22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í D-deild Alþingistíðinda. (3323)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Jón Sigurðsson:

Jeg ætlaði raunar ekki að taka til máls við þessa umr., jafnvel þótt jeg ætti ýmsu ósvarað, sem sagt var við fyrri umr. málsins. Jeg bjóst sem sje við, að till. mundi nú ganga nokkurn veginn hljóðalaust til atkv. En þegar svo er komið, að tveim hv. þm. úr hv. allshn. hefir fundist svo mikið við liggja, að þeir hafa staðið upp, þá finn jeg ekki ástæðu til að sitja hjá. Mun jeg nú svara nokkru af því, er jeg átti ósvarað frá fyrri umr., og eins sumu í ræðu hv. frsm. (BSt) nú, sem að miklu leyti var aðeins endurtekning á síðari ræðu hans við fyrri umr. málsins.

Fyrst talaði hann mjög um það, að það væri misskilningur hjá mjer, að hann væri að bera fram sjerstakar till. í fátækramálunum. En hann tók það fram, að hann æskti eftir tillögum, og jeg gat ekki skilið orð hans öðruvísi en að hann væri að gefa væntanlegri nefnd bendingar um það, hvað æskilegast væri í þessum málum. Jeg taldi það því beint skyldu mína að mótmæla sumu, sem fram kom, t. d. um fátækraflutning og sameiginlega framfærslu jafnvel heilla sýslna.

Þá talaði hann enn um reynslu þá, sem gefist hefði af milliþinganefndum, og tók sjerstaklega fram, að milliþinganefnd hefði gefist vel í þessu máli, og því hlyti svo enn að verða. En þótt milliþinganefnd hafi gefist vel fyrir 20 árum, er langt frá því, að það sje sönnun fyrir því, að svo muni enn reynast. Tímarnir hafa breyst, og jeg hlýt að byggja mest á reynslu þeirri, sem fengist hefir af milliþinganefndum undanfarin ár, og hver not hafa þá orðið af starfi þeirra. En öllum er það kunnugt og það er viðurkent af flestum, að tiltölulega mjög lítil not hafa orðið af störfum milliþinganefnda á síðari árum.

Þá talaði hv. þm. (BSt) allmikið um það, að hæstv. stjórn yrði að fá sjer aðstoð, ef hún ætti að greiða úr þessum málum, og gerði mikið úr því, hvað það mundi kosta. Hann taldi jafnvel, að hæstv. stjórn mundi þurfa að fá sjerstaka menn til að rannsaka fyrirspurnasvörin. En jeg býst nú við, að svo miklir starfskraftar sjeu í stjórnarráðinu, að þeir komi þessu af án þess að fá hjálp. Enda var það ekki meining hæstv. atvrh. (MG), að aðstoð yrði að fá til þessa, heldur að hann yrði að leita til færra manna og ráðgast við þá um endanlegar till., eins og eðlilegt og sjálfsagt er að gera.

Lítið hafa menn andmælt einni aðalástæðunni, sem jeg hreyfði gegn því að skipa milliþinganefnd. Það er kostnaðaráætlunin, sem jeg kom með. Sumir hafa staðfest áætlun mína, en aðrir talið hana of lága, og það jafnvel menn, sem samt vilja, að nefnd sje skipuð. Sýnir það, að jeg hefi farið gætilega í sakirnar.

Það er þó ekki aðalatriðið, heldur þetta: Hver verður árangurinn af nefndarskipun? Eru meiri líkindi til þess, að hennar störf yrðu notuð og tekin til greina heldur en þær till., sem stjórnin flytti? Hver ræðumaðurinn á fætur öðrum hefir tekið það fram, að skipa ætti menn úr öllum flokkum í nefndina. Jeg skil það svo, að Framsóknarflokkurinn ætti af einskærum náunganskærleika að sleppa sínum væntanlegu 2 sætum í nefndinni, svo að jafnaðarmenn og jafnvel sjálfstæðismenn komi manni að. Engin slík uppástunga hefir að minsta kosti komið frá Íhaldsflokknum, en hv. frsm. (BSt) hefir talað svo mikið og fagurlega um þetta, að jeg býst við, að Framsóknarflokksmenn sjeu staðráðnir í að víkja úr sætum fyrir hinum. Það er að vísu mjög falleg og virðingarverð ósjerplægni, en á það ber að líta engu að síður, hver árangurinn muni verða, þegar fulltrúar allra flokkanna fara að vinna saman. Vitanlega hafa menn mjög ólíkar skoðanir á þessum málum.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefir t. d. flutt till. í þessum málum, sem jeg býst við að flestir Íhaldsmenn og margir Framsóknarmenn að minsta kosti ættu óhægt með að ganga að. Auk þess eru ýmislega skiftar skoðanir meðal Íhaldsmanna og Framsóknarmanna. Jeg sje því ekki annað en þó að slík nefnd yrði skipuð, þá væru lítil líkindi til, eða að minsta kosti engin trygging fyrir því, að hún mundi vinna saman. Nei, hitt er miklu líklegra, að hún margklofnaði og engar heildartillögur fengjust, einmitt af því að nefndin yrði skipuð eftir flokkalit, en ekki eftir þekkingu á málunum. Yrði þá þingið í jafnmiklum vanda og nú og eins óvíst um framgang málsins og verið hefir. Hugsast gæti líka, því dæmi eru til þess, að eitthvað samsull yrði búið til upp úr öllu saman, sem enginn fengist til að líta við. Þá hefðist kostnaðurinn einn upp úr öllu starfinu. Þá talaði hv. þm. (BSt) töluvert um það, að málið mundi kosta miklu meira, þegar það kæmi inn á þingið, ef stjórnin bæri það fram, en ekki nefnd. Það er eins og hann geri ráð fyrir, að ef nefnd fjallar um það, þá sje það þar með klappað og klárt. En ætli það sjeu ekki tálvonir? Við höfðum hjer fyrir skemstu nál. frá milliþinganefnd til meðferðar, og reynslan varð alt önnur með það. Nei, það er alveg óvíst, hvernig málið færi eða hvort það hefðist í gegnum þingið, þó að það kæmi frá milliþinganefnd.

Jeg held því fast við mína tillögu um það að vísa málinu til stjórnarinnar. Það er á því stigi nú, að sjálfsagt er, að það sje undirbúið af stjórninni. Það er bæði eðlilegast og verður líka ódýrast. Hæstv. atvrh. (MG) hefir tekið vel í að gera sitt til þess að greiða fyrir málinu, og jeg efast ekki um, að hann reyni það. Jeg vil ekki, að gengið sje fram hjá þeim möguleika að fá málið leyst á þennan hátt. Það hefir ekki verið gerð nein tilraun í þessa átt áður. Að vísu eru til drög, nokkurra ára gömul. og ef aflað væri frekari gagna og stjórnin leitaði aðstoðar hjá kunnugum mönnum, sem æskilegt væri að tilheyrðu fleiri flokkum en stjórnarflokknum, þá tel jeg, að málinu væri alt eins vel borgið eins og þótt hóað væri saman mönnum úr ýmsum stöðum á landinu, sem engin vissa væri fyrir að hefðu kunnugleika eða gætu gert skynsamlegri tillögur en aðrir, og ættu svo að sitja yfir þessu ekki aðeins í ár, heldur næsta ár og jafnvel lengur, samkv. því sem tillagan gerir ráð fyrir. Það yrði dýr tilraun, og sýnist mjer ástæðulaust að kosta til hennar að svo stöddu.