23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

86. mál, Landhelgissjóður

Forsætisráðherra (JM):

Jeg er þakklátur hv. sjútvn., hversu hún hefir tekið frv. þessu og flýtt afgreiðslu þess. Og jeg er þakklátur þeim tveim hv. þm., er talað hafa um frv. að þessu sinni. Þetta mál hefir nú þegar verið rætt það mikið, og öllum auðsæ nauðsyn þess, að jeg get látið mjer nægja að vera stuttorður.

Það er rjett, eins og þessir tveir hv. þm. tóku fram, að byggingarkostnaður skipsins er smáræði í samanburði við rekstrarkostnað þess. En þó að vitanlegt sje, að hann hljóti allmikill að verða, vænti jeg þó, að það fæli engan hv. þdm. frá því að styðja stjórnina í framkvæmd þessa máls; því altaf má þó vænta nokkurra tekna af skipinu. Jeg er sem sje þeirrar skoðunar, að sektir minki ekki svo mjög við aukna landhelgisgæslu, eins og virtist liggja í orðum beggja þessara hv. þm., er nú hafa talað um frv. Það verða altaf einhverjir til þess að laumast í landhelgina, þó að þrjú skip verji hana; að eins verður erfiðara fyrir þá seku að sleppa, eftir því sem gæslan eykst. Landhelgissjóður mun því altaf fá einhverjar sektir, sem óbeinlínis draga úr rekstrarkostnaði skipsins.

Jeg læt mjer nægja þessi fáu orð, en vona, að þetta frv. mæti sömu velvild hjer í deildinni eins og innan nefndarinnar.

En svona milli sviga vil jeg láta þess getið, að jeg held, að skipið megi síst vera minna en ákveðið er, því að úti í reginhafi um hávetur, þegar allra veðra er von, mun varla veita af, að skipið sje af meðaltogarastærð.