21.03.1925
Neðri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (3233)

98. mál, Krossanesmálið

Magnús Torfason:

Mig langar til þess að leggja hjer fáein orð í belg, og geri jeg það því fremur, sem jeg er ekki í neinu bindindi í þessu máli, eins og hv. flm. (TrÞ).

Það er deilt um, hvort skylt sje að löggilda mælitækin. Engar upplýsingar hafa þó komið fram, er geti leyft mönnum að dæma um það hjer. Ef á mælitækjunum á að byggja, ber að löggilda þau. En ef litið er svo á að allsherjarvottorð þurfi, þá ber að löggilda síldarmálin. Og hafi viðkomandi maður verslunarrjettindi, þá átti að sjálfsögðu að löggilda mælitæki hans, en um hvorugt af þessu hefir neitt komið fram í þinginu.

Það eru tvær hliðar á máli þessu. Veit önnur að Krossanesverksmiðjunni, en hin að hæstv. stjórn. Jeg skal reyna að halda mjer að stjórninni, eftir því sem unt er. Hún fór vel af stað. Sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu var falið að rannsaka málið, og það var rjett. Stjórnin bar sig þá borginmannlega, en svo kemur sá hlykkur á málið, að hæstv. atvrh. er sendur norður til þess að fást við það. Það mun einsdæmi, að ráðherra fari að fást við slík sakamál. Jeg hefi að minsta kosti aldrei heyrt slíkt, og allra síst átti það við, ef sá ráðherra er ekki dómsmálaráðherra. (Atvrh. MG: Fór jeg ekki í öðrum erindagerðum?). Jú, jú, en jeg kem að því seinna. Þetta sýnir, að hæstv. stjórn hefir þótt málið mjög merkilegt. Enda sagði hæstv. atvrh. í gær, að komið hefði skeyti frá mælitækjamanninum, með áskorun um rannsókn á málinu. Og þetta er stórmerkilegt mál, áreiðanlega stærsta fjárglæframál hjer á landi. Eftir skýrslu atvrh. eru 3 aðrar verksmiðjur Norðmanna, sem hafa gerst sekar í þessu athæfi, og málið því enn stórkostlegra en menn höfðu hugmynd um.

Eins og málið horfir við, er ekki annað sýnna en að Íslendingar hafi beðið að minsta kosti 1 milj. kr. skaða, en það geta líka vel verið 2 miljónir. Þess vegna er þetta ekkert hjegómamál, síður en svo.

Þegar hæstv. atvrh. kemur norður, hefir sýslumaður látið fara fram einhverja rannsókn, sem við fáum ekki að vita, hvernig verið hefir. Af skýrslu hæstv. atvrh. er það ekki sjáanlegt, að valdsmaður hafi gert, og virðist hún því hafa verið mjög veigalítil. Úr því að sýslumaður fann ekkert athugavert, átti málið að fara til dómsmalaráðherra beina leið. En þá kemur hæstv. atvrh. til sögunnar og fer sjálfur að vafstra í málinu. Og eftir það, að hann hefir kynt sjer það, finnur hann ekki ástæðu til þess, að sakamálsrannsókn sje höfðuð. Hans aðgerðir urðu því ófyrirsynju. Atvrh. fer svo til Krossaness til þess að skoða einhverjar skrár viðvíkjandi verkamönnum þar. Það er annar hlykkurinn á málinu. Hvers vegna gerði sýslumaður það ekki? (Atvrh. MG: Hann fór þangað). Nú, því var þá hæstv. ráðherra að fara þangað? (Atvrh.: Mátti jeg ekki vera með?). Þetta er alveg einstakt, að ráðherra sjálfur skuli fara að skifta sjer af sakamáli, og þess vegna hefði mátt búast við, að eitthvað hefði orðið úr því, enda er það áreiðanlegt, að hann hefir ætlað að vinna sjer til frægðar. En árangurinn varð enginn eða verri en það. Það hafðist upp úr því, að eftir það neitaði Krossanesmaðurinn að greiða neinar bætur þeim, er hann keypti síld af, en það hafði hann þó áður gert. Mun hann eftir það þóst hafa traust stjórnarinnar.

