27.02.1925
Efri deild: 18. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

10. mál, lán úr Bjargráðasjóði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Frumvarp þetta hefir gengið í gegnum Nd. án þess að hreyft hafi verið mótmælum gegn því eða brtt. hafi verið bornar fram. Býst jeg við, að frv. fái líkan framgang hjer í hv. deild, svo að jeg get verið fáorður. Sjóðurinn er stofnaður 1913 og er nú um 600000 kr. og eykst árlega um því sem næst 70000 kr., svo að þess verður ekki langt að bíða, að hann gefi af sjer um 100000 kr. á ári. Hingað til hefir þetta fje verið ávaxtað í Landsbankanum, samkvæmt lögum fyrir sjóðinn, og það fyrirkomulag var mjög eðlilegt í byrjun, meðan sjóðurinn var ennþá lítill, en þegar honum hefir vaxið slíkur fiskur um hrygg sem nú er orðið, er athugandi, hvort ekki væri rjett að láta sjóðinn byrja að starfa samkv. upphaflegum tilgangi sínum. Nú er það líka svo, að sjóðurinn kemur að litlu haldi, ef innflutningsteppa kæmi af völdum íss eða af öðrum ástæðum. Menn stoðar það lítið, þótt þeir eigi fult hús af peningum, ef þeim er ekki auðið að fá neitt fyrir þá. Og út frá þessari hugmynd ber að skoða þetta frumvarp. Það er hvergi farið út fyrir hinn upphaflega tilgang sjóðsins, nema ef það væri það, að gert er ráð fyrir, að hreppsfjelög eigi kost á að fá lán úr honum til að koma upp hjá sjer bústofnslánadeildum. En Nd. hefir samt sem áður ekki talið neitt því til fyrirstöðu, að þetta væri samrýmanlegt við það, sem ætlast var til með sjóðnum í fyrstu. Er enda ekki gert ráð fyrir því, að til þessara lána komi, nema engin eftirspurn verði eftir lánum samkv. öðrum liðum frv.

Þetta frv. fór í Nd. til landbn., og legg jeg til, að það fari til sömu nefndar hjer að lokinni þessari umr.