasjóði hennar, eins og greinilega kemur í ljós, bæði í heimildarlögunum og reglugerðinni. En þar sem hv. þm. vitnaði í ræður þingmanna 1917, vildi jeg, með leyfi hæstv. forseta, mega lesa upp örfáar línur úr umsögn annara þm. um þetta sama atriði. Hv. þm. N.-Þ. (BSv) segir 1917: „Um 2. brtt. er það að segja, að mjer finst steinolía vera vara, sem í versta lagi er til þess fallin, að skattur sje á hana lagður. Jeg hefi áður bent á, að slíkur skattur getur komið ranglátlega niður, því að það getur vel viljað til, að útgerðarfjelag eða útvegsbóndi, sem eyðir lítilli olíu móts við aðra, afli mjög vel o. s. frv.“. Hann leggur sem sje áherslu á, að ekki sje stofnað til verslunarinnar til þess að afla ríkissjóði tekna. Þá segir hv. þm. V.-Ísf. (MÓ): „. . . en eins og málið horfir nú við, eru allar líkur til, að það verði samþykt. Eins og jeg hefi áður tekið fram, þá álít jeg, að 5 kr. gjaldið, sem fyrst var stungið upp á, sje of hátt, og jeg er einnig á því, að 4 kr. gjaldið sje líka of hátt. Jeg get fallist á það, sem einnig hefir verið stungið upp á, að gjaldið sje 2 kr.“. Þetta segir annar þingmaður um þetta atriði. Þá ætla jeg enn að vitna í ummæli þáverandi þm. Ak. (MK). Hann segir: „En það er annað, sem athuga þarf í þessu máli. Það er, hvort tilgangur frv. sje ekki ef til vill sá að útvega landssjóði tekjur. Ef svo skyldi vera, þá verð jeg að álíta, að hjer sje aðeins um grímuklætt skattafrv. að ræða, og virðist það ekki úr vegi, að því sje gaumur gefinn þegar í byrjun, o. s. frv.“. Seinna segir hann: „þess vegna mun jeg leyfa mjer við næstu umr. að koma fram með brtt. við 3. gr. frv., þannig lagaða, að lækka skuli eða fella niður með öllu fjögurra króna gjaldið, sem þar er um að ræða“. Þannig leit þáv. þm. Ak. (MK) á málið.

Núverandi hv. 1. þm. Árn. (MT), sem þá var þm. Ísaf., tók í sama strenginn. Þó að hægt sje að tilfæra þm., sem 1917 litu eins á málið og hv. 5. landsk. (JJ) gerir nú, þá eru aðrir, sem ekki höfðu þá skoðun, og stefna þeirra varð ofan á í þinginu.

Mjer þótti leiðinlegt, að hv. 5. landsk. (JJ) virtist illa snortinn, þegar lesinn var samningurinn, sem gerður var við British Petroleum Co. Jeg veit ekki, hvort fleiri þm. hafa veitt því eftirtekt, en mjer fanst það koma meira við hv. þm. en þótt upplýst væri, að steinolíufatið væri selt nokkrum krónum yfir sannvirði. Jeg veit ekki, hvort það var af því, að hv. 5. landsk. (JJ) áliti samninginn óheppilegan sínum málstað. Jeg hefi ekki rætt um samninginn, þótt mjer væri hann kunnur.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að því, sem bæði hv. 5 landsk. (JJ) og aðrir komu að í sambandi við þau orð, sem jeg ljet falla í garð Magnúsar Kristjánssonar um álagningu fyrir afföllum skulda. Jeg stend við það, sem jeg sagði þá, að jeg álít óheimilt að leggja á útsöluverð olíunnar fyrir afföllum skulda. Jeg get vísað í reglugerð um einkasölu á steinolíu 1922, þar sem segir í niðurlagi 4. gr.: „Hvers árs arður, sem til kann að falla umfram hið ákveðna 22/3 eyris gjald, leggist í veltufjár- og varasjóð Landsverslunar, enda ber hann og það tap, sem verslunin kann að verða fyrir“.