Það, sem gerir málið að landshneyksli, er það, að ráðherra fer þarna út eftir. Enginn mundi hafa kipt sjer upp við slælega framgöngu lögreglustjóra, en þegar sjálfur ráðherrann skerst í málið, horfir það öðruvísi við. (Atvrh. MG: Eru lögreglustjórar vanir að svíkjast um?). Jeg sagði ekki meira en það, sem jeg get staðið við. Það er misjafn sauður í mörgu fje. (Atvrh. MG: það er víst ekki mikið að marka það, sem hv. þm. segir).

Um skýrslu hæstv. atvrh. er það að segja, að hún hefir fyllilega staðfest almannaróminn um mál þetta, og meira að segja að málið er miklu ljótara heldur en jeg bjóst við, enda hefir hæstv. ráðherra ekki getað borið neinar varnir fyrir sig. Hann hefir borið fyrir sig, að hann hafi drukkið kaffi í Krossanesi, en hann mintist ekkert á það, hvort hann hefði fengið nokkuð út í það. En hvað um það, kaffi mátti hann ekki einu sinni þiggja hjá sökuðum manni. Sjálfur hefi jeg setið í 11 tíma á bæ við að rannsaka mál hjá sökudólgi, og mjer datt ekki í hug að þiggja svo mikið sem kaffi. (JAJ: Var ekki einu sinni haldin veisla fyrir rannsóknardómarann á Ísafirði, heldur virðuleg?). Það veit jeg ekkert um. Nú, svo þegar við komum að því atriði í skýrslunni, að það hafa verið notuð mál, sem tóku 179 lítra, þá hlýtur þetta að gefa ákaflega fastan grun um sviksamlegt atferli, og það er alveg víst, að til þess að ekki sje rannsakað mál, sem þannig er undirbúið, þurfa að vera alveg sjerstakar málsbætur, en jeg hefi ekki orðið var við, að þær hafi komið fram, heldur þvert á móti, því að þegar verið er að tala um þessi mál, er það altaf viðkvæðið, að þessi Krossanesmaður hafi miðað við 150 lítra mál. Hann hefir aldrei borið annað fram. Ef hann sjálfur hefði borið það, að hann hefði keypt eftir öðrum samningum, þá væri öðru máli að gegna, en hann hefir eftir skýrslu hæstv. atvrh. (MG) aldrei borið annað fram, og eftir plöggum, sem komið hafa í blöðum eftir Krossanesmanninum, hefir hann gengið út frá því, að notuð hafi verið slík mál. Svo mætti benda á það, að þessi maður hafði líka norsk, löggilt síldarmál, en hann vill ekki nota þau, og vil jeg segja það, að sá grunur, sem maðurinn hefir felt á sig með þessu, er þannig vaxinn, að vegna stöðu hans virtist sjálfsagt, að hann heimtaði rannsókn; jeg veit ekki, hvernig hann getur legið undir þessu; ef það hefði komið fyrir í Noregi, hefði hann ekki getað komist hjá að heimta rannsókn. Það á þá að hlífa honum, hvað við erum langt úti í Atlantshafinu.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að ef ætti að fara að hefja rannsókn gegn þessum manni, þá væri hafinn eltingaleikur gegn honum, því að ekki væri talað um að höfða mál gegn öðrum Norðmönnum, sem keypt hefðu síld nyrðra og notað röng mál. Jeg vissi alls ekki um það fyr en nú, að fleiri hefðu notað skökk mál en þessi máður, og virðist sjálfsagt að hefja rannsókn gegn þeim líka. Í því sambandi var hæstv. ráðherra (MG) að tala um, að þau væru ekki rjett, gömlu vogartækin, en það voru svo lítil brögð að því, að það er varla eyðandi orðum að því, þó að svolitlu munaði; lóðin voru stundum of þung, og var ekki hægt að fá þau niður fyrir markið fyr en búið var að skafa óhreinindin utan af þeim. Jeg var einmitt á Ísafirði, þegar þetta var gert þar, og get borið um, að þetta voru aðeins smámunir þar.

En þegar hjer er verið að tala um, að maðurinn sje lagður í einelti, þá er líka gott að gá að því, hvaða siður áður hefir verið á landi hjer, og þá man jeg eftir því, að einu sinni var hafin löng og ströng rannsókn á mann út af málefni, sem ekki gat varðað aðra en hann og manninn, sem kærði. Svo var málið dæmt í undirrjetti, og þar var hann sýknaður; svo var rekist með það upp í landsyfirrjett, og var maðurinn sýknaður þar líka. En hjer horfði nokkuð öðruvísi við; kærður var að vísu sjálfur talinn með minni borgurum, en það var Sameinaða gufuskipafjelagið danska, sem kærði, en hjerna er það útlendur maður, sem er kærður, en „simplir“ íslenskir borgarar hinu megin. Í þessu máli ýta ennfremur tvö atriði undir rannsókn, nefnilega að það er svo ákaflega stórt fjárhagsatriði fyrir menn, og það er afarerfitt að koma sönnunum við; t. d. þegar verslað er í búðum, hvernig á að sanna, hvaða mál hafa verið notuð? Það eina, sem hægt er að gera, er að setja opinbera rannsókn á manninn og fá hann sektaðan, og skaðabætur fást engar. Í þessu máli verður erfitt að fá fullar skaðabætur nema rannsókn hafi farið á undan.

En svo er það eitt atriði hjer, sem jeg vil slá föstu, og það er það, að ef notuð hafa verið röng mál sem nokkru nemur, og hjer eru það mörg „prócent“ sem getur munað, þá er það hreint og beint skylda stjórnarinnar að láta rannsaka málið.

Jeg kom að því áðan, að hæstv. atvrh; (MG) sagðist ekki hafa fundið ástœðu til að láta fara fram rannsókn í þessu máli, en það er eitt atriði, sem þessu viðvíkur, sem að minsta kosti er ekki fyllilega upplýst, og það er þetta: Var hæstv. atvrh. (MG) að leika dómsmálaráðherra þarna fyrir norðan, eða bar hann sig saman við dómsmálaráðherrann hjer fyrir sunnan?

Í þessu sambandi gat hæstv. atvrh. (MG) um það, að löggildingarmennimir hefðu ekkert sviksamlegt fundið. Jeg varð, satt að segja, alveg hissa, þegar þetta var tekið fram, því að löggildingarmennina varðar ekkert um annað en stærð málanna, og er það rannsóknardómarans að ákveða, hvaða afleiðingar stærðin hefir. Mjer fanst því hæstv. atvrh. (MG) bera heldur lágt fyrir, þegar hann fór að tala um þetta. En svo er annað: Bar hæstv. atvrh. (MG) þetta undir dómsmálaráðherrann, þegar hann kom suður? Og ennfremur: Hefir sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu sent dómsmálaráðherra. skjölin, eða hefir atvrh. haft skjölin með suður, og þau svo „legast“ hjá honum? þetta hefir talsverða þýðingu fyrir afstöðu ráðherranna til málsins, og þarf vel að athuga. Málið liggur nefnilega þannig fyrir, af því að svo óvenjulega er að farið, að atvinnumálaráðherra ber ekki ábyrgð á því, hvað mælikerin snertir, nema því að eins, að hann játi það á sig, að hann hafi ekki verið í samráði við dómsmálaráðherra. Lengra skal jeg svo ekki fara út í þetta mál að því er hæstv. atvrh. (MG) snertir.

Svo talaði hæstv. dómsmálaráðherra (JM) nokkur orð, en lítið var upp úr þeim að hafa. Hann kom þar fram eins og krakki fyrir skólameistara. Jeg hefi ekki gert það, sagði hann, hæstv. atvrh. (MG) hefir gert það, jeg veit ekki neitt um Krossanesmálið, jeg var ekki dómsmálaráðherra, það var hann.

Jeg skal taka það fram, að jeg greiði atkv. með þessari nefndarskipun, í því skyni, að það verði ákveðið, hvort þingið vill láta fyrirskipa sakamálsrannsókn, því að það hæfir ekki, að þingið skifti sjer neitt af málinu án þess að hafa rannsakað það nákvæmlega.

Enn er eitt atriði, sem vakir fyrir mjer og gerir það, að jeg lít á þetta sem stórmál. Ef við komum ekki lögum yfir þennan mann, eða reynum það að minsta kosti, þá sýnir það, að við komum ekki lögum yfir útlendinga, og ef sá rómur kemst á, þá sje jeg ekki annað en að hjer sje stór háski á ferðum, og að það sje tæplega hægt að gera þessu landi meiri skaða með öðru; og fyrir utan það, hvað þetta er hættulegt vegna útlendinga, sem ganga yfir okkur með allskonar ólöghlýðni, vil jeg benda á, að þetta mál hefir mikla þýðingu fyrir uppihald laga og rjettar yfirleitt. Og jeg hjelt, að það mætti ekki vera slælegra en nú er, og jeg verð að segja það, að ef ekki má hefja rannsókn út af öðru eins máli og þessu, út af hverju á þá að hefja rannsókn?

Hæstv. atvrh. (MG) sagði í lok einnar ræðu sinnar í gær, að hann neitaði að gefa andstæðingum sínum upplýsingar um málið og að láta þá fá plögg í hendur, því að þeir gætu misbrúkað það, stjórninni til skaða. Jeg verð að segja það, að annað eins hefði jeg aldrei búist við að kæmi fram á þingi, og jeg sje ekki betur en að þetta sje hrein og bein rússnesk stjórn, sem á að koma hjer á. Jeg er svo gamall, að jeg man eftir, hvernig farið var að í Danmörku á Estrups-tímanum; ráðuneyti hans neitaði aldrei þingnefndum um upplýsingar í málum, og því segi jeg það, að hjer eigi að fara að innleiða rússneska stjórnaraðferð. En svo jeg víki aftur að Estrups-tímanum, þá varð það að venju, að fjárveitinganefnd þingsins fengi öll skjöl frá stjórninni, hvenær sem hún heimtaði það. Jeg verð að mótmæla þessu eins harðlega og hægt er, og jeg verð líka að mótmæla því, að nokkur stjórn hafi leyfi til að skoða sig í slíku opinberu máli sem hreina og beina flokksstjórn, en annars víkur það að því, að stjórnin þykist í þessu máli hafa meira en mórauða samvisku. En jeg vona, að hæstv. atvrh. hafi sagt þetta í augnabliks geðshræringu.

Þá hefir hæstv. stjórn talað æðimikið um vantraust í sambandi við þetta mál. Jeg hjelt það annars, að hún þyrfti ekki að taka sjer það mjög nærri, þótt jafnaðarmannaflokkurinn hjer á þingi, ekki stærri flokkur, tæki þetta svo, þegar hinn flokkurinn, Framsóknarflokkurinn, hefir lýst yfir því, að það sje alls ekki tilætlunin. (Atvrh. MG: Á það kannske að vera traust?). Þannig sæmir vart manni í ráðherrasæti að spyrja. Eins og hjer geti ekki verið borin fram till. án þess að vera traust eða vantraust? Annars minnir þetta mig á, að í fyrra vildi hæstv. atvrh. (MG) snúa till. frá mjer upp í vantraust. (Atvrh. MG: Já, og hvernig fór svo með þessa till. ?). Það kemur ekki þessu máli við. Annars vildi jeg leyfa mjer að minna hæstv. atvrh. (MG) á það, að hann var að siða einn hv. þm. áðan, sem jeg þó hjelt að væri verk forseta, og að hann gerir sig nú sekan í því sama. En hitt er annað mál, að ef stjórnin vill ekki samþykkja, að þingið fái að sjá þessi skjöl, til þess að það geti rannsakað málið, þá á hún vantraust skilið fyrir það eitt. Það liggur ekkert vantraust í þessu enn þá, en hitt er auðsætt, að ef þingið rannsakar þetta mál, þá gæti það ef til vill orðið efni í vantraust á sínum tíma.

Þá var talað um, að það ætti ekki við að nota þinghelgina hjer til þess að stimpla manninn sem glæpamann. Jeg hefi ekki gert það, svo að jeg þarf ekki að taka það til mín, en menn haga auðvitað misjafnt orðum sínum, og verður hver að gera það eftir sinni sannfæringu. Annars vil jeg benda á, að það virðist vera orðin einskonar trúarjátning hjer á landi, að menn megi gera sig seka í hvaða svívirðingu sem vera skal, en ef nokkur minnist á það, já, þá er hann talinn glæpamaður, og hálfu verri en nokkur glæpamaður.