08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í D-deild Alþingistíðinda. (3369)

117. mál, brúargerð á Hvítá í Borgarfirði

þórarinn Jónsson:

Jeg hefi hlustað á svör hæstv. atvrh. (MG) við fyrirspurn minni, og fanst mjer þau vera á þá leið, sem maður svarar um það, sem hann ætlar ekki að gera. Jeg býst því ekki við að spyrja hann oftar um þessa hluti. En eitt vil jeg segja hæstv. ráðherra: Þótt hann hefði játað, að byrja ætti á þessu verki sumarið 1926, þá hefði það verið óhætt gagnvart öllum öðrum hjeruðum, svo sjálfsagt er það. Nú vil jeg því gera enn frekari kröfur, þær, að allar ár í Vestur-Húnavatnssýslu verði brúaðar á næsta ári og að fje því, sem veitt er til brúargerða í fjárlögunum, sje eingöngu varið til þessa. Það er nægilegt til þess, enda verður kostnaðurinn mun minni, ef alt verkið er unnið á einu ári, og hefir vegamálastjóri játað, að rjett sje að gera sem mest í einu. Það verður ekki hægt að áfellast stjórnina fyrir að láta vinna þetta verk, en alt, sem gert er til að setja það hjá, er órjettlæti.

Hæstv. atvrh. kvað fyrirhugað að byrja á þessari brú í Borgarfirði, en jeg tel óviðfeldið, að hæstv. stjórn skuli vera að makka við einstök hjeruð um að kaupa ríkisveðbrjef, til þess að þau geti komið einhverju í framkvæmd, sem er órjettmætt gagnvart öðrum hjeruðum. Það verður að krefjast, að slíkt sje gert opinberlega. Þetta gæti hvert hjerað gert, sem vildi hafa sig til þess að liggja í eyrum stjórnarinnar og bjóða fram fje að láni til einhverra framkvæmda, en jeg tel það með öllu óhæfilegt. Því að það er ekki rjett að láta þau hjeruð sitja fyrir, sem mest geta lagt fram, heldur er þörfin og nauðsynin rjetti mælikvarðinn.

Það er lagt allmikið kapp á að fá þessa tillögu samþykta, til þess að stjórnin geti sagt, að þingið hafi lagt samþykki sitt á þessa ráðstöfun. Annað gæti ekki rjettlætt þetta. Jeg vænti þess fastlega, að hv. deild felli tillöguna, því að verði hún samþykt, mun jeg neyðast til þess að flytja samskonar tillögu um brýr í Vestur-Húnavatnssýslu. Jeg hefði óskað, að hæstv. stjórn hefði vísað tillögunni frá sjer. Þessi aðferð á ekki að eiga sjer stað, og hæstv. stjórn á ekki að fara eftir svona tillögu, þótt hún verði samþykt.