Jeg get sagt hv. 5. landsk. (JJ) það, og öðrum hv. þm., að jeg hefi talað við lögfræðing um þetta, og að hans áliti var það ekki leyfilegt við ákvörðun á útsöluverði á olíu að taka tillit til affalla á skuldum. Hitt er annað mál, að ekki væri hægt að reikna svo nákvæmlega, að ekki gæti orðið neinn hagnaður á þessum rekstri fram yfir sem svaraði 22/3 eyris. Hitt hjelt jeg að jeg hefði tekið greinilega fram, þegar jeg skaut því til hæstv. stjórnar að láta rannsaka þetta, að ef það reyndist rjett, að við ákvörðun á verði olíunnar hefði verið lagt á fyrir afföllum skulda, þá ásakaði jeg forstjóra Landsverslunar og krefðist þess, að þeim yrði endurgreitt, sem hafa keypt olíuna með hærra verði en leyfilegt var að selja hana fyrir. Hjer þurfti enginn óheiðarleiki að koma til greina. Það er rangt að segja, að maður beri þessum manni á brýn óheiðarleika, þó hann hafi skilið regluna öðruvísi en jeg geri. Jeg kom ekki nálægt því, að hann hefði gert þetta í eiginhagsmunaskyni, en hann hefir þarna skarað of mjög eld að köku Landsverslunar. (Rödd í salnum: Stjórnin á að svara fyrir þetta). Jeg er óviss um, að hæstv. stjórn hafi verið búin að sjá þessa skýrslu, þegar jeg sá hana, því hún er nýkomin. Jeg get látið þetta nægja til allra þeirra hv. þm., sem talað hafa um ásökunarorð í garð forstjóra Landsverslunar.

þá skal jeg koma dálítið inn á till. hv. þm. N.-Þ. (BSv) í þessu máli, að vísa málinu til stjórnarinnar. Það mundi leiða til þess, að jafnframt því að steinolíueinkasalan hjeldi áfram veitti stjórnin framvegis meiri undanþágur frá þessari einkasölu heldur en verið hefir hingað til, og mjer skilst, að það mætti ótakmarkað flytja inn til eigin afnota. Því er nú svo varið, að okkur flutningsmönnum og öðrum hv. þm. greinir ekki mjög á í þessu máli. Við kysum það ábyggilega helst, að verslunin kæmist í það horf, að landið þyrfti ekki að hafa verslun með þessa vörutegund. En ýmsir hafa ekki eins góða trú eins og við, að þetta geti tekist bráðlega. Jeg verð að segja hv. þm. (BSv) það, að þessi leið, sem hann leggur til að sje farin, er ekki fær leið, og jeg vonast til, að jeg geti með einstöku dæmi sýnt fram á, að hún nær ekki tilgangi sínum. Með því að gefa einstökum mönnum leyfi til að panta olíu til eigin nota, þá vill hv. þm. (BSv) tryggja það, að Landsverslun selji ekki dýrara en hæfilegt er. En með því að láta einkasöluna standa áfram, en gefa samt einstökum notendum leyfi til að panta olíu fyrir sig, þá mundi þetta reka sig á það, að heildsalar erlendis skiftu alls ekki við þessa menn, af því einkasala er til, og yrðu þeir því að eiga kaup sín við smásala. Jeg hefi heyrt dæmi um þetta, frá verslun í Kaupmannahöfn, sem er ein af stærstu verslunum þar með þessa vörutegund. Eftir að einkasalan komst á var það maður nokkur, sem fór fram á það við þessa verslun, hvort hún vildi ekki halda áfram að senda sjer olíu til Ísafjarðar, ef undanþága gæti fengist hjá stjórninni. Kaupmaðurinn skrifaði ósköp kurteist brjef og kvað það vera móti sínu „principi“, því þar sem einkasala væri til í landinu, vildu heildverslanir ekki selja öðrum en einkasölunni, af því að hún væri heildverslun. Þó einstakir menn fengju leyfi til að panta olíu, þá ná þeir ekki þeim hagkvæmu kaupum, sem hægt er að ná með frjálsri verslun. Meðal annars af þessu get jeg ekki gengið inn á till. hv. þm. N.-þ. (BSv). Þess utan sýnist það hálfkátlegt, ef við ljetum einkasöluna halda áfram, en að jafnframt gætu menn fengið leyfi til að panta olíu eins og þeir vildu til eigin notkunar.

Jeg skal gjarnan geta þess nú, að jeg þykist ekki þurfa að eiga neinn orðastað við hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Okkar skoðanir á verslunarmálunum eru svo fjarri hvor annari, að það er ekki til neins fyrir okkur að vera að karpa. Það leiðir af sjálfu sjer, að þótt hægt væri að sýna það deginum ljósara, að verslun yrði hagkvæmari með því, að einstaklingar rækju hana, myndi hann aldrei ganga inn á það, því hans stefna er einokun á allri verslun. Svo það snertir mig alls ekki illa, þó þessi hv. þm. segi þetta alt hringavitleysu vera. Það er hans orðatiltæki um stefnur yfirleitt, sem hann stendur mjög fjarlægur. Þessi hv. þm. vill sem sagt einoka alt, jafnvel persónulegar skoðanir og athafnir. (JBald: þetta þekkist nú ekki nema í Íhaldsflokknum). Það þekkist ekki í Íhaldsflokknum, enda er það eftir rússneskri fyrirmynd.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) vil jeg enn þá segja það, að breytingin, sem varð á olíuversluninni 1923, þegar einkasalan komst á, hún var ekki til bóta, eftir því sem jeg hefi vit á þeirri verslun. Steinolíuverslunin hjá okkur frá 1920 –1922 var að mínu viti það besta fyrirkomulag, sem við höfum haft af að segja í verslun þessari. Jeg viðurkenni, að ólag var á þessari verslun, og það mikið, fyrir þann tíma. En eftir að einstaklingar fóru að flytja inn olíu og Landsverslun kepti við þá um innflutning, þá var olíuverðið það hagkvæmast; sem hefir verið. Jeg get sagt það hv þm., að það, sem einstaklingar fluttu inn þá af olíu, var ódýrara en sú olía, sem Landsverslun hafði á boðstólum.

Þá vil jeg ofurlítið víkja að því, sem þessi hv. þm. og fleiri hafa haldið fram, að þessa till. hefði alls ekki átt að bera hjer fram og ekki að ræða við eina umræðu. Hv. 2. þm. Árn. (JörB) sagði, að ekki ætti að ræða hana í sameinuðu þingi. Jeg vil segja hv. þm. það, samkvæmt því sem jeg hefi áður sagt í þessu máli, að jeg get ekki skoðað þetta mál sem fjárhagsmál fyrir ríkið, því jeg álít ekki, að þessi einokunarverslun sje tekjulind fyrir ríkissjóðinn, enda ekki sett í þeim tilgangi eða rekin.

Jeg gekk inn á það í gær, að þessi till. væri nokkuð seint fram komin, en sagði ástæður til þess, sagði blátt áfram, að jeg hefði ekki fyrir nema svo skömmum tíma vitað, að það þyrfti yfirlýstan þingvilja til þess að breyta þessu fyrirkomulagi. En eftir að hafa lesið framsöguræðu hæstv. núverandi atvrh. (MG) í þessu máli duldist mjer ekki, að það þurfti þingvilja til breytingar.

Þá var það hv. 1. þm. Árn. (MT), sem hjelt því fram, að stórhættulegt væri að láta Landsverslun versla í frjálsri samkepni. Hv. þm. fór mjög lofsamlegum orðum um forstjóra Landsverslunar, sem hann lýsti sem mjög ábyggilegum og drottinhollum og áreiðanlegum manni í alla staði, og ætla jeg alls ekki að bera brigður á það. En það vill nú svo vel til, að það er hægt að vitna til orða þessa manns fyrir því, að hann áleit heppilegra fyrirkomulag að halda áfram versluninni í frjálsri samkepni það var 1917, eftir að hann hafði kynst talsvert innflutningi á olíu til landsins. Þó hann gengi inn á einkasölu, þá hnekkir það ekki þeirri skoðun hans að hafa frjálsa olíuverslun, en láta jafnframt Landsverslun flytja inn. Ef hv. þm. vill lesa það sem forstjóri Landsverslunar sagði á þingi 1917, þá ætti hann að geta sannfærst um það, að þessu fylgir engin sjerstök áhætta, og að það er ekki verið að ganga inn á neina nýja braut. Fyrir 1922 bar ekki á vöntun á olíu, og fluttu þá inn bæði Landsverslun og kaupmenn. Jeg geri ráð fyrir, að það yrði lagt Landsverslun nokkurn veginn í vald, hvar hún verslaði, og það er trúa mín, að hennar þyrfti ekki lengi við.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta meira. Jeg hefi viljað komast hjá því að kasta hnútum til hv. þm. í þessu máli, og býst ekki við að taka oftar til máls, enda geri jeg ráð fyrir, að þó menn haldi áfram að ræða málið mikið lengur, komi ekkert nýtt fram.