06.05.1925
Neðri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2727 í B-deild Alþingistíðinda. (3459)

116. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Pjetur Ottesen:

Af því að umr. um þetta mál hafa snúist allmikið um það, hvort stöðva eigi gengi krónunnar eða halda áfram í hækkunaráttina, vildi jeg segja nokkur orð, og það því fremur sem þessar umræður eru aðallega fram komnar vegna brtt. á þskj. 393, sem jeg er flm. að ásamt öðrum. Hvað það snertir að stöðva algerlega gengi krónunnar, stýfa hana, eins og það er kallað, þá verð jeg að taka undir með hæstv. fjrh. (JÞ), að erfitt sje að taka afstöðu til þessa máls áður en nærliggjandi ríki hafa tekið ákvarðanir því viðvíkjandi. Það mál þarfnast áreiðanlega mikillar rannsóknar og undirbúnings. Það, sem fyrir okkur tillögumönnum vakti, var það, að okkur þótti ískyggilegt, ef halda ætti áfram hækkun gengisins eins ört og verið hefir. Hækkunin síðan gengisnefndin tók til starfa nemur nú 18—20%, og er þó hækkunin orðin nokkru meiri frá því, sem krónan stóð lægst. Þetta þykir okkur nokkuð hraðfara hækkun, þar sem engin lækkun hefir orðið á framleiðslukostnaði. Virðist hjer stefna í óvænt efni fyrir atvinnuvegina, og því full ástæða til þess að athuga þetta betur. Eins og málið horfði við, þótti okkur sú leið heppilegust, sem farið er fram á í tillögunni. Í fyrsta lagi að draga nokkuð úr orðalaginu eins og það nú er í lögunum um gengisskráninguna, um hækkun krónunnar, og svo að bæta við 2 nýjum fulltrúum í nefndina fyrir hönd útflytjenda. Það hefir verið bent á, að ekki væri rjettmætt að láta fulltrúa atvinnuveganna eina um slíka íhlutun um gengisskráninguna, heldur yrðu þar fleiri að koma til greina. En þegar þess er gætt, að velgengni þjóðarinnar grundvallast á því, að atvinnuvegirnir sjeu í góðu lagi, en það er einmitt hlutverk þessara manna að stuðla að því, að því leyti sem gengisskráningin grípur inn í það mál, þá get jeg ekki betur sjeð en að þessi tilhögun sje fullkomlega rjettmæt. Því engan veginn er hægt að sjá betur fyrir þörfum þjóðarinnar en að stuðla að því, að atvinnuvegirnir geti blómgast og dafnað, og síst af öllu má gera nokkrar þær ráðstafanir af hálfu þess opinbera, er staðið geti í vegi fyrir nauðsynlegri afkomu atvinnuveganna og eðlilegri framþróun á því sviði. Nú hefir hv. fjhn. ekki fallist á þessar till. nema að nokkru leyti. Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði raunar, að nefndin hefði gengið inn á meginhugsunina. En þetta er í orði, en ekki á borði. Það, sem á að tryggja það, að þessari meginhugsun sje fylgt, er að engu gert með því að gera þessa menn í nefndinni áhrifalausa um gengið, þar sem þeir mega ekki taka beinan þátt í skráningu þess. Þeir mega segja álit sitt, en það getur hver sem er gert, hvort heldur er við nefndina eða í blöðunum. Þetta tekur því lítið eða ekkert fram hvorugri þeirri leið, er jeg nú nefndi. Það er kunnugt, að fulltrúar atvinnuveganna hjer hafa farið til gengisnefndarinnar og bent henni á, að mjög væri krept að atvinnuvegunum með svo örri gengishækkun, og lagt fram fyrir nefndina skilríki þar að lútandi. Jeg geri ekki ráð fyrir, að menn þeir, sem skipaðir yrðu í nefndina á þennan hátt, hefðu að nokkru leyti betri aðstöðu til þess að koma fram vilja sínum, úr því þeir eru sviftir beinum áhrifum á skráningu gengisins. Því er það aðeins í orði, en ekki á borði, sem hv. fjhn. gengur inn á meginhugsun okkar tillögumanna, og skil jeg ekkert í því, hvernig á því stendur, að hv. þm. Str. (TrÞ), sem er fyrsti flm. þessarar tillögu, skuli hafa tekið svo snöggum sinnaskiftum að ganga inn á hana.

Það er vitanlega alveg rjett hjá hæstv. fjrh. (JÞ), að eiginlegt gengi krónunnar grundvallast á afkomu þjóðarinnar. En það þótti þó ekki rjett á síðasta þingi að láta það alveg afskiftalaust, hvernig færi um gengi krónunnar samkvæmt þessu lögmáli, og því var nefndin skipuð. Þetta er því eiginlega framhald af gerðum síðasta þings, að auka nefndina eins og við leggjum til.

Hv. þm. Str. vildi ganga inn á þessa brtt. nefndarinnar, gangandi út frá því, að þetta hefði sömu áhrif og verkanir sem bein afskifti þessara manna af skráningu, af því þeir hefðu þingviljann að baki sjer. Mjer skilst, að hættulaust ætti að vera um menn, sem hafa slíkan vilja að baki sjer, þó að þeir hefðu fult vald til jafns við hina nefndarmennina. Hitt er undarlegt form á þingviljanum, að vera að senda menn í nefndina, sem engan ákvörðunarrjett hafa, og þess er ekki að vænta, að þingvilji í slíku formi sje að miklu hafður.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði áðan, að hækkun sú á íslensku krónunni, sem orðið hefir á síðasta ári, hafi ekki orðið atvinnuvegunum til tjóns. Hann hefði heldur átt að orða það þannig, að atvinnuvegirnir hefðu verið færir um að bera hallann. En ef álykta á um framtíðina, þá er rent blint í sjóinn, því að við vitum ekki, hvort við eigum nú slíkt veltiár fyrir höndum og síðast. En það eru fullar horfur á hinu, að framleiðslukostnaðurinn muni ekki minka, heldur aukast. Og þótt þetta ár verði svipað hinu fyrra, sem hæpið er þó að gera ráð fyrir, þá hljóta atvinnuvegirnir að eiga erfitt með að komast fram úr því, ef krónan hækkar jafnt og þjett eins mikið og verið hefir nú að undanförnu. Verð jeg því að segja, að mjer finnast ráðstafanir þær, sem tillagan fer fram á, fullforsvaranlegar.

Hæstv. fjrh. sagði, að verkefni gengisskráningarnefndar sje það að sjá við gengissveiflum. En ef gengið hækkar enn og ekki verður sjeð fyrir því, að dregið sje úr framleiðslukostnaði, þá verða atvinnuvegirnir sjáanlega að draga saman seglin. Og nefndinni getur, skilst mjer, orðið það ofvaxið að sjá við slíkum sveiflum, sem af því geta hlotist.