22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í D-deild Alþingistíðinda. (3328)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Pjetur Ottesen:

Jeg verð að taka undir með hv. 1. þm. N.-M. (HStef), að mjer þykir töluvert miður, að hv. allshn. skyldi hníga að því ráði að hliðra sjer hjá að afgreiða á venjulegan hátt frumvörp þau, sem þessi þáltill. fer frem á að setja í milliþinganefnd, þ. e. a. s. að láta hvert málið fyrir sig koma til atkvæða í deildinni, og það því fremur, sem hægt hefði verið að sníða af verstu agnúana á kaupstaðalöggjöfinni með frv. hv. þm. Barð. (HK).

Hvað viðvíkur því frv., sem við þrír deildarmenn fluttum um breytingu á sveitarstjórnarlögunum, er óhætt að segja, að frá þeim breytingum er svo vel gengið, að það hefði ekki þurft að taka langan tíma fyrir nefndina að athuga þær. Þær breytingar eru sjálfstæðar og valda engri röskun á sveitarstjórnarlögunum að öðru leyti. Ennfremur gerðum við þá miklu bragarbót á sveitarstjórnarlögunum að draga saman í eitt allar þær breytingar, sem á þeim hafa verið gerðar síðan 1907.

Þetta er í annað sinn, sem frv. um bygðarleyfi hefir verið flutt í þinginu. Það er sjálfstætt mál, og hægt að taka ákvörðun um það nú þegar, og er því öldungis ástæðulaust að slá því á frest að taka ákvörðun um það mál. Jeg hefði felt mig betur við, að nefndin hefði gengið hreint til verks. En fyrir þessa ráðabreytni nefndarinnar er svo komið, að örvænt er um, að málin geti hafst fram á þessu þingi. Fyrst hefir nefndin haldið málinu hjá sjer óhæfilega lengi, og síðan till. kom fram hafa verið þær annir hjer, að ekki hefir unnist tími til að taka málið á dagskrá. Nefndin hefir þannig girt fyrir það, að hægt sje að koma þessum málum fram, þótt þau hefðu nægilegt fylgi til þess í þinginu, og jeg tel það víst, að svo sje.

Þá er á það að líta, hvora leiðina beri heldur að fara, að skipa milliþinganefnd, eins og allsherjarnefnd leggur til, eða vísa málinu til stjórnarinnar. Eftir því, sem jeg les þessa till., skilst mjer, að ekki sje farið í Öfgar í kostnaðaráætluninni hjá hv. 2. þm. Skagf. (JS), þar sem hann gerði ráð fyrir því, að nefndin mundi kosta að minsta kosti 20 þús. kr. Jeg get tekið undir það, að ekki er gert ráð fyrir, að nefndinni vinnist tími til þess að skila nema litlum hluta verkefnisins fyrir næsta þing. Af þessu leiðir, að starfið verður, eftir því sem allshn. hugsar sjer það, langt starf og dýrt. Nú hefir hæstv. atvrh. (MG) lýst því yfir, að honum mundi geta unnist tími til þess að afgreiða það af þessum málum, sem allshn. leggur sjerstaklega áherslu á að búið verði undir næsta þing. Jeg sje ekki annað en að það sje svo einfaldur og óbrotinn hlutur, að sjálfsagt sje að hníga að því ráði að fela stjórninni framkvæmd á þessu. Þótt stjórnin þyrfti að leita sjer einhverrar aðstoðar, þá kemst sá kostnaður ekkert í námunda við það, sem það mundi kosta að hleypa þessari milliþinganefnd af stokkunum. Jeg held því, að úr því sem komið er sje það úrræði skynsamlegast að vísa málinu til stjórnarinnar.

Jeg get ekki tekið undir það, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að það mundi ekki leiða til neins að vísa málinu til stjórnarinnar, og að það gerðu þeir einir, sem ekki vildu neinar breytingar á þessum málum. Hann sagði, að það væri sama, hvað stjórnin kæmi með málið vel undirbúið, það fengi ekki framgang í þinginu. Þetta hlýtur hann að byggja á því, að hann líti þannig á, að þeir, sem eru í andstöðu við stjórnina, mundu verða á móti málinu, hvað vel sem það væri undirbúið, bara af því að hún bæri það fram. Þessu kann að vera svo varið um hann, en jeg held, að það sje rjettast fyrir hv. 1. þm. Árn. (MT) að vera ekki að gera öðrum getsakir í þessu efni. Hann getur dæmt um sjálfan sig, en heldur er óvarlegt fyrir hann að dæma aðra eftir þeim líkum.

Eins og menn hafa heyrt, mun jeg því greiða atkvæði með því, að málinu verði vísað til stjórnarinnar, en er því algerlega mótfallinn að skipa milliþinganefnd í þessu augnamiði, því það leiðir ekki til neins nema fjáreyðslu